07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

238. mál, Byggingarefnaverksmiðja ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal nú forðast að blanda títt nefndri járnblendiverksmiðju inn í þetta ágæta mál. Hins vegar virðist hún hvíla mjög þungt á hv. þm. Ég hef ekki heyrt sumt af því fyrr sem nú kom fram um þessi mál.

Í þessu athyglisverða frv. er fyrst og fremst byggt, eins og fram kom, á störfum gosefnanefndar, en mér þótti í framsöguræðunni e. t. v. nokkuð, — ef ég má orða það svo — ruglað saman ýmsum þáttum í störfum þeirrar n. og ætla ég að freista þess að rekja þá dálítið í sundur.

Gosefnanefnd var sett á fót fyrir fáum árum, 4 árum eða svo, til að halda áfram rannsóknum sem lengi hafa verið í gangi á notkun á vikri og einnig perlusteini, en perlusteinn hefur í minni orðabók alltaf verið annað nafn fyrir bikstein sem er rangnefni. Þetta er ekki svartur steinn, biksteinn, heldur gráleitur steinn og var nafnið perlusteinn tekið upp, ef ég man rétt, af Tómasi heitnum Tryggvasyni jarðfræðingi í staðinn fyrir nafnið biksteinn.

Allítarlegar rannsóknir á notkun á perlusteini voru gerðar fyrir nokkrum árum, á árunum frá 1956–57 og fram yfir 1963–64, m. a. á námum þeim sem hv. ræðumaður nefndi í Prestahnjúki og Loðmundarfirði. Það er rétt að ákaflega mikið magn er í Prestahnjúki, en hins vegar hafa þær rannsóknir sem gerðar hafa verið sýnt að þetta magn er mjög breytilegt og sumt af því ekki hæft til þeirrar framleiðslu sem hér er um að ræða,

M. ö. o. starf gosefnanefndar beinist fyrst og fremst að eftirgreindum þáttum: Notkun á vikri í byggingariðnaði. Vikurinn hefur vitanlega lengi verið notaður til léttplötugerðar eða hleðslusteina með misjöfnum árangri, en vikurinn er að því leyti ekki sérstaklega gott hráefni að korn hans eru misjöfn að stærð og eiginleikar ekki jafnir. Í öðru lagi hefur gosefnanefnd skoðað áfram notkun á perlusteini, en perlusteinninn, sem er líparít, má raunar segja að sé steintegund sem ekki hefur náð að þenjast út í náttúrunni eins og vikurinn hefur gert. En með því að mala perlusteininn og hita hann síðan í um það bil 700–800 gráður þenst hann út og myndar litlar kúlur, svipað og vikurinn, en er hins vegar miklu jafnari að öllum eiginleikum, hreinni og af þessum ástæðum töluvert betra hráefni en vikurinn er sem slíkur.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. ræðumanni að perlusteinninn þaninn út þannig er notaður í ýmsum tilgangi. Þó hygg ég að hann sé ekki notaður mikið til einangrunar gegn kulda, heldur fremur til einangrunar gegn eldi. Hann hefur miklu meiri eldstyrk en t. d. venjuleg steinsteypa og hefur um áratugi verið notaður í þeim tilgangi í t. d. járngrindabyggingum í Bandaríkjunum og Evrópu, og það var m. a. með útflutning til þessara landa í huga sem rannsóknir voru gerðar hér á sínum tíma. En það má einnig nota perlusteininn til annarrar framleiðslu, eins og t. d. plötugerðar og fleira, sem gosefnanefnd er að gera mjög athyglisverðar tilraunir með. Staðreyndin er þó sú að þessar tilraunir eru alls ekki það langt komnar að að mínu viti sé unnt að ákveða að á þeim grundvelli skuli reist hér verksmiðja. Það getur vel farið svo, en ég held að þessi till. sé dálítið á undan sínum tíma að þessu leyti og niðurstöður eru enn þá mjög óljósar.

Ég get getið þess hér að nýlega hafa verið gerðar tilraunir á þenslu perlusteins í samvinnu við ungverja og einnig í samvinnu við stórt amerískt fyrirtæki og niðurstöður voru mjög misjafnar og að sumra mati ekki nægilega hagstæðar til þess að treysta mætti þessu efni til iðnaðar. Hins vegar er nú ákveðið að gera þessar tilraunir hér heima og fá til þess tæki, eins og um var getið, og mun Sementsverksmiðjan á Akranesi framkvæma þessar tilraunir þannig að vonandi fæst úr því skorið, við skulum segja á næsta ári eða kannske tveimur, þetta tekur allt sinn tíma, hvort perlusteinn frá Prestahnjúki er nothæft hráefni til framleiðslu á byggingarhlutum, og þá er vissulega tímabært að athuga með byggingarverksmiðju hér í þessum tilgangi.

Þá hefur gosefnanefnd einnig tekið að sér að athuga hvort megi nota basalt hér á landi til ýmiss konar framleiðslu. Basalt er að sjálfsögðu einnig gosefni, en þó nokkuð annað gosefni en þetta létta efni sem við höfum verið að tala um. Basalt hefur verið notað hér í smáum stíl til framleiðslu á einangrun, steinull. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með notkun á íslensku basalti til framleiðslu á rörum og gólfflísum sem hafa ákaflega mikið slitþol, og hafa síðustu tilraunir verið gerðar í samvinnu við tékkneskt fyrirtæki á þessu sviði sem stendur þar mjög framarlega. Niðurstöður tilrauna til framleiðslu á rörum og gólfflísum og þess háttar eru slíkar að menn hafa ekki orðið á einu máli um það hvort rétt sé að leggja í slíka framleiðslu, markaðurinn tiltölulega takmarkaður, tiltölulega mettaður í Evrópu og framleiðslan yrði að byggjast á útflutningi til Bandaríkjanna. Markaður hér heima fyrir vörur af þessu tagi er mjög lítill og væri hvergi nærri nógu mikill til þess að standa undir slíkri röra- og flísaframleiðslu.

Eins og ég nefndi hefur basalt jafnframt verið notað til framleiðslu á steinull í smáum stíl og þar hefur gosefnanefndin að mínu viti gert mjög athyglisverða útreikninga. Mér sýnist að hún hafi jafnvel þegar sýnt fram á að hér á landi megi reka slíka verksmiðju og hún verði hagkvæm. Það er vafalaust og fyrir löngu vitað að einangrun úr basalti, þ. e. a. s, steinullin, er mjög góð og hefur marga kosti umfram ýmsa þá einangrun sem við flytjum til landsins, annaðhvort fullunna eða hálfunna. En í því sambandi telur gosefnanefndin að basaltsandur austan Þjórsár, sem sagt á Suðurlandsundirlendinu, sé mjög heppilegur. Þar er mulið basalt af náttúrunnar hendi sem sparar að sjálfsögðu mikla orku eins og öllum hlýtur að vera ljóst. Slík verksmiðja mundi kosta í kringum 450–500 millj. kr., að vísu á verðlagi sem var einhvern tíma fyrir áramótin, og hún mundi gera meira en að fullnægja okkar þörf. Ég tel ekki ólíklegt að sú verksmiðja gæti flutt framleiðslu sína úr landi.

Hér er sem sagt um ýmsa byggingarvöru að ræða og ég er ekki sannfærður um að þessir þættir eigi allir samleið. Ég tel t. d. að framleiðsla á gosull úr basalti á Suðurlandi eigi varla samleið með framleiðslu úr perlusteini úr Prestahnjúki, sem yrði staðsett á öðrum stað, eða framleiðslu á plötum, sem ég nefndi, úr basalti jafnvel. Við það er allt önnur tækni notuð, þar notast ekki sömu tæki, þar verður að treysta á annan markað o. s. frv. Ég held einnig að það væri skynsamlegt að byggja svona iðnað upp í áföngum smám saman, t. d. byrja á einangrunarframleiðslunni, sem ég held að flestir telji álitlegasta, og síðan að feta sig skref af skrefi og koma upp aukinni framleiðslu úr okkar gosefnum víða um landið eftir því hvar hráefnið er.

Mér sýnist óraunhæft að slík verksmiðja yrði byggð á Akureyri. Ég hef aldrei heyrt að þar væri gott basalt til framleiðslu á steinull. Það er a. m. k. ekki mulið basalt eins og á Suðurlandi. Ég er ekki að hafa á móti Akureyri, langt frá því, en ég held, að í svona tilfellum verðum við að leita að hagkvæmasta staðnum, Ég fagna því ef hann finnst utan Faxaflóasvæðisins og í þessu tilfelli yrði hann það hiklaust. Perlusteinn er heldur hvergi, að því er menn vita, finnanlegur í kringum Akureyri. Hann er hins vegar hér á Suðvesturlandi og á Austfjörðum, en eins og frsm. gat um er náman á Austfjörðum ekki talin eins stór eða góð og sú á Suðvesturlandi. Ég held að það sé alveg ljóst að perlusteinn úr Prestahnjúki verður ekki fluttur til Akureyrar til frekari úrvinnslu, það kæmi vart til mála.

Vikurnámur eru að vísu víða um landið, en þó ekki í kringum Akureyri. Þær eru víða hér á Suðurlandi og víða á Norðvesturlandi, e. t. v. einhvers staðar í nágrenni Húsavíkur mætti hugsa sér slíka verksmiðju með vikur sem þar er til fjalla og e. t. v. mætti fleyta til sjávar á einn eða annan máta. Ég held því að svona iðnaður yrði nokkuð dreifður um landið og yrði, eins og ég sagði, fyrst og fremst að byggjast á því hvar hráefnið er fyrir hendi.

Ég vil taka það fram að lokum að ég tel hér hreyft mjög athyglisverðu máli, — máli sem er í gangi, en er á mismunandi stigum rannsókna en í heild sinni alls ekki komið það langt að unnt sé að ákveða að reisa skuli slíka verksmiðju.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að framkvæma umhverfisrannsóknir áður en framkvæmdir hefjast, Væri nú ekki rétt að framkvæma þessar rannsóknir áður en þetta frv. er samþykkt? Mig minnir að það hafi verið meira í samræmi við málflutning hv. frsm. í öðru stóru máli.