02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur sem hér hafa orðið um gagnsemi eða arðsemi þessara dýra þótt ég þykist sjá að þegar um er að ræða mannýg naut verði erfitt að ná af þeim þessum hagalögðum sem um er að ræða. Og illa líst mér nú á ef hv. nm. t. d. yrði falið að sjá um þennan búskap. Ég hefði gaman af að sjá þegar verið væri — sem ég teldi auðvitað besta ráðið til þess að fylgjast með arðseminni — að vigta þá á undan og eftir.

En burtséð frá allri gamansemi vil ég taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður benti hér á, að það er nýbúið að friða þetta svæði til afnota ekki aðeins fyrir þéttbýlisbúa, heldur og aðra til útivistar. Ef á að fara að hleypa slíkum villidýrum á þetta friðaða svæði fyrir mennina, þá hlýtur sú spurning að koma upp ef eitthvert slys verður hvert á að leita um skaðabætur. Er það ríkisstj. eða eru það þessir áhugamenn; sem hafa beitt sér fyrir málinu á Búnaðarþingi? Og þá kom upp í huga mér, sérstaklega eftir að ég hlustaði á þá hryllingsræðu um ormana sem hér var flutt áðan og reyndar í tvígang, frétt. sem birtist ekki alls fyrir löngu í víðlesnasta og trúanlegasta dagblaði landeins, Morgunblaðinu, þess efnis að frægur kvikmyndaleikari hefði hafið málssókn á hendur veitingastað nokkrum. Hann hafði étið þar ormasjúkt kjöt, — hvort það eru frændormar þeirra orma sem gætu komið til landsins með þessum sauðnautum hugsanlega — skal ég ekki segja um, en hann fór fram á milljón dollara í skaðabætur. Meginskaðinn, sem hafði skeð og var staðfestur fyrir rétti af eiginkonu leikarans, var sá að hann hafði misst kyngetu sína. Og nú vil ég spyrja hv. nm. hvort Vestfirðingar geti átt von á slíku.