30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

253. mál, þjóðminjalög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Hæstv. forseti. Þetta er stjfrv. og fjallar um breyt. á l. um Þjóðminjasafn Íslands. Í IV. kafla laganna um Þjóðminjasafnið er fjallað um húsfriðunarmálið.

Eins og kunnugt er starfar nú sérstök húsafriðunarnefnd í tengslum við Þjóðminjasafnið. Sá er hins vegar galli á gjöf Njarðar að þessi n. hefur nánast engin fjárráð og á því óhægt um vik að sinna sínu verkefni. Árið 1976 er ekki einasta kvennaár, eins og títt er um talað, heldur einnig húsafriðunarár. Það er því eðlilegt að íslendingar sýni nokkra viðleitni til að glæða skilning og auka möguleika á friðun gamalla húsa hér á landi. Á hitt ber þó fremur að líta að minni hyggju enn frekar að hér á landi er í reynd þörf á auknum aðgerðum og þar með auknu fjármagni til friðunar byggingarsögulegra verðmæta.

Ég læt hjá líða að mestu að rekja einstök efnisatriði þessa frv.. Það er mergur málsins að lagt er til að stofna húsafriðunarsjóð. Starfsemi hans skal vera í nánum tengslum við Þjóðminjasafnið, hann skal lúta stjórn húsafriðunarnefndar, sem þegar er til, en í henni á þjóðminjavörður sæti. Sjóðinn skal ávaxta í einhverjum ríkisbankanna. Í frv. er lagt til að ríkissjóður greiði 20 kr. á hvern íbúa og sveitarsjóður jafnháa upphæð á móti. Þetta mundi gera rúmar 8 millj. kr. á ári. Þetta er kannske ekki mikil fjárhæð, en mundi þó bæta úr brýnustu þörf. Aðstaða til að sinna þessu mjög svo aðkallandi verkefni mundi gerbreytast ef frv. þetta yrði að lögum.

Það er trú margra að íslendingar hafi lítt eða ekki átt sér umtalsverða húsagerðarlist á liðnum öldum, jafnvel allt fram undir okkar daga. Þetta er áreiðanlega mikill misskilningur. Það hefur þegar verið unnið mikið starf við undirbúning og ritun sögu um húsagerðarlist á Íslandi, og ég hygg að sú saga muni hnekkja rækilega þessum hugmyndum sem ég áðan nefndi. Væri betur að útkoma þess rits drægist ekki úr hömlu og það mætti sjá dagsins ljós á hinn svokallaða húsafriðunarári. Er enginn vafi á því að útkoma þess mundi mjög glæða skilning íslendinga á nauðsyn þess að varðveita merkilegar minjar um húsagerðarlist sina á liðnum tíma.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv., því fylgja skýringar og auk þess er málið einfalt og skýrir sig í rauninni sjálft, Ég legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.