30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3466 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

233. mál, þjónusta hjá héraðsdómstólum við neytendur

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Virðulegi forseti. Till. sú, sem hér er flutt um neytendaþjónustu við héraðsdómstóla, var upphaflega flutt á haustdögum 1973 og þá að áeggjan ýmissa aðila í Neytendasamtökunum. Meðflm. mínir að till. þá voru Eðvarð Sigurðsson, hv. 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, sem nú er horfinn af þingi, Vilhjálmur Hjálmarsson, nú hæstv. menntmrh. Till. hlaut ekki afgreiðslu, aðallega að ég held vegna þess að ýmsir þm. lögðu annan skilning í tilgang hennar en fyrir okkur flm. vakti, fannst hún seilast inn á svið lögmanna og dómara þeim til óhagræðis. En hið gagnstæða er og var ætlunin sem og þjónusta við neytendur, þ. e. leið til auðveldunar og nagræðis ýmsum aðilum. Hér er till. nú endurflutt óbreytt, en auk mín og Eðvarðs Sigurðssonar eru flm. þm. Magnús T. Ólafsson og Sverrir Bergmann. Till. hljóðar svo:

Alþ. ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti nú þegar semja frv. til breyt. á l. og geri aðrar ráðstafanir til undirbúnings því, að komið verði á fót þjónustu við neytendur hjá héraðsdómstólum landsins. Þjónusta þessi verði í því fólgin, að dómari geti ákveðið að mál, sem höfðuð eru af viðskiptavini verslunar eða þjónustufyrirtækis vegna viðskipta við fyrirtækið, hljóti skjótari og ódýrari afgreiðslu en nú tíðkast. Meðferð þessari megi beita við mál, sem varða vörur og þjónustu allt að 50 þús. kr. Við þessar breytingar verði lík þjónusta í öðrum löndum höfð til hliðsjónar, en reglur færðar til íslenskra aðstæðna.“

Hugmynd sú, sem hér er bryddað á, er ekki ný af nálinni, heldur á sér erlendar fyrirmyndir. Víða um lönd hafa menn rekið sig á það að reglur þær, sem gilda um meðferð mála fyrir almennum dómstólum, m. a. til að tryggja réttaröryggi, hafa gert meðferðina of erfiða og kostnaðarsama til úrskurðar deilumála sem skipta lágum fjárhæðum. Bæði frá sjónarmiði einstaklinga og þjóðfélags finnst mörgum þetta hafa óæskileg áhrif, maður, sem hafi réttmæta fjárkröfu fram að flytja, kjósi oft að bera tjón sitt óbætt sökum þess hve þungt sé og seint í vöfum að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Á seinni árum, eftir að neytendahreyfingum tók að vaxa fiskur um hrygg í ýmsum löndum, hefur sú skoðun öðlast æ meira fylgi að skynsamlegt væri að fjalla um minni háttar mál á sviði fjármunaréttar með líkum hætti og þáltill. leggur til. Hafa Bandaríkin alllengi haft þennan eða líkan hátt á við meðferð smámála fjárhagslegs eðlis, bretar fetað í fótspor þeirra nú á síðustu árum og sama má segja um svía. Allt er þetta unnið gegnum gildandi dómkerfin. Það eru ekki settir upp sérdómstólar, heldur málsmeðferðin einfölduð þegar um smámál er að ræða hvað fjárhæðir snertir svo að menn hljóta úrskurð án verulegs vafsturs og biðar. Ekki síst eru reglurnar sniðnar við svonefnd neytendamál.

Hér á landi hefur kvörtunarþjónusta Neytendasamtakanna unnið talsvert gagn og sömuleiðis upplýsingaþjónusta húsmæðra. Þetta er þó fyrst og fremst bundið höfuðborgarsvæðinu, en þyrfti að ná um allt land eins og hér er lagt til um þjónustu hjá héraðsdómstólum við neytendur.

Öll erum við neytendur í einni eða annarri mynd. Stundum erum við hlunnfarin grimmilega í viðskiptum og vitum það með vissu, en nennum ekki að standa í kærumálum og málaþrasi, viljum af tvennu illu bera skaðann óbættan sé hann ekki mjög tilfinnanlegur. Stundum finnst okkur við vera hlunnfarin, bítum í okkur þykkjuna, en leitum ekki álits eða úrskurðar vegna þess að okkur hrýs hugur við fyrirhöfn. Fyrir vikið áfellumst við kannske að ófyrirsynju viðskiptaanda okkar. Með auðveldun meðferðar smámála mætti ugglaust grynna talsvert á slíkum árekstrum og hér er drepið á og væri þá vel.

Það er von mín og trú að hv. alþm. sýni þessu máli skilning og fylgd og skulu það vera mín lokaorð. Ég legg svo til að allshn. d. fái mál þetta til umfjöllunar að umr. frestaðri.