07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki í þessum fáu orðum að fara að tala almennt um skattamál og tekjur ríkisins. Það er alls ekki á dagskrá hér og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Ég harma það að hv. þm. Albert Guðmundsson var ekki viðstaddur á nefndarfundi. Ég veit ekki til þess að hann hafi verið boðaður með sérstaklega stuttum fyrirvara og fundurinn var haldinn á föstum fundartíma nefndarinnar. En hann sagði áðan að forstjóri Olíufélagsins Skeljungs hafi látið í ljós að hann væri mjög mótfallinn þessari verðjöfnun. Mér kemur þetta mjög á óvart þar sem hann tjáði mér að honum fyndist þetta eðlileg ráðstöfun, eðlilegt að verðjafna flugvélabensín á sama hátt og aðrar olíuvörur. Þess vegna kemur það mér á óvart að hann hafi látið þessi orð falla.

Hér er ekki um það að ræða að hækka gjöld á íbúum þéttbýlis við Faxaflóa. Íbúar hér við Faxaflóa nota ekki mikið flugvélar út á land vegna þess að héðan hafa menn litla þjónustu að sækja út á land. Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er að verðjafna á milli þess fólks sem þarf sem mest að ferðast hér á landi. Og það fólk, sem nýtur þessarar verðjöfnunar sérstaklega, er það fólk sem býr á afskekktustu stöðum landsins, fólk sem hefur ekki beinar samgöngur við aðalþjónustumiðstöð landsins, Reykjavík. Þess vegna finnst mér að það sé óþarfi í þessum umr. að vera að vekja upp þann gamla draug: Reykjavík á móti landsbyggðinni — það er alls ekki hér í þessu máli verið að ganga á hlut þeirra sem búa hér, það er fyrst og fremst verið að verðjafna milli þess fólks sem þarf sem mest að nota flug og það eru íbúar landsbyggðarinnar.