07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Verðjöfnun á olíu og bensíni var ákveðin með l. nr. 34 frá 18. febr. 1953. Var það gert í þeim tilgangi að jafna aðstöðumun landsmanna með þá staðreynd í huga að innflutningur á olíu og bensíni var til höfuðborgarinnar og síðan dreift þaðan víða um landið. Í þeim lögum var gerð undantekning á flugvélabensíni. Þá var flugið ekki eins snar þáttur í samgöngumálum landsins og alt flug var út frá Reykjavík, þ. e. a. s. innflutningshöfn þessarar vöru. Þær breytingar hafa nú orðið á að flugið er meginstoð í samgöngum innanlands og flug milli og innan landshluta fer stöðugt vaxandi. Viðhorfin hafa því breyst á rúmlega 20 ára tímabili og því eðlilegt að flugvélabensín verði verðjafnað á sama hátt og aðrar olíuvörur í því skyni að jafna aðstöðumun í samræmi við upphaflegan tilgang laganna.

Fjh.- og viðskn. ræddi þetta mál á allmörgum fundum. Það var leitað umsagnar frá olíufélögunum þremur og til fundar við nefndina komu Indriði Pálsson forstjóri Olíufélagsins Skeljungs hf. sem hefur einkum með sölu á þessu bensíni að gera. Það kom fram í störfum nefndarinnar að söluverð á flugvélabensíni er nú um 30 kr. í Reykjavík, 32.30 á Akureyri, 35.30 á Egilsstöðum., 35.60 á Ísafirði og 54.90 á Höfn í Hornafirði. Það magn, sem selt var á s. 1. ári, var um 1589 þús. lítrar, þar af voru seldir hér í Reykjavík 1223 þús. lítrar eða 77%, en 23% úti á landi á hinum ýmsu útsölustöðum. Slík verðjöfnun sem þessi mundi því þýða að jafnaðarverð á þessari vöru yrði tæplega 31 kr. — á bilinu 30.80 kr. til 31 kr. Flugvélabensín mundi því hækka hér í Reykjavík um samsvarandi tölu um 80 aura til 1 kr., en aftur á móti lækka á öðrum stöðum, mest á Ísafirði eða um 4.60.

Eins og ég gat um áður er eina undantekningin frá verðjöfnun á olíu og bensíni flugvélabensín. Hins vegar þótti nefndinni rétt að ákvæði þessi næðu ekki til flugvélabensíns til utanlandsflugs. Það er fyrst og fremst tilgangur laga þessara að jafna aðstöðumun í landinu sjálfu og því eðlilegt að það sé gerð undantekning með þetta bensín. Það munu hafa verið um 797 þús. lítrar sem seldir voru í þessu skyni á s. 1. ári. Einnig þótti rétt að undantekningin næði einnig til flugsteinolíu sem ekki mun hafa verið notuð í neinum mæli þegar lögin voru upphaflega sett, en er nú mjög notuð af hinum ýmsu flugvélategundum. Þótti nefndinni rétt að verðjöfnunin næði ekki til flugsteinolíu, enda hefði það vart neinn tilgang þar sem flugsteinolía er fyrst og fremst seld hér í Reykjavík og notuð af flugvélum sem fljúga fyrst og fremst út frá Reykjavík.

Nefndin leggur til að frv. verði samþ., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Albert Guðmundsson og Ragnar Arnalds.