30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3461 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr. mikið með langri ræðu, frekar en venja mín er hér í d., og ég missti að nokkru leyti af þeim ræðum sem þegar er búið að halda í málinu. En ég vil aðeins segja um þetta mál að ég tel að það sé réttast að atvinnurekendur og verkalýðsfélög semji hér eftir sem hingað til um sín mál eins og verið hefur, en Alþ. sé ekki að grípa inn í þau mál þótt eitthvað skerist í odda á stöku stað. Það er vitað mál, að verkalýðsfélögunum er illa við það þegar Alþ. og ríkisstj. grípa inn í samninga og það er ávallt neyðarúrræði þótt gert hafi verið og meira að segja með mínu samþykki a. m. k. í einu tilviki. Það var alltaf að mínu mati neyðarúrræði og ég tel að þessum málum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda sé best borgið með frjálsri samningaleið.

Ég tel það óréttmætt af hv. 7. landsk, þm. að dæma afstöðu samvinnumanna til verkalýðsfélaga eftir einum árekstri sem orðið hefur. Slíkir árekstrar gerast mjög oft og eru raunar alltaf að gerast og það án þess að það verði efni fyrir fjölmiðla til þess að gera sér mat úr. Og þessum átökum, sem hér um ræðir og sérstaklega er vitnað til í grg. með þáltill. þeirri sem hér um ræðir, uppsögn tiltekins manns hjá Kaupfélagi Árnesinga, lauk með fullum sigri verkalýðsfélagsins og rennir það raunar enn stoðum undir það að till. sé óþörf.

Ég hef auðvitað ekkert við það að athuga að þessi till. eins og aðrar fái þinglega meðferð og að hún fari til n. Ég mun greiða atkv. með því að till. fari til n. eins og minn er háttur um ýmsar till. þótt ég sé efni þeirra andsnúinn.

Ég held að það sé ekki réttlátt að segja að sambúð verkalýðsfélaga og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og kaupfélaganna sé slæm. Ég vitna t. d. til þess sem gerðist á árinu 1971 þegar það var Vinnumálasamband samvinnufélaganna sem gekk fram fyrir skjöldu til þess að leysa yfirvofandi vinnudeilu og lagði þar með brautina að samningum sem gerðir voru til tveggja ára, öllum aðilum í þjóðfélaginu til hagsbóta, því að ekkert er verra en verkföll.

Ég held menn ættu að fara varlega í það að dæma forustumenn samvinnufélaganna til ófrægðar í verkalýðsmálum þó að skorist hafi í odda á einum stað. Það er ekki algild regla. Og ég endurtek það að samvinnufélögin hafa oft á tíðum gengið fram fyrir skjöldu til þess að ná hagstæðum samningum fyrir verkalýðsfélögin. Kaupfélögin eiga víða við erfiðleika að stríða og kaupfélagsstjórar þurfa stundum að gera fleira en gott þykir til þess að bjarga rekstri sinna félaga. Ég er ekkert að tala um það sem skeði á Selfossi, ég veit ekkert um það, en ég bara veit það almennt talað, að kaupfélagsstjórar hafa oft orðið að grípa til harkalegra ráðstafana til þess að sjá þeim félögum, sem þeim er trúað fyrir, farborða.

Ég vildi aðeins, herra forseti, að þessar fáu aths. kæmu hér fram frá mér sem fyrrv. starfsmanni samvinnuhreyfingarinnar áður en umr. heldur lengra áfram.