26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

9. mál, lántaka fyrir Hafnabótasjóð

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Vestf. í sambandi við hafnirnar, vil ég í fyrsta lagi geta þess um framkvæmdina á þessu máli á s.l. ári að engri loku er fyrir það skotið að eftir sé hægt að gefa þeim höfnum, sem þörf hafa fyrir það, þegar lánið kemur til afborgunar. Það er hins vegar alveg ástæðulaust að vera að gefa fé, nema til þess sé brýn þörf, og það er engri leið lokað til þess að koma því í framkvæmd við þær hafnir sem þurfa á því að halda.

Út af því, sem hann segir um framkvæmd þessa máls núna, þá er með þeirri till., sem gerð er, búið að gera till. um að gefa eftir 37 millj. kr. og það er búið að gera till. um að Ríkisábyrgðasjóður taki að sér greiðslu á 5 millj. án þess að hann þurfi að gera það nema fara þá leið sem hv. þm. lýsti hér áðan og ekki er æskileg, en fram hjá því er hægt að komast með samkomulagi þar um. Þar að auki er Hafnabótasjóður búinn að taka að sér 32 millj. kr. til tveggja ára og þar með er búið að létta af greiðslum hafnanna á þessu ári 75 millj. kr., svo að það er á misskilningi byggt að það hafi ekkert verið gert til þess að létta einmitt á höfnunum í sambandi við þeirra fjármál. Auk þess er svo búið að útvega til hafnargerða á þessu ári 35 millj. kr. lán hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, sem Hafnabótasjóður tekur, og lán það, sem Hafnabótasjóður fær hjá Framkvæmdasjóði, er alls 75 millj. kr., þannig að þegar þessar 16 millj. eru frádregnar þá koma þar 94 millj. kr. sem hafnirnar fá sem lán frá Hafnabótasjóði, auk eigin fjármuna sjóðsins á þessu ári. Þegar á þetta allt er litið er um að ræða þarna fjárfyrirgreiðslu til hafna sem er um 170 millj. kr.

Ég dreg í efa að áður fyrr hafi verið svo á málum hafnanna haldið að það hafi verið greitt meira úr fyrir þeim en gert er á þessu ári, og vona ég að hv. 5. þm. Vestf. verði mér sammála um það þegar hann hefur þessar upplýsingar allar.