07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

259. mál, skákkennsla

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til að lýsa stuðningi við þetta mál sem ég tel að sé meira en tímabært að flytja hér á hv. Alþ. Við styðjum ýmsa aðila í ýmsum efnum. Við styðjum listamenn á ýmsum sviðum. Það er því eðlilegt að við veitum því athygli þegar sérstakir afreksmenn í einhverri íþrótt koma fram á sjónarsviðið. Það er vissulega þess vert að veita því verðskuldaða athygli þegar afreksmaður á borð við Friðrik Ólafsson skákmeistara tekur þátt í keppni í íþrótt sinni á alheimsmótum og mætir þar fremstu skáksnillingum veraldar og heldur fyllilega sínum hlut. Þess vegna álít ég að sá þáttur málsins sem snertir það að styrkja eða skapa skáksnillingum, sem við eigum á að skipa, a. m. k. tveimur, bætta aðstöðu, sé gott og þarft mál og væri Alþ. til sóma að mínum dómi ef tekið væri til við rösklegan stuðning við slíkt málefni. Svo er einnig hitt, að skákíþróttin er býsna almenn hér á landi, mjög mikið iðkuð, sennilega miklu meira hlutfallslega en í nokkru öðru landi. Þetta er holl og góð íþrótt og þroskandi leikur fyrir alla og ekki síst fyrir þjóð eins og íslendinga sem eiga langt skammdegi og langan vetur og verða að vera inni við, þannig að ég er þeirrar skoðunar að hér sé hreyft þörfu og góðu máli og vil lýsa eindregnum stuðningi við það.