07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3579 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

259. mál, skákkennsla

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er einmitt vegna ræðu síðasta hv. ræðumanns að ég stend upp núna, reyndar til að lýsa stuðningi mínum við það sem hann benti á, ég hafði rekið augun í þetta líka, en kannske fyrst og fremst til þess að mæla með samþykkt þessa frv. Eins og komið hefur fram eigum við að reyna að láta þetta frv. ganga skjótlega fram og samþ. það nú á þessu þingi. Ég hef lítið á þetta með tvennt í huga, annars vegar að við eigum með slíkri kennslu sem við tökum upp að stuðla að menntun barna og unglinga í skólum okkar, og hins vegar getur þarna verið um óbeinan stuðning að ræða við meistara okkar. Við getum veitt þeim óbeinan stuðning með því að veita þeim aðstöðu til slíkrar kennslu.

Það er alveg furðulegt hvað hefur orðið mikill áhugi hjá íslendingum í þessum málum, t. d. eftir heimsmeistarakeppnina, sem hér var milli Fischers og Spaskys. Heima hjá mér tók ég eftir því að börn, 8–14 ára, voru með félaga sina og tefldu og tefldu frá morgni til kvölds. Og í hvert skipti sem sigur vinnst eða verðug framkoma og sigrar okkar manna á erlendum vettvangi berast til þjóðarinnar í fjölmiðlum, þá eru unglingarnir og börnin komin af stað til þess að reyna að feta í þeirra fótspor. Ég veit að þótt ekki væri annað en að þeim væri gefið tækifæri, stórmeisturum okkar, til þess að fara um landið — við skulum hafa í huga að það er ekki bara Reykjavík, heldur allt landið — koma fram í okkar skólum, — og þá tek ég undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þá auðvitað getum við látið aðra aðila annast hina, hvort sem það verður dagleg, vikuleg eða mánaðarleg kennsla, — en ég held að það hafi mikla þýðingu þegar slíkir garpar fá að koma til unglinganna úti um allt land og að því eigum við að stuðla. M. a. vegna þess mæli ég eindregið með því að við samþykkjum þetta frv. nú á þessu þingi.