07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. En ég vildi ekki sitja þegjandi undir þeim. Ég vildi láta það koma skýrt og ákveðið fram að ég er eindregið fylgjandi þessu frv.

Ég tel að hér sé um sjálfsagt réttlætismál að ræða og það sé í fyllsta samræmi við hugmyndir þeirra manna sem telja að það þurfi að koma á auknum jöfnuði í margs konar sambandi milli strjálbýlisins og þéttbýlisins hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hafa verið færð rök að því hér, hve mikla þýðingu þetta sérstaka mál hefur varðandi flugrekstur úti á landi og skal ég ekki neinu við það bæta. Ég vildi aðeins leggja áherslu á, að þetta frv. er í þeim anda sem hefur verið unnið að á undanförnum árum, ef maður segir ekki áratugum þó að með misjöfnum árangri hafi verið, til að jafna aðstöðuna í landinu og þannig að reyna að sporna við fólksflótta úr ýmsum byggðarlögum landsins sem hafa átt í vök að verjast. Þessi stefna hefur margoft verið yfirlýst af Alþ. og ég skal ekki fara að rifja það upp hér. En ég vil aðeins minna á það að fyrir nokkrum þingum var samþykkt þál. um skipun mþn. til þess að vinna að jöfnun á flutningskostnaði í landinu. Þessi till. var þannig til komin að annars vegar var lögð fram þáltill. af nokkrum sjálfstæðismönnum um þetta efni og hins vegar af nokkrum framsóknarmönnum, og það varð samkomulag um að afgreiða þetta mál í því formi sem þessi þáltill. var samþ. Mér er ekki kunnugt um, ég minnist ekki þess, að það hafi í raun og veru verið nein mótstaða gegn þessari stefnumótun sem fólst í þessari þál. sem samþ. var. Ég minnist ekki þess að neinn flokkur hér á hv. Alþ. hafi barist á móti þessari stefnu. Og þetta er sú stefna sem Sjálfstfl. hefur lagt mikla áherslu á. Það er þess vegna sem núv. ríkisstj. hefur það að einu af meginviðfangsefnum sínum að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Ég vildi aðeins minna á þetta til þess að leggja áherslu á afstöðu mína til þessa máls sem mér finnst sjálfsagt og ég er fylgjandi.