07.05.1975
Sameinað þing: 74. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

Rannsókn kjörbréfs

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með því að kjörbréf Þorsteins Þorsteinssonar verði tekið gilt og býð hann velkominn til starfa hér á hinu háa Alþ. Ég treysti því að þau fáu orð, sem ég segi hér á eftir, verði ekki af honum né öðrum skilin þannig að þeim sé beint að komu hans á Alþ. né heldur að þeim flokki, sem hann situr á Alþ. sem fulltrúi fyrir. En ég tel í þessu sambandi vera orðið tímabært að vekja athygli á því að seta varaþm. á Alþ. er orðin alvarlegt vandamál fyrir störf Alþ. Á þessu þingi hefur það gerst 32 sinnum að varamenn hafa tekið sæti á Alþ. Í örfá skipti hefur verið um sama þm. að ræða, þannig að um 30 varamenn hafa setið á þessu Alþ. M. ö. o.: það eru um 90 manns, sem annast hafa þingstörfin í þetta skipti. Ég held að um það geti varla verið ágreiningur, að það hlýtur að tefja fyrir eðlilegum störfum þingsins að svo mikill fjöldi óþingvanra manna taki þátt í störfum þingsins. Auk þess sem af því er verulegur kostnaðarauki, þó að hann standi að vísu engan veginn í beinu hlutfalli við tölu þm., þar sem þm. missa oft af þingfararkaupi sínu ef varamenn taka sæti í þeirra stað þó að það eigi sér engan veginn alltaf stað.

Þetta vandamál er ekki nýtt. Ég minni á það að fyrir 3–4 árum beitti þáv. forseti Sþ., Eysteinn Jónsson, sér fyrir viðræðum milli forseta þingsins annars vegar og formanna þingfl. hins vegar um að þeir gerðu með sér óformlegt samkomulag um að takmarka það eins og unnt væri að varaþm. tækju sæti á Alþ. Okkur, sem um þetta héldum allmarga fundi í lok þess þings, þingsins 1971–1972, varð öllum ljóst að engar lagareglur og engar almennar reglur verða settar sem komið geti í veg fyrir að seta varaþm. verði meiri en góðu hófi gegnir, verði meiri en eðlilegt er. Þetta er því aðeins hægt að takmarka með heilbrigðu samkomulagi milli þingfl., samkomulagi sem þeir gera með sér og þá helst að frumkvæði eða í samvinnu við forseta, samkomulagi sem síðar er haldið. Það var sammæli allra þeirra, sem í þessum fundum tóku þátt, allra þáv. forseta þingsins og allra form, þingfl., að það væri óæskilegt, — auðvitað væri ekki hægt að komast hjá því í mörgum tilfellum að varaþm. tækju sæti á Alþ. Þingsköp gera ráð fyrir því og ástæður geta verið til þess og er fullkomlega eðlilegt að slíkt eigi sér stað. En við vorum líka allir sammála um hitt, að hóf yrði að vera á þessu.

Því miður hefur reynslan ekki orðið sú og á þessu þingi hafa öll fyrri met verið slegin. Það hefur komið fyrir í 32 skipti að varamenn taka sæti á Alþ. Ég hygg að enginn ágreiningur geti verið um að þetta er öðruvísi en vera ætti ef miðað er við heilbrigð störf Alþ. og eðlilegan kostnað af störfum Alþ. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta Sþ., að hann beiti sér fyrir því, annaðhvort í lok þessa þings eða í þinghléi, að fram færu framhaldsviðræður milli forseta þingsins og form. þingfl. um það hvernig stemma megi stigu við því að varaþm. taki oftar sæti á Alþ. en brýna nauðsyn ber til.