30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

234. mál, aukin notkun tölvutækni

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 447 að bera fram svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að hún láti kanna hagkvæmni af aukinni notkun tölvutækni við ýmsa opinbera skráningu, svo sem í sambandi við firma- og félagaskrár, skráningu veðréttinda, einkaleyfa, farartækja o. fl.

Leiði þessi könnun til þeirrar niðurstöðu að hagkvæmt sé að nota tölvutækni í auknum mæli við slíka skráningu, láti ríkisstj. athuga hvaða breytingar þurfi að gera á núgildandi löggjöf til að mæta slíkum nýjum starfsháttum og hvernig komið verði í veg fyrir hugsanlega misnotkun tölvuskráningarinnar.“

Allir viðskiptavinir bæjar- og borgarfógeta kannast við þau vinnubrögð sem nú eru notuð við ýmiss konar opinbera skráningu, en þau hafa haldist svo til óbreytt í manna minnum. Fært er inn í bækur með penna og gerð hvers konar afrita tekur oft langan tíma. Þá er firmaskrá og hlutafélagaskrá oft mjög ábótavant og erfitt að finna þar t. d. nöfn stjórnenda og ábyrgðarmanna félaga og stofnana. Augljóst er að bæta mætti mjög vinnubrögð á þessu sviði með því að véltaka þessa skráningu á skýrsluvélar og einnig mætti t. d. ljósmynda veðskjöl á míkrófilmur til að minnka fyrirferð þeirra gagna sem skráningaraðili þarf jafnan að hafa við höndina.

Í sambandi við þetta þarf vafalaust að gera ýmsar breytingar á löggjöf og er því lagt til að ríkisstj. láti kanna og undirbúa málið vandlega og leggja það síðan fyrir Alþ. á nýjan leik.

Í sambandi við löggjöf þessa þyrfti að setja ákvæði um aðgang óviðkomandi aðila að opinberri skráningu til þess að koma megi í veg fyrir hugsanlega misnotkun, en einnig þyrfti að gefa reglulega út ýmsa opinbera skráningu, t. d. firmaskrár, til leiðbeiningar fyrir almenning.

Ég vil að lokum geta þess að ég hef borið þennan tillöguflutning minn undir bæði bæjarfógetann á Akureyri og eina yfirborgarfógeta og báðir hafa tjáð sig hafa áhuga á að slíkt mál nái fram að ganga. Þetta er ekki, eins og allir sjá, neitt pólitískt mál, það er aðeins um betra fyrirkomulag á vinnubrögðum að ræða, sem nú eru orðin gamaldags og úrelt. Ég leyfi mér svo að óska þess að þegar þessari umræðu verður frestað, þá verði málinu vísað til allshn. Nd. til nánari athugunar.