26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

9. mál, lántaka fyrir Hafnabótasjóð

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það þarf vart að fara mörgum orðum hér, hv. alþm., um þau greiðsluvandræði sem hafnarsjóðir víðs vegar í kringum landið hafa átt í á undanförnum árum og eiga í enn. Þetta eru vandamál sem öllum alþm. eru kunn og vart ástæða til að rekja. En það hefur á undanförnum árum verið mikið um það talað að ráða þyrfti bót í þessum efnum og koma til liðs við hafnarsjóðina og sveitarfélögin að því er þetta varðar. M.a. beitti fyrrv. ríkisstj. sér fyrir breyt. á hafnal. í þá átt að auka þar hlutdeild ríkissjóðs í greiðslukostnaði.

Fyrrv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar beittu sér fyrir því að upp var tekinn nýr heimildarliður í fjárl., heimild til handa ríkisstj. til að taka allt að 40 millj. kr. lán til að létta greiðslubyrði hafnarsjóða sem verst eru settir að því er varðar lán o.fl. Þessi lántaka átti sér stað, — þetta var í fjárl. ársins 1975, þá í fyrsta skipti, — hún átti sér stað á því ári og var þetta mál afgr. úr fjvn. um haustið 1973.

Það var meining fjvn. og að ég held allra þeirra, sem áttu hlut að því að þetta var gert,að þarna yrði um styrki að ræða. Fjvn. fjallaði um það mál og sendi til rn. ásamt skiptingu á fénu bréf þess efnis, að það væri hennar mat að þarna ætti að vera um styrki að ræða, en ekki lánsfé. Reynslan varð svo önnur, en ég skal ekki rekja það frekar. En á fjárl. ársins 1974 er einnig heimild til handa ríkisstj. til þess að taka allt að 50 millj. kr. lán fyrir Hafnabótasjóð til þess að endurlána í sama skyni og áður var gert.

Ég hef því ásamt hv. 11. landsk. þm. leyft mér að leggja fram á þskj. 9 fsp. til hæstv. fjmrh. um það í fyrsta lagi hvort ríkisstj. hafi í hyggju að nota þá heimild, sem er í fjárl. til handa Hafnabótasjóði, að taka allt að 50 millj. kr. lán til þess að létta greiðslubyrði hafnarsjóða. Og í öðru lagi, ef svo er, hvenær þá megi vænta þess að það fjármagn komi til úthlutunar. Það er orðið áliðið árs og ekkert hefur um það heyrst að neitt væri í býgerð um að þessir fjármunir kæmu til þessara nota, sem þeim er ætlað, og þess vegna er þessi fsp. lögð fram.