30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég hef undirritað þetta nál. með fyrirvara. Ég verð að játa að ég er ekki neinn sérstakur áhugamaður um framgang þessa máls af ýmsum ástæðum, tel rétt að fara sér hægt í þessum efnum með hliðsjón af nýrri og gamalli reynslu, sárri reynslu oft og tíðum. Ég hef þó ekki viljað bregða fæti fyrir frv. af eftirgreindum ástæðum: Í fyrsta lagi er frv. flutt fyrir ítrekaða beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Í öðru lagi er hér aðeins um heimildarl. að ræða, sbr. 1. gr. Í þriðja lagi er í frv. allvel um hnútana búið. Ég bendi þar sérstaklega á 4. gr. þar sem sagt er:

„Áður en Búnaðarfélag Íslands hefst handa um innflutning, skal það hafa aflað samþykkis yfirdýralæknis, sem setur reglur um allt það, er lýtur að sóttvörnum og heilbrigðiseftirliti með dýrunum, eftir að ræktun þeirra er hafin hér á landi.“ Satt að segja verður að játast að yfirdýralæknir er það sker sem ýmislegt af þessu tagi hefur strandað á. Og er það vel að fyllstu varfærni sé gætt í þessum efnum. Í fjórða og síðasta lagi tek ég svo fram, sem raunar er sjálfsagt, að ef og þegar þessi heimild kann að verða notuð verði ýtrustu varúðar gætt í hvívetna.