02.05.1975
Sameinað þing: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

113. mál, öryggisbúnaður flugvalla

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Hér er hreyft þörfu máli að mati hv. allshn., en till. til þál. er flutt um öryggisbúnað flugvalla og þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera athugun á því, hvernig komið verði upp á sem skemmstum tíma nauðsynlegum öryggisbúnaði á flugvöllum landsins.“

Það er öllum ljóst sem með þessum málum hafa fylgst að hér skortir nokkuð á. N. hefur vísað þessari till. til umhugsunar flugmálastjóra og Félags atvinnuflugmanna og báðir þessir aðilar mæla eindregið með því að þessi till. verði samþ. Flugmálastjóri bendir á í sinni umsögn að það skorti nokkuð á fjárveitingar, skorti nokkuð á að áætlunum hafi verið fullnægt, en hann hefur, hans stofnun, gert till. um hvort tveggja. En í þessu máli eins og ýmsum fleirum hefur verið vandamál að verða við öllum þeim beiðnum sem berast.

Hv. allshn. telur sjálfsagt að gefa þessum málum betri gaum og vill gjarnan fyrir sitt leyti mælast til þess að ríkisstj. geri sérstaka athugun á því, hvernig fjármagna og setja megi upp á sem skemmstum tíma nauðsynlegan öryggisbúnað á flugvöllum landsins, og mælir því með samþykkt till.