07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Örstutt athugasemd. — Ég vil lýsa furðu minni á þessum upplýsingum frá hv. 12. þm. Reykv. um arðsemi o. fl. í íslenskum atvinnurekstri og ég held að hann sé að tala þar um allt aðra hluti en við erum að tala um í þessu frv., arðsemi sem byggð er á allt öðrum grundvelli. Það eru ýmsar leiðir til að reikna arðsemi. Hér er verið að tala um arðsemi sem hlutfall tekjuafgangs fyrir skatta af heildarfjárfestingunni.

Ef um er að ræða fyrirtæki, sem hefur e. t. v. afskrifað verulegan hluta af sínum stofnkostnaði, verður að byggja þennan útreikning á endurbyggingarverði þess fyrirtækis í dag ef fá á þetta á svipaðan grundvöll. Vitanlega sjá allir menn að tekjuafgangur, sem reiknaður er sem hundraðshluti af bókfærðu verði fyrirtækis sem e. t. v. er komið niður undir núll, verður vitanlega allt annar. Ég held að við séum að tala um óskylda hluti, og ég vil leyfa mér að fullyrða aftur að arðsemi reiknuð á þessum grundvelli sé talin mjög góð þegar hún kemur upp í það hlutfall sem hér er um að ræða.

Ég sagði ekkert um arðsemi Union Carbide. Ég talaði um arðsemi hins íslenska járnblendifyrirtækis í Hvalfirði sem á þessum sama grundvelli var áætluð um 17% og talið gott af erlendum aðilum sem um það fjölluðu, m. s. af Union Carbide sem taldi í upphafi þeirra samninga að arðsemi reiknuð á þessum grundvelli þyrfti að vera um 12–14%. Hver arðsemi af Union Carbide í heild sinni eða af einstökum rekstrardeildum þess fyrirtækis er hef ég ekki hugmynd um og hef aldrei minnst á og ekki talað um. Ég var að tala um hið íslenska járnblendifyrirtæki sem ég veit að hv. þm. hlýtur að þekkja eftir ítarlegar umr. hér og ég taldi vera góða viðmiðun í þessu tilfelli. Ekki var gerð athugasemd þá við þá arðsemi sem þá var talin 17%. Ekki hef ég orðið var við það, að fjármálastofnanir, sem ætla að fjármagna það fyrirtæki, geri athugasemd við þá arðsemi. Þvert á móti telja þær hana vera góða. Og ég verð að segja það að arðsemi íslenskrar verslunar, heildsölu og smásöluverslunar, er gífurlega mikil ef þessi arðsemi, 22%, er talin lítil. Ég nefni þetta því að ég veit að hv. þm. þekkir verslunina manna best og þá þurfum við sannarlega ekki að hafa áhyggjur af ströngum og þröngum verðlagningarákvæðum.