07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

259. mál, skákkennsla

Ingólfur Jónsson; Herra forseti. Ég get sagt nokkuð svipað og síðustu ræðumenn, að ég er hingað kominn til að lýsa stuðningi við þetta mál. Ég tel það alveg tímabært að gera ráðstafanir til þess að kenna skák. Hingað til hafa menn orðið að læra hana af bókum og af sjálfum sér, sem er vitanlega miklu erfiðara en að njóta kennslu hæfra manna. En ég vil aðeins vekja athygli á því að í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að það séu aðeins menn með stórmeistaratitil eða annan alþjóðlegan titil sem ætlað er að skipa til þessarar kennslu. Nú eigum við tvo stórmeistara, en það er alls ekki víst að þeir hafi tíma til að taka kennsluna að sér. Alþjóðlegan titil hefur, held ég, aðeins einn til viðbótar stórmeisturunum. En hér á landi eru margir menn sem kunna skák og eru færir til þess að stunda kennslu í þeirri grein þótt þeir hafi ekki stórmeistaratitil eða alþjóðlegan titil. Það er alveg öruggt að hér eru margir sem eru færir um að kenna þótt þeir hafi ekki hlotið sérstaka gráðu. Þetta er aðeins til umhugsunar og athugunar, hvort ekki er þörf á að breyta greininni, en það breytir ekki því að stefnan er rétt að taka hér upp kennslu í skák.

Íslendingar eru áhugamenn um skák. Það eru víst margir sem kunna mannganginn og kannske lítið meira. En flestir hygg ég að hafi eitthvað gert að því að tefla skák um ævina á uppvaxtarárunum og kannske eftir að þeir urðu fullorðnir. Með fáum fréttum er betur fylgst heldur en þegar Friðrik eða okkar menn eru á alþjóðlegum mótum að keppa. Það er rétt sem hér hefur verið sagt að mörgum yljar um hjartarætur þegar íslensku keppendunum gengur vel og þeir drýgja dáðir á þessu sviði. — Ég vil aðeins endurtaka það að ég mun styðja þetta mál.