02.05.1975
Sameinað þing: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

268. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er lagt til að Alþ. veiti ríkisstj. heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd Félagsmálasáttmála Evrópu sem undirritaður var í Turin á Ítalíu 18. okt. 1961. Þessi sáttmáli er árangur næstum 7 ára starfs innan Evrópuráðsins og er einn þátturinn í viðleitni ráðsins til að vinna að þeim markmiðum sem því voru sett í stofnskrá, en markmið Evrópuráðsins má í stuttu máli segja að sé að stuðla að bættum hag og velferð þegna aðildarríkjanna. Sáttmálinn gekk í gildi í febr. 1965, en þá höfðu 5 ríki fullgilt hann. Nú hefur hann hlotið fullgildingu 11 aðildarríkja, þ. á m. Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, en 6 aðildarríki hafa ekki fullgilt hann til þessa.

Í II. kafla sáttmálans, sem er 19 greinar, eru talin upp þau réttindi sem aðildarríkin skuldbinda sig til að veita þegnum sínum á sviði félags- og vinnumála. Þar er kveðið á um rétt manna til vinnu með sanngjörnum vinnuskilyrðum og kaupi, öryggis- og heilbrigðisráðstafanir, félagafrelsi og samningsrétt verkafólks, verndun vinnandi barna og kvenna, leiðbeiningar við starfsval og starfsþjálfun, heilsuvernd, félagslegt öryggi og aðstoð, endurhæfingu fatlaðra og réttindi erlendra verkamanna og fjölskyldna þeirra o.fl.

Til þess að geta fullgilt sáttmálann þarf aðildarríki að gangast undir skuldbindingar samkv. tilteknum lágmarksfjölda greina í II. kafla hans, en getur undanskilið nokkur ákvæði. Ekki mun Ísland að svo stöddu geta skuldbundið sig samkv. öllum greinum umrædds kafla þar sem ákvæðum þeirra er ekki fullnægt hér á landi. T. d. fullnægir íslensk löggjöf ekki ákvæðunum um vernd barna og kvenna við vinnu né ákvæðunum um leiðbeiningar um starfsval og starfsþjálfun. En nú þegar virðist unnt að uppfylla nægilega mörg ákvæði til þess að fullgilding geti farið fram. Síðar er svo hægt að bæta við öðrum greinum eftir því sem ástæður leyfa og að því ber að sjálfsögðu að stefna.

Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr., og vænti þess að þar verði hægt að hraða því þannig að það fáist afgreitt á þessu þingi.