07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil harma það að ég var fjarverandi afgreiðslu þessa máls í fjh.- og viðskn. af þeim ástæðum að mér bárust fundaboð of seint. Það er nú orðið algengt á hæstv. Alþ. að maður fær fundarboð það seint að maður er oftast nær búinn að ráðstafa sér eitthvað annað og á þá erfitt með að koma á nefndarfundi eins og ber þó skylda til. En ég vil geta þess að við umræðu um þessi mál við þau flugfélög, sem staðsett eru hér á Reykjavíkursvæðinu, hefur komið í ljós að þessi breyting, ef samþ. verður, getur ráðið baggamun um það hvort félögin hér á Reykjavíkursvæðinu skila hagnaði eða halda áfram að vera rekin eins þau hafa hingað til verið, reksturinn stæði í járnum. Ég vil benda þar sérstaklega á að forráðamenn flugfélagsins Vængja hafa tjáð mér að þessi breyting, sem nú er gerð á, þessi verðjöfnun, hún bókstaflega hafi þær afleiðingar að rekstur félagsins breytist frá því að standa undir sér í taprekstur.

Ég vil líka benda á það sem fram kemur í nál., að þar er sagt að til fundar við nefndina hafi komið Indriði Pálsson forstjóri, en ég hefði alltaf gaman af því ef form,hefði látið koma í ljós álit hans, sem hann var ekki spurður beint um á nefndarfundinum, hvernig hann álíti að þetta kæmi út fyrir flugfélögin. Hann svaraði aðeins spurningum á fundinum. En í samtali, sem ég hef átt við hann síðan, sagði hann orðrétt, að hér væri á ferðinni sami draugurinn og oft hefði áður skotið upp kollinum þegar lækka þarf verð á einhverju. Ráðið er ávalt það sama, bara verðjafna með frekari álögum á einstaklinga eða fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu. — Það er það sem er verið að gera hér og ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum og greiði atkv. gegn þessari framkomnu breyt. á l. um verðjöfnun á bensíni og olíu. Ég held að þjóðin sé orðin löngu þreytt á því að ef það þarf að gera einhverjar ráðstafanir að þá er ekkert til annað en að hækka, annaðhvort skatta, vöruverð eða álögur almennt. Ég tel miklu heppilegra að láta gera úttekt á því hverjar eru tekjur af bensíni almennt hvort sem það er til utanlandsflugs eða innanlandsflugs eða bifreiðabensíntekjur hér innanlands, og þrátt fyrir allar hækkanir, sem við erum búnir að tala um, og þjóðin öll hefur talað um, af araba hálfu, þá er þó ekki verðið frá þeim nema kannske 1/4 eða 1/3 verðs þess hingað komins með öllum tilkostnaði, af því sem það kostar út úr dreifingarkerfinu hér á landi. Ég legg því til að þessi brtt. verði felld og bensínið bókstaflega lækkað úti á landi, en ekki hækkað í Reykjavík.

Ég held ég hafi ekki meiru við þetta að bæta öðru en því, að þar fyrir utan bentu eigendur og framkvæmdastjóri flugfélagsins Vængja hf. á að þeir hefðu ekki neinn ríkisstyrk. Aftur á móti væru félögin úti á landi annaðhvort styrkt beint af ríkinu eða þau fengju óbeint styrk í gegnum póstflutningagreiðslur, en það hefur flugfélagið Vængir ekki fengið eftir þeim upplýsingum sem mér bárust.