07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður leggst gegn þessu frv. og leggur nú m. a. til í orðum sínum að flugvélabensín verði lækkað úti á landi. En honum láðist að geta þess hvar ætti að taka fjármagn til þess að lækka það flugvélabensín um u. þ. b. 20% víða á útsölustöðum.

Gildandi lög frá 1953 marka stefunna þá stefnu að jafna þessar nauðsynjar, bensín og olíur, um land allt. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé rétt stefna. Ef hv. þm. vill vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að leggja til að þessi lög frá 1953 verði numin úr gildi og verðjöfnun gildi ekki um þessar nauðsynjar um landið. Ég held að það mundi vekja veralega athygli að leggja slíkt til og verðugt umræðuefni hvort það eigi að vera okkar stefna að flytja svo að segja allar okkar nauðsynjar inn í gegnum Reykjavíkurhöfn með að sjálfsögðu ákaflega miklum viðskiptum og tekjum fyrir þá aðila sem hér starfa, en láta þá, sem eru á landsbyggðinni, fyrst og fremst bera aukna greiðslubyrði. Ég held að slík stefnumörkun gæti eingöngu leitt til þess að sá flótti, sem árum saman hefur verið viðloðandi á landsbyggðinni, til þessa landshluta, ykist og ég er sannfærður um að það yrði ekki íbúum þessa landshluta til góðs. Ég held að hv. þm. þurfi að fara að gera sér grein fyrir því. Hann er ekki einn í þessu landi, mun ekki byggja þetta land einn og honum mun ekki verða vænlegt að búa í þessu landi ef við byggjum það ekki allt og leggjum á slíkt ríka áherslu.

Ég er þeirrar skoðunar að frá því að lögin voru sett 1953 hafi orðið sú breyting að flugvélabensín er í dag orðin almenn neysluvara um land allt, að risið hafa upp lítil flugfélög víða um landið sem vinna ómetanleg þjónustustörf í erfiðum samgöngum og hafa í mörgum tilfellum bjargað mannslífum. Ég held að það sé okkur öllum til sóma að reyna að stuðla að því að rekstur þessara flugfélaga verði sambærilegur þeim rekstri sem á sér stað frá Reykjavík og í mörgum tilfellum getur alls ekki sinnt þessum nauðsynlegu verkefnum.

Ég vil vekja athygli á því að flugfélagið Vængir er með tvær skrúfuþotur sem nota flugsteinolíu og einmitt er gengið nokkuð til móts við það með því að undanþiggja flugsteinolíu þessari verðjöfnun. Flugfélag Íslands er eingöngu með slíka flugsteinolíu og það kemur því ekki við rekstur þess félags nema þessi félög óttist að samkeppnin frá hinum smáu félögum utan af landi verði þeim ofviða, en því trúi ég ekki að óreyndu.

Ég vil jafnframt enn vekja athygli á því að í gildandi lögum er eingöngu heimiluð undantekning með tilliti til flugbensíns. Í raun og veru á að verðjafna flugsteinolíu. Það er í raun og veru brot á gildandi lögum að verðjafna ekki flugsteinolíu. Þegar af þessari ástæðu er nauðsynlegt að taka lögin til endurskoðunar. Flugsteinolía var ekki notuð 1953 þegar lögin voru sett. Þá voru ekki þeir hreyflar í notkun sem það eldsneyti nota í dag þannig að þarna er alveg ljóst að þegar er breyting nauðsynleg og mér sýnist þá eðlilegra, miðað við aðstæður í dag, að láta verðjöfnun ná til flugvélabensíns en undanþiggja enn flugsteinolíu.

Ég stend fyrst og fremst upp til að mótmæla harðlega því sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 12. þm. Reykv., og vara við þeim hugsunarhætti sem virðist liggja að baki hans orðum, að við eigum að hverfa frá þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið með þessum lögum og fleiru, að verðjafna kostnað margs konar nauðsynja sem í dag eru fluttar inn um Reykjavíkurhöfn.