30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Jóhannes Árnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér kemur til umr. í þessari hv. d. og fjallar um breyt. á l. nr. 107 frá 1973, um þörungavinnslu við Breiðafjörð, miðar að því að breytt verði tveimur tölum í þeim lögum: Annars vegar að í stað 60 millj. kr. hlutafjár eða allt að 80 millj. í 1. tl. 3. gr. laganna komi allt að 90 millj. kr., sem þýðir að hlutafjáreign ríkissjóðs á að hækka um 90 millj. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að í stað 140 millj. kr. í 2. tl. 3. gr. laganna komi 940 millj. Það sem hér er um að ræða, er einfaldlega dæmi um þá miklu verðbólguþróun sem hér hefur átt sér stað í landinu á undanförnum tveimur árum. Ég hygg að það sé kjarni málgins. Auðvitað er fleira sem þarna kemur til, hækkanir erlendis og eflaust fleira.

Um það, hvernig til þessa fyrirtækis var stofnað á sínum tíma, hygg ég að þar hafi legið nokkur undirbúningur að baki sem ekki sé ástæða til að efast um að hafi byggst á rökum. Ég vil í þessu sambandi minnast á það, og það kom réttilega fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að það er orðið afar langt síðan áhugamenn fóru að leiða hugann að þangvinnslu á þessum stað. Það mun hafa verið laust eftir 1950 að Sigurður Hallsson verkfræðingur fór að fást þarna við rannsóknir og þær hafa síðan löngum verið kenndar við hans nafn. Um þessa verksmiðjubyggingu og þær framkvæmdir, sem þarna hefur verið ráðist í, vil ég annars segja það, að ég lít svo á að þær hljóti að vera liður í byggðaþróun, og með þessum framkvæmdum er verið að nýta möguleika frá náttúrunnar hendi til þess að koma upp slíkri verksmiðju því að það vita allir að í Breiðafirði, bæði með ströndinni og með eyjunum, er gífurlega mikið magn af hráefni, þörungum, sem á að nota til þessarar framleiðslu.

Varðandi staðsetningu verksmiðjunnar vil ég segja það, að eins og allir hv. þdm. vita hefur þróunin verið sú á þessu svæði að þar hefur átt sér stað veruleg fólksfækkun um langt árabil. Fólksfækkunin hefur orðið vestan að og þar hefur heilt sveitarfélag, Múlahreppur, sem áður var blómleg byggð, svo til alveg farið í eyði, Gufudalssveit, sem er næst, er komin langleiðina. Og þá er komið að Reykhólahreppi, en tveir syðstu hrepparnir þarna, Reykhólahreppur og Geiradalshreppur, hafa haldið sínum íbúafjölda nokkurn veginn nú undanfarin ár. Það sem þarna vantar er þéttbýlismyndun og til þess að hún geti orðið þarf að koma upp atvinnustarfsemi, nýjum atvinnugreinum, og það er einmitt það sem þarna er verið að gera. Og Reykhólar eru valdir af fleiri en einni ástæðu. Ég vil benda á það að þar er heitt vatn og boranir, sem þar hafa verið gerðar, hafa gefið ákaflega góðan árangur. En mér skilst að í sambandi við rekstur þessarar verksmiðju sé heita vatnið einmitt stór liður sem þarna kemur að góðu gagni.

Svo ég víki nokkrum orðum að hafnargerðinni, þá er það alveg rétt, eins og hér kom fram, að upphafleg áætlun um þessa hafnargerð hljóðar upp á um 83 millj. kr. heildarkostnað. Þá var spurningin um það, hvernig ætti að taka á þeirri hlið málsins. Var þá um tvennt að ræða eða kannske öllu heldur þrennt :

Í fyrsta lagi að gera þessa höfn að landshöfn. Nú er það svo með landshafnir að þær byggjast á ákveðnum rökum og sjónarmiðum sem öllum hv. þdm. er um kunnugt. En það sjónarmið átti ekki við við innanverðan Breiðafjörð.

Þá er það í öðru lagi að verksmiðjan byggði þessa höfn sjálf og kostnaður við hana væri liður í heildarfjárfestingunni. Hvorug þessara leiða þótti fær.

Þá er það í þriðja lagi að byggja höfnina samkvæmt hafnalögum, sem þýddi það að þá varð að koma heimaaðild, sveitarfélög sem tækju að sér að standa undir 1/4 hluta kostnaðarins á móti ríkissjóði. Þessi leið varð ofan á og það var leitað til sveitarstjórnarmanna í Austur-Barðastrandarsýslu um að þetta yrði gert. Það var haustið 1973. Þá var boðað til almenns fundar sveitarstjórnarmanna í sýslunni. Það var sýslunefndin sem beitti sér fyrir því og þá kom í ljós að sá hreppur, þar sem höfnin er byggð, Reykhólahreppur, treysti sér ekki til að standa einn að þessari framkvæmd, heldur óskaði hann eftir samaðild hinna hreppanna. Því varð það úr að það var sýslusjóðurinn sem tók að sér að vera þarna aðili á móti ríkissjóði sem samnefnari fyrir hreppana.

Vegna ummæla hv. 1. landsk. þm. um fjárskort til fiskihafna í landinu vil ég benda á og ég held að ég fari rétt með að fjárveiting úr ríkissjóði til þessara framkvæmda við Breiðafjörð sé ekki af þeirri almennu fjárveitingu til hafnanna, heldur er það sérstök fjárveiting. Það er eins með kostnað við hafnargerðina og verksmiðjuna að það er verðbólguþróunin og þau vandamál sem henni eru tengd, hækkanir erlendis og gengisfellingar, sem valda þessari hækkun. Síðast þegar þetta mál var á dagskrá hjá Hafnamálastofnun í kringum áramótin, þá var gert ráð fyrir að það þyrfti 150 millj. kr. frá ríkissjóði og heimaaðilum til þess að hægt væri að gera höfnina þannig úr garði að það mætti taka hana í notkun og með því á ég þá við lágmarksframkvæmdir, þá skilst mér að eftir muni vera að ganga frá hafnarbakka og þekju og því um líku og það eru hlutir sem verða að bíða. Varðandi fjármögnun 25% af þessari heildarupphæð, 150 millj. kr. eða 371/2 milli., er það að segja að þegar hafa verið útvegaðar 20 millj. kr. í þetta. En það er allt í óvissu með það sem á vantar, eða 171/2 millj., og ég fyrir mitt leyti fæ ekki séð að hafnarsjóðurinn, sem stofnaður hefur verið, með þeim tekjumöguleikum sem hann hefur, fái staðið undir öllu meira. Væntanlega þarf þarna til að koma aðstoð frá ríkinu til þess að brúa þetta bil.

Ég sé ekki tilefni til þess að orðlengja þetta meira, en vildi aðeins segja nokkur orð um þetta með því að þetta mál er mér líka skylt.