30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

232. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Stefán Valgeirsson) :

Virðulegi forseti. Landbn. flytur frv. þetta að beiðni veiðistjóra. Er einungis um að ræða hækkun á verðlaunum fyrir að vinna refi og minka með hliðsjón af þeim breytingum á verðlagi sem orðið hafa. Verðlaun þessi hafa verið hækkuð tvisvar áður af sömu ástæðum, árin 1964 og 1971. Hámark verðlauna fyrir að vinna grendýr hefur síðan 1971 verið 700 kr. fyrir fullorðin dýr og 300 kr. fyrir yrðling. En lagt er til að þær upphæðir verði 1500 kr. og 800 kr. Verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr hafa síðan 1971 verið 1100 kr. fyrir hverja tófu, en lagt er til að þau verði hækkuð í 2500 kr. Fyrir hvern mink, sem vinnst, eru greiddar 700 kr. í verðlaun síðan 1971, en lagt er til að þau hækki í 1 500 kr.

Veiðistjóri gerir í bréfi sínu til n. nánari grein fyrir þörf á þessum hækkunum og ég leyfi mér að lesa bréfið hér upp, en það er fskj. með þessu frv., með leyfi forseta:

„Í marsmánuði 1974 skrifaði ég undirritaður til landbn. Nd. Alþ. og ræddi einnig við hv. nm. um nauðsyn þess, að verðlaun fyrir að vinna refi og minka yrðu hækkuð í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa síðan þeim var breytt síðast á Alþ. fyrir 4 árum. Þrátt fyrir góðar undirtektir alþm. náði erindi þetta ekki fullnaðarafgreiðslu á Alþ. áður en hin óvæntu þingslit urðu s. l. vor. Ég leyfi mér því að mælast til að hv. þm. landbn. taki þetta mál fyrir að nýju eins fljótt og auðið er.

Á nýliðnu ári hafa enn orðið miklar verðhækkanir svo núgildandi verðlaun, kr. 1100 fyrir refi og kr. 700 fyrir minka, eru enn lengra frá að ná tilgangi sínum. Þegar l. um eyðingu refa og minka voru samþ. á Alþ. 1967 voru verðlaunin ákveðin kr. 350 á ref og kr. 200 á mink, og þótti þá síst of hátt. Miðað við kauptaxta þá, kr. 20–25 á tímann og nú um kr. 300 á tímann, ættu verðlaunin að vera ca. kr. 4 600 fyrir refi og kr. 3 000 fyrir minka, en verðmunur á skotvopnum, veiðiútbúnaði og bílkostnaði er nú margfalt meiri.

Mér er vel ljóst, að ofangreind upphæð á hækkun verðlauna muni þykja mikil og ekki líkleg til að ná samþykki Alþ. Ég leyfi mér því að benda á eftirfarandi tölu á verðlaunum fyrir unnin dýr og mælist eindregið til að ekki verði lögboðin lægri verðlaun: 1. Fyrir refi utan grenja kr. 2 500. 2. Fullorðin grendýr kr. 1 500. 3. Yrðlingar (á grenjum) kr. 800. 4. Minkar, ungir og fullorðnir kr. 1500.

Að sjálfsögðu væru hærri verðlaun æskilegri og líklegri til enn betri árangurs. Hins vegar er ég þess fullviss, að ofangreindar hækkanir yrðu til mikils gagns í eyðingarstarfinu og veiðimenn legðu sig mun betur fram.

Sú útgjaldaaukning, sem yrði við þessar verðlaunahækkanir á heildarkostnaði, gæti orðið allt að 700–800 þús. kr. vegna refa og um 3 millj. kr. vegna minka, en ríkissjóður greiðir 3á hluta alls kostnaðar. Aftur á móti ber að hafa það í huga, að tímakaup og önnur útgjöld, eins og ferðakostnaður, yrðu lægri vegna hærri verðlauna.

Ég lít svo á, að heildarárangur af dýraeyðingunni hafi orðið góður og að sumu leyti eins og stefnt var að í upphafi. Refum hefur fækkað verulega og er nú sáralítið kvartað undan tjóni af þeirra völdum, miðað við það sem áður var. Allt bendir til, að hægt sé að fyrirbyggja mikla fjölgun þeirra að nýju, ef vel er að þeim málum staðið.

Rétt er að geta þess, að orðrómur sá, sem heyrst hefur, að stefnt sé að gjöreyðingu á íslenska refastofninum, hefur við engin rök að styðjast, enda mun sá misskilningur kominn frá fólki á þéttbýlissvæðum, sem lítið þekkir til þessara mála; a. m. k. hef ég aldrei orðið var við þann hugsunarhátt meðal veiðimanna.

Eyðing villiminka hefur gengið mismunandi vel eftir aðstæðum. Þeim fækkaði mikið fyrstu árin eftir að skipulögð eyðing þeirra hófst, en síðustu tvö árin hefur þeim fjölgað á ný og mun þar koma til m. a. meiri útbreiðsla minksins og minnkandi áhugi veiðimanna. Mest áhersla er lögð á að verja varplönd og veiðivatnasvæði, og eru þau víða vel varin fyrir ágengni minka.

Það, sem mestum erfiðleikum veldur í eyðingarstarfinu, er hvað minkurinn er lítið dýr, sem er dreift um allt landið, svo vart er framkvæmanlegt að ætla sér að elta hvert dýr uppi. Ef borga ætti fjölda veiðimanna tímakaup við slík störf, yrði kostnaðurinn óviðráðanlegur.“

Ég læt þetta nægja úr bréfi veiðistjóra. Ég læt þess getið að n. kallaði hann á sinn fund og veitti hann enn fyllri upplýsingar í sambandi við þessi mál og t. d. um kostnaðinn, hver hann hefði orðið á árinu 1973. Kom í ljós að það er í vaxandi mæli sem verður að fá menn í tímavinnu til þess að stunda þessar veiðar, sérstaklega á þeim stöðum þar sem erfitt er að vinna þessi dýr og þar sem talið er að náttúran sé viðkvæmust fyrir ef þeim fjölgar þar, þannig að landbn. var sammála um að flytja þetta frv. Hún hafði samband við hæstv. ráðh., fjmrh. og landbrh., og þeir féllust á að n. flytti þetta frv.

Ég lít þannig á að það sé óþarft að vísa þessu máli til n. þar sem n. flytur það og er búin að fjalla um það, enda legg ég áherslu á að þessu máli verði flýtt í gegnum þingið svo að það geti orðið að lögum.

Virðulegi forseti. Ég óska þess aðeins að frv. sé vísað til 2. umr., en hef sem sagt ekki till. um að vísa því til n. aftar.