07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur við 1. umr. þessa máls og átti þess þá ekki kost að tjá mig um það. Ég skal ekki fara núna að halda langa ræðu. Ég vil aðeins lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við málið. Hér er að mínu mati, þar sem er þörungavinnslan við Breiðafjörð, um mjög merkilegt mál að ræða á tvennan hátt:

Í fyrsta lagi er um að ræða nýjan iðnað hér á landi þar sem ern hagnýtt hráefni, íslensk hráefni, sem við höfum ekki átt kost á áður að hagnýta.

Í öðru lagi er um merkismál að ræða, vegna þess að það er til eflingar byggðaþróun í Austur-Barðastrandasýslu, í einu fámennasta, strjálbýlasta og fátækasta sýslufélagi landsins.

Af þessum ástæðum var ég á sínum tíma fylgjandi því að það var stofnað til þess fyrirtækis sem hér um ræðir. Það var nokkuð rætt um það hver eignaraðild ríkisins skyldi vera að þessu fyrirtæki, þegar umr. fóru fram um frv. að l. um það árið 1973. Samkv. frv. var gert ráð fyrir því að ríkið skyldi eiga ekki minna en 51% af hlutafé félagsins. Ég vakti athygli á því að æskilegast hefði verið að ríkið hefði ekki þurft sjálft að fást við þetta viðfangsefni að koma upp þörungavinnslunni, það hefði verið æskilegt ef hægt hefði verið að ráða við það átak með frjálsu framtaki. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar þá að það væri ekki mögulegt að framkvæma þetta á þann veg, enda var það nokkuð reynt og það var lítið framboð af hlutafé frá einstaklingum.

Ég vildi hins vegar ekki sætta mig við að það skyldi vera það fortakslausa ákvæði í lögum um þörungavinnsluna að ríkið skyldi ekki eiga minna en 51% af hlutafé félagsins. Ég bar því á sínum tíma fram brtt. við þetta ákvæði sem gekk að vísu ekki eins langt og ég hefði frekast kosið, en var orðuð með tilliti til þess að það gæti verið einhver von til þess að hún yrði samþ. eins og ástandið var þá á hv. Alþ. Þess vegna lagði ég til að inn í frv. væri bætt ákvæði og það skyldi tekið fram að ekki minna en 51% af hlutafé félagsins skyldi vera samtals í eigu ríkisins og sveitarfélaganna í Austur-Barðastrandarsýslu. Enn fremur var lagt til í brtt. minni að sveitarfélögunum í Austur-Barðastrandarsýslu skyldu standa til boða að kaupa hluta af hlutafjáreign ríkisins með þeim skilmálum sem ríkisstj. setti. Þessi brtt. mín var felld af þáv. stjórnarmeirihl. Ég tel að það hafi verið misskilningur að gera það. Það var að vísu bent á að þetta ákvæði væri ekki raunhæft vegna þess að sveitarfélögin í Austur-Barðastrandarsýslu væru ekki þess umkomin að gerast hér aðilar að nokkra ráði og það var mikið til í því á þeirri tíð og raunar enn. En þegar við erum að setja lög sem eiga að standa nokkuð til frambúðar, þá væri ekki óeðlilegt að líta til þess að þetta ástand gæti breyst, m. a. með tilkomu þessa mikla atvinnufyrirtækis í byggðarlaginu, og því gæti slíkt ákvæði sem þetta orðið raunhæft þegar stundir liðu fram.

Ég rifja þetta hér upp að gefnu tilefni þegar hér er farið að ræða um eignaraðild að þessu fyrirtæki. Og ég er enn þeirrar skoðunar, eins og ég var þegar lögin voru sett 1973, að æskilegt væri að einkaframtakið gæti lagt fram krafta sína við uppbyggingu þessa merkilega iðnaðar.

Ég er að tala um einkaframtakið. Það er rétt að það komi fram að einmitt í sambandi við þetta mál hefur verið sýnt ákaflega merkilegt, aðdáunarvert og þakkarvert einkaframtak. Það er einn maður sem að öllum öðrum ólöstuðum hefur lengst unnið að framgangi þessa máls. Það er Sigurður Hallsson verkfræðingur. Hann er búinn að vinna að þessu máli í 15–20 ár, fórna bestu árum ævi sinnar og allri atorku sinni til að vinna að þessu máli. Það gerði hann með því að hann sem vísindamaður lagði grunninn að þeirri vinnsluaðferð sem að ætlunin er að hagnýta við þörungavinnsluna. Og þessi maður gerði meira. Hann kom líka á sambandi okkar við hið skoska fyrirtæki, Alginate Industries Ltd. sem gert er ráð fyrir að verði aðalviðskiptaaðili verksmiðjunnar og hefur gert mögulega og ýtt á eftir þeirri framkvæmd sem hér er um að ræða. Ég skal ekki rekja þessa sögu Sigurðar Hallssonar verkfræðings frekar hér á hv. Alþ., en hún mun ekki fyrnast og hún er glæsilegur vottur þess hverju einkaframtakið getur áorkað í hinum margvíslegustu myndum.