02.05.1975
Sameinað þing: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

268. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins fagna því að þetta mál hefur nú verið lagt fyrir hv. Alþ. Ég hef hreyft því tvívegis hér á undanförnum árum.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að hér er um einn af mikilvægustu sáttmálum Evrópuráðsins að ræða. Eins og kunnugt er hefur Evrópuráðið staðið að gerð sáttmála um margvísleg efni. En það eru tveir sáttmálar sem ber hæst á vegum Evrópuráðsins. Annar sáttmálinn er mannréttindasáttmálinn, þar sem kveðið er á um mannréttindanefndina og mannréttindadómstólinn, og hinn er sá sáttmáli sem hér er fjallað um, félagsmálasáttmáli Evrópu.

Félagsmálasáttmálinn er merkileg nýjung. Þar sem mannréttindasáttmálinn fjallar um persónurétt einstaklingsins, þá fjallar félagsmálasáttmálinn um félagsleg réttindi einstaklingsins. Með félagsmálasáttmálanum er í fyrsta sinn í samvinnu Evrópuríkja leitast við að framfylgja þessum réttindum undir alþjóðlegu eftirliti.

Það er ekki vonum fyrr að við íslendingar gerumst aðilar að þessum sáttmála vegna þess að við höfum um langt skeið, eða e. t. v. frá því að sáttmálinn tók gildi, haft skilyrði til þess að gerast aðilar að sáttmálanum. Eftir að í höfuðstöðvum Evrópuráðsins á þingi Evrópuráðsins var minnst árið 1971 10 ára afmælis félagsmálasáttmálans hreyfði ég þessu máli hér á hv. Alþ. á þingi 1971–1972 með fsp. til hæstv. utanrrh. Það var tekið vel í þetta mál, en það varð ekki af framkvæmdum. Rúmlega ári síðar hreyfði ég því á nýjan leik með fsp. hér á hv. Alþ. og þá var enn á ný tekið vel í málið, en það hafði ekki orðið neitt af framkvæmdum fram að því. Á síðasta reglulegu þingi var svo borin fram till. til þál. um fullgildingu á félagssáttmála Evrópu. Það var á síðustu dögum þingsins og málið náði því ekki fram að ganga.

Nú hefur hæstv. félmrh. beitt sér fyrir því að málið sé nú á ný tekið fyrir á hv. Alþ. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir það og ég vænti þess að málið verði afgr. á þessu þingi.

Eins og hæstv. félmrh. tók fram eru öll Norðurlöndin, sem eru á svipuðum vegi stödd í félagslegu tilliti og við, fyrir löngu búin að gerast aðilar að þessum sáttmála. Við erum í hópi með 7 Evrópuráðsríkjum sem ekki hafa enn gerst aðilar að þessum sáttmála, en það eru auk Íslands Belgía, Holland, Lúxembúrg, Tyrkland, Sviss og Malta. Þó að þetta séu ágætislönd og ágætisþjóðríki, þá finnst mér fara betur á því að við séum í hópi hinna, sem hafa samþykkt að gerast aðilar að félagsmálasáttmálanum. Þá mundum við fylgjast að með hinum Norðurlöndunum sem standa fremst í félagslegu tilliti og eru þess vegna best umkomin þess að vera virkir aðilar að þessum sáttmála. Þess vegna vil ég ítreka þakkir mínar fyrir það að málið er fram komið og heiti á þá n., sem fær málið til meðferðar, að afgreiða það fljótt svo að það megi verða afgr. á þessu þingi.