07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3579 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég held að mér leyfist í upphafi máls míns að koma á framfæri einni fullyrðingu, sem sé líklega samdóma álit hv. sjútvn., Nd. En sú fullyrðing er í því fólgin að telja að við sem þar eigum sæti, hefðum frekast viljað vera lausir við að mæla með og styðja þetta frv. En þessi fullyrðing er að sjálfsögðu komin fram vegna okkar og sambands við þá sem hlut eiga að máli, en við verðum því miður eða þá að sjálfsögðu — getum við orðað það líka — að taka mið af því hvað við þurfum að gera, þeir sem hafa tekið að sér að styðja hæstv. ríkisstj. og standa að stjórn ríkisins. Eitt af því, sem verið er að gera með þessu frv. og öðrum, sem hafa verið hér á ferðinni að undanförnu, er að þau hafa að markmiði að ráða fram úr gjaldeyrisþröng og efnahagslegu öngþveiti þjóðarinnar og fyrirbyggja atvinnuleysi. Ég álít persónulega að kannske gangi þetta frv. lengst í því efni að gera það mögulegt að sú atvinnugrein, sem flestum útvegar atvinnu og þjóðinni beint og óbeint þær tekjur sem hún hefur til ráðstöfunar, að við gefum þessari atvinnugrein, sjávarútveginum, útgerðinni, tækifæri til þess að starfa á því sem við mundum kalla nær heilbrigðan grundvöll, sem við verðum þó að viðurkenna að er ekki til í þjóðfélaginu í neinni grein í dag. Við erum hins vegar sammála um það, þeir sem að þessu nál. og brtt. standa, meiri hl. sjútvn., að við reynum hvað við getum til þess að mæta vandamálunum og við viljum vinna um leið að því að nýjar atvinnugreinar rísi upp og verði til hjá okkur, — atvinnugreinar sem eru þá byggðar á okkar eigin orku í fallvötnum og heitu vatni í iðrum jarðar. En það eins og allt annað verður að sjálfsögðu að haldast í hendur við sjávarútveginn, útgerðina. Við vitum hvaða þýðingu hann hefur fyrir þjóðina, og það er okkar skylda að sjá til þess að sá atvinnuvegur geti gengið.

Eins og segir í nál. meiri hl. var þetta mál eða drög að þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram, til athugunar og umr. hjá stjórnarflokkunum í rúman mánuð. Það var svo lagt fram í hv. Nd. Alþ. 22. apríl og tekið til umr. og vísað til n. 25. apríl. Í sjútvn. var þá ákveðið, og það var samdóma álit n., bæði minni og meiri hl., til þess að flýta afgreiðslu frv. að hafa þann hátt á að n. kallaði til þeirra, sem voru fulltrúar viðkomandi hagsmunasamtaka, og fengu þá á fund sinn í stað þess að senda málið til umsagnar, sem hefði óhjákvæmilega tekið lengri tíma. Þetta varð að ráði, að þessir aðilar komu á fund n., og hún heyrði álit þeirra og gat spurt þessa fulltrúa og beðið ýmissa upplýsinga.

Ég held að það megi fullyrða að efni frv. hafi ekki komið neinum á óvart meðal þessara aðila, enda hafði hæstv. sjútvrh. kynnt málið fyrir flestum þeirra, þegar það komst á dagskrá eftir gengisfellinguna í febrúar. En það hafa nokkrar breyt. verið gerðar á frv. frá upprunalegri mynd þess, m. a. vegna ábendinga útgerðarmanna og fulltrúa þeirra og sjómanna, og þá ekki síst frá fulltrúum stjórnarflokkanna í sjútvn. beggja d. Þeir hafa á liðnum vikum átt fjölmarga fundi með ráðh. um málið.

Í grg. eru þeir aðilar taldir upp, sem komu á fund n. Það voru að sjálfsögðu aðstoðarmaður sjútvrh.-og forstöðumaður Þjóðhagsstofnunarinnar, Jón Sigurðsson, enn fremur, eins og þar er talið upp, fulltrúar þeirra helstu hagsmunasamtaka sem hlut eiga að máli í sambandi við þetta mál. Við fengum og vorum síðast í dag að fá bréf frá hagsmunasamtökum, er við fengum frá tveim aðilum, frá Síldarverksmiðjum ríkisins og frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, mjög hörð mótmæli og kannske hvað hörðust frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. En það er eins og ykkur mun kunnugt, hv. þm., þeir sem hafa með saltfiskverkun og útflutning að gera. Þessir aðilar töldu sig þurfa að koma því á framfæri við Alþ. að þeir væru með nokkrar ófrávíkjanlegar kröfur stjórnar Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Bæði þær kröfur og aðrar frá þessum umræddu hagsmunasamtökum, sem talin eru upp í grg. — það var hlustað á og það var reynt að skoða hvert einasta atriði, sem þar kom fram, og ég vil leyfa mér að láta þá skoðun í ljós, að það hafi verið reynt að koma á móti óskum þeirra og kröfum eins og frekast var unnt. Það er máske auðvelt í sambandi við lausn vandamála að segja: Við borgum þetta bara úr ríkissjóði. En ég held að allir menn, sem til þekkja, víti að þannig standi á í dag að það eru ekki til peningar þar til þess að taka upp tugmilljóna eða hundraða milljóna kr. greiðslur, sérstaklega þó þegar við gætum þess að það eru ákveðnir þættir innan útgerðarinnar eða sérstaklega þó fiskframleiðslunnar, sem búa við mjög góðan hag og kannske svo góðan hag, að þeir sjálfir, sem við hann búa, eru feimnir við að láta í ljós hver sá góði hagur er.

Það má segja kannske að það hafi verið alhliða hjá öllum þessum hagsmunafulltrúum sem komu á fund n. að þeir lögðu mikla áherslu á að þeirra hagsmunir væru ekki bornir fyrir borð og að þeirra framleiðslugreinar héldu öllu sínu. Má segja að niðurstöðu funda með þessum aðilum hafi mátt túlka með vísunni vestfirsku sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

Margur ágirnist meira en þarf,

maður einn fór að veiða skarf

og hafði fengið fjóra,

elti þann fimmta og í því hvarf

ofan fyrir bjargið stóra.

Má máske segja líka til viðbótar þessu að það séu ekki allir sem þekki sinn vitjunartíma og muni með kröfugerð sinni og kröfuhörku kannske hverfa niður fyrir bjargið stóra áður en yfir lýkur.

Það er í sjálfu sér eftirtektarvert að það kom ekki fram hjá neinum þessara hagsmunafulltrúa að það jaðrar við neyðarástand í efnahagsmálum okkar þjóðar og að þessar aðgerðir, sem nú er verið að gera með flutningi þessa frv. og fleiri frv., sem bæði hafa verið samþ. og eru máske á leiðinni, að þær beindust fyrst og fremst að því að halda sem flestum atvinnutækjum gangandi til að fyrirbyggja atvinnuleysi og auka gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Ég held að enginn loki augunum fyrir því að ef atvinnuleysi bættist ofan á þá miklu verðbólgu sem íslenskt þjóð býr nú við, þá mundi það valda hörmungum allrar alþýðu manna. Það má líka líkja þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, við það sem gert var og að ég tel með samþykki allflestra aðila í þjóðfélaginu, en það var er ríkisstj. og þá í samráði við alþýðusamtökin beitti sér fyrir launahækkun til láglaunafólks og kjarabótum til þeirra og annarra launþega með breyt. á skattalöggjöfinni.

Með þessu frv., sem við erum nú að taka hér til umr., er verið að flytja til innan sjávarútvegsins sjálfs. Það er verið að flytja frá þeim, sem högnuðust bæði beint — og frekast beint — og óbeint á gengisfellingunni, til útgerðarinnar, svo að hún fái gengið á sem næst eðlilegan hátt. Okkur, sem stöndum að flutningi þessa frv., stjórnarflokkunum á Alþ., hefur verið legið á hálsi fyrir að auka svokallað sjóðafargan, þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstj. um að draga úr því kerfi sem nú er búið við. Að vísu er engum nýjum sjóði bætt við, en tekjur Olíusjóðs eru auknar með hækkun útflutningsgjalds til að mæta mikilli hækkun olíunnar og reyndar nær allra rekstrarliða útgerðarinnar. Þær — við vonum, tímabundnu aðgerðir, sem felast í frv., og þær breyt., sem gerðar hafa verið á því frá því að það var fyrst kynnt, eiga sér ástæður, sem ég mun nú nokkuð lýsa. En áður en ég kem að því vil ég aðeins benda á kostnaðarliði, hækkunarliði hjá útgerðinni, auk olíunnar, sem frá áramótum mun nema nær einum milljarði kr. Þjóðhagsstofnunin hefur gert áætlun um það fyrir sjútvn. þessarar hv. d. hver hækkun helstu rekstrarliða útgerðar hafi verið frá ársbyrjun 1975 til marsverðlags 1976 og er þá miðað við ársgrundvöll. Á veiðarfærum er það hjá bátum, sem ekki veiddu loðnu, 273 millj., hjá bátum, sem veiddu loðnu, 41 millj., hjá minni skuttogurunum 91 millj. og stærri skuttogurunum 52 millj., eða samtals í veiðarfærum á ársgrundvelli 467 millj. Iðgjald skipatrygginga að frádregnum endurgreiðslum verður samtals 49 millj. Viðhald verður samtals á þessum framangreindum flokkum 221 millj. og afskriftir 174 millj. Samtals er þetta 901 millj. á ársgrundvelli plús það sem ég áður sagði, olíuhækkunin. Allt þetta nema nær 2 milljörðum kr., en þá er niðurgreiðsluverð olíunnar einnar komið á ársgrundvelli, með því sem áður var, upp í 21/2 milljarð kr.

Þegar þetta frv. var fyrst kynnt var áætlað að í stað þess að hækka útflutningsgjöld til fjáröflunar fyrir Olíusjóð skyldu fiskkaupendur greiða útgerðinni fram hjá samningsbundnum hlutaskiptum 11% hærra fiskverð en nú er. Þessi stefna var kynnt sjómönnum og útgerðarmönnum á hávertíðinni, meðan viðkvæmir samningar stóðu yfir. Ábyrgir aðilar úr röðum sjómanna skýrðu sjútvrh. frá því að ef þessi leið yrði lögfest næðust engir samningar á bátaflotanum fyrr en eftir langt samningaþóf, jafnvel verkfall, sem ekki lyki nema með afarkostum fyrir útgerðina. Þessi skoðun var staðfest af áðurnefndum fulltrúum, sem eru nefndir í nál. sjútvn. meiri hl., og var staðfest af þeim fulltrúum, sem komu frá sjómannasamtökunum á fund n. Þeir sögðu aðspurðir að það hefði aldrei verið samið upp á það sem þó samdist um, ef slík lagaákvæði hefðu verið yfir sjómannasamtökunum. Þá var það mat okkar í meiri hl. n., og ég geri ráð fyrir að það sé reyndar líka skoðun þeirra sem skila minnihlutaáliti, að það væri ákaflega óskynsamlegt að fara þessa einhliða fískverðshækkunarleið þegar væri horft til sameiginlegrar óskar sem hefur komið fram frá framangreindum aðilum og er á þessa leið.

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna samþ. að óska eftir því við ríkisstj. að hún feli Þjóðhagsstofnuninni að láta fara fram endurskoðun á samningafyrirkomulagi varðandi kerfisbreytingu á hlutaskiptum og afstöðu til sjóðakerfis sjávarútvegsins. Samninganefndirnar óska eftir að skipuð verði 9 manna n. undir forustu Þjóðhagsstofnunar með aðild tveggja fulltrúa frá eftirtöldum samtökum: Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, og enn fremur að kallaðir verði til fulltrúar Alþýðusambands Vestfjarða og Alþýðusambands Austurlands. N. skili áliti fyrir 1. des. 1975.

Lagasetning þess efnis, að fiskverð skyldi einhliða hækka til útgerðarmanna, hefði að sjálfsögðu haft í för með sér þá skoðun sjómanna að um stefnumörkun væri að ræða. Þetta væri eina leiðin sem fara ætti við endurskoðun sjóðakerfisins. Þetta bar að sjálfsögðu að forðast svo að árangur næðist, en það virðist nú vilji allra aðila, sem hlut eiga að máli, nema þeirra sem máske eru ekki farnir að skilja tilgang eigin samþykktar enn þá. En ef þessi einhliða leið hefði verið farin hefði ekki þurft á sjómönnum að halda í væntanlegri endurskoðun, útgerðarmenn hefðu getað ríslað sér við þá uppskiptingu í sínum hóp.

Á ekki mjög mörgum s. l. árum og með samþykkt þessa frv. er svo komið að nær 60% af fiskverði kemur ekki til hlutaskipta þrátt fyrir skýr samningsákvæði sjómanna og útgerðarmanna þar um. Þessi staðreynd og upplýsingar, sem eru að koma, þótt máske óstaðfestar séu að nokkru, um yfirborganir til útgerðarmanna, auk margs konar fríðinda til þeirra, eru nú að ríða Verðlagsráði sjávarútvegsins að fullu. Það eru æ fleiri sjómenn, ábyrgir aðilar í röðum samtaka þeirra, sem hafa kveðið upp úr um það nú upp á síðkastið að það sé til lítils að sitja á löngum fundum þar og það hafi lítið að segja að gera þetta og vinna svona meðan búið sé við framangreindar staðreyndir, sem ég hef greint hér frá, auk þess sem íslensk sölusamtök á erlendum mörkuðum virðast ekki þurfa að gefa upp samningsbundið söluverð afurða, sem innlenda verðið á þó að taka mið af samkvæmt lögum Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Ef þetta verðákvörðunarkerfi á ekki að hrynja í rúst á næstunni verður full alvara að fylgja þeirri endurskoðun, sem um hefur verið beðið, og það situr þá síst á sumum af samtökum sjómanna að sniðganga slíka endurskoðun, heldur eiga þeir að ganga þar á undan og Alþ. á að vera í fararbroddi um að skora á þá að gera það. Og máske þarf Alþ. líka að ganga að því að endurskoða og setja lög og lagaákvæði um starfsemi þeirra sölusamtaka sem njóta einkaréttar hjá íslensku þjóðinni í sambandi við sína starfsemi, og þar á ég við útflutning á afurðum sínum.

Það voru fleiri vandamál, sem komu upp nú í sambandi við störf n. og höfðu að vísu verið rædd, en kannske ekki til fullnustu á þeim tíma sem þetta var til umr. milli sjútvn. beggja d. og undir forsæti hæstv. ráðh. En í sambandi við 11%, sem tóku breytingum á því stigi að meiri hl. n. var að ræða saman, þá komu upp tvö önnur vandamál og þ. á m. var sú skoðun saltfiskframleiðenda, að ef við fylgdum stíft eftir því sem segir í 2. gr. frv. um 6% útflutningsgjald af fob.-verði útflutnings á saltfiski, ef við ekki gerðum þar einhverja bragarbót á, þá mundum við máske með þessari aðgerð ríða að fullu þurrfiskútflutningi okkar og verkun og auk þess stæði saltaði ufsinn ákaflega illa í sambandi við erlenda markaði. Við höfum, sbr. brtt., sem n. í heild flytur, komið á móti þessari skoðun. Þó að það sé álit a. m. k. meiri hl. í sjútvn. að saltfiskverkunin standi máske miklu betur en sé látið í skina, þá vitum við að þeir, sem ekki eru með hráefnisframleiðsluna og blautfiskverkunina í sínum höndum, þeir sem eru eingöngu með þurrfiskverkunina, þeir ríða ekki of feitum hesti frá sinni framleiðslu, auk þess sem við vitum um leið að sala þessara afurða hefur dregist saman á erlendum mörkuðum og við þurfum að gæta þess að halda þeim, jafnvel þó að ríkissjóður eða aðrir sjóðir komi á móti. Við verðum þá að vera reiðubúnir og geta komið á móti með nokkra lækkun á gjöldum til ríkisins til þess fyrst og fremst að tryggja framtíðarmarkaði fyrir þurrfiskinn. Það sjá allir, að það er mikið sem fylgir því, ekki aðeins að blautfiskverka fiskinn, heldur og að koma honum í fulla þurrkun og flytja hann þannig á erlendan markað.

Brtt. okkar í sambandi við þetta mál er á þá leið, að heimilt er að endurgreiða útflutningsgjald skv. b-lið 2. gr. að hluta eða öllu leyti á þurrkuðum saltfiski, þ. á m. af þurrkuðum saltufsa. Við höfum þetta í heimildarformi til hæstv. sjútvrh., m. a. vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að þótt saltfiskframleiðendur hefðu farið fram á lækkun, sem næmi nokkrum prósentum af því útflutningsgjaldi sem fyrirhugað er í frv., þá gerum við okkur fulla grein fyrir því að það getur þurft að fara miklu neðar. Það getur verið að það þurfi algjörlega að sleppa gjaldi til þess að við getum haldið því sem ég gat um áðan og þá á ég við markaðina fyrir þurrsaltfiskinn.

Það kom skýrt fram frá aðilum, sérstaklega suðaustanlands og reyndar frá þeim sem hafa séð um hagsmuni síldarsaltenda og þeirra, sem verkað hafa síld frekar, að við þyrftum að vera með sömu undanþáguheimildir og voru í sambærilegum lögum sem við samþ. skömmu fyrir þinghlé. Því erum við með þá brtt. að við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður þess efnis, að heimilt sé að endurgreiða útflutningsgjald samkv. lögum nr. 19/1973 og a-lið 2. gr. þessara laga af saltsíld og saltsíldarflökum sem framleidd eru á árinu 1975. Þetta verður að vera matsatriði hverju sinni. Ef af því verður, sem hefur nokkuð komið á dagskrá, að leyfa veiðar á síld allt að 10 þús. tonnum við Suðausturlandið, þá sjáum við auðvitað að svo getur farið að við flytjum út þúsundir tunna af saltsíld eða saltsíldarflökum. Það er ekki þar með sagt að við séum þá að taka hreinar tekjur upp og einhvern stórkostlegan ágóða sem hægt sé að skattleggja fyrir aðra þætti útgerðarinnar. Við megum ekki gleyma því að á undanförnum árum hefur á okkar gömlu mörkuðum, þar sem við seldum okkar saltsíld, verið selt mikið af Norðursjávarsíld, sem hefur verið stimpluð sem Íslandssíld, og ef við kæmum með miklu hærra verð en sú síld er seld á á þessum mörkuðum, og ég held að það sé frekast Svíþjóðarmarkaðurinn sem við hugsum þá um, þá gæti það skeð að kaupendur vildu ekki fá þessa afurð okkar á því verði sem við teldum okkur geta selt hana á. Ég veit að hún mun að sjálfsögðu seljast hærra verði en hin þegar kemur í ljós að þetta er hin ekta og besta Íslandssíld sem hægt er að fá, en við skulum samt vera viðbúin því að við þyrftum að gefa þessi opinberu gjöld algjörlega eftir til þess að við á ný tryggðum okkur þá markaði sem þarna er um að ræða.

Við erum með sameiginlega brtt. frá n. líka við a-lið 1. gr. í sambandi við lífeyrissjóði sjómanna. Ég vakti athygli á því að það skeði daginn áður en við hófum fundi í n., að tveir miðaldra — eða ég kalla þá unga sjómenn, það voru tveir ungir sjómenn, sem komu til mín. Annar hafði í fyrravetur misst annan fótinn, en hinn var að koma af spítala þar sem annar fótur hans var gerður að staurfót. Þetta eru menn sem voru á besta aldri og höfðu gegnt trúnaðarstörfum um borð í skipum og voru þar yfirmenn, bátsmenn á togurum og farskipum, og þá auðvitað sá maður strax að við getum ekki aðeins talað um verðbætur á lífeyrisgreiðslur, heldur þyrfti að koma þarna inn í líka á örorkugreiðslur. En þessir menn eiga að geta fengið og fá örorkugreiðslur úr sínum lífeyrissjóðir, lífeyrissjóði sjómanna. Þetta er að sjálfsögðu breyting sem enginn mun amast við og allir munu telja sjálfsagða, en þetta er yfirsjón þeirra sem unnu að því að fá þetta atriði inn í lögin í byrjun.

Þá kem ég að því atriðinu sem hefur tekið hug og hönd n., a. m. k. margra úr n., undanfarna daga, en það eru ákvæði til bráðabirgða, 3. liður, en með leyfi forseta segir svo orðrétt í frv.: „Ákvæði b-liðar 1. málsgr. 2. gr. l. nr. 2 13. febr. 1975, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breyt. á gengi íslenskrar krónu, um 20% frádrátt vegna gengismunar, skulu taka til afurða framleiddra úr loðnu, sem landað hefur verið fyrir 16. febr. 1975:“

Því þarf kannske ekki að lýsa, líklega hafa allir hv. þm. fengið einhverja nasasjón af hagamunahópum, pressuhópum, sem einhverjir kalla, sem hafa verið á ferðinni vegna þessa ákvæðis. Sannleikurinn er sá að það verður að viðurkenna að margt er rétt sem þeir, sem þetta nær til, verksmiðjurnar austanlands, hafa haldið fram í sambandi við sitt mál um að það sé ekki hægt að telja það framleiddar afurðir, þótt mikið loðnumagn sé komið í þrær verksmiðju. Við megum þó ekki gleyma hinu, að það er hluti framleiðslunnar og það er eitt framleiðslustigið að láta loðnuna lagerast í þrónum, þannig að það má segja að framleiðsla sé hafin um leið og loðnan sé komin í þrær. Og það nær auðvitað ekki nokkurri átt fyrir þá að halda því fram að þeir einir meðal loðnuverksmiðja á landinu hafi þurft að kaupa á víxlum þau hjálpargögn, poka og annað, sem þarf til framleiðslunnar. Ég mundi frekar álita að það séu öll líkindi til þess að þeir einir hafi vegna samgönguerfiðleika austur verið búnir að tryggja sér þetta á eldra genginu. Það eru þá frekar hinir, sem eru hér í grennd við Reykjavík, sem mundu hafa þurft að kaupa þetta á nýja genginu vegna þess að þeir hafa ekki haft fé til þess að festa í þessu áður,

En hvort tveggja eru þetta smáatriði miðað við heildarmálið. Heildarmálið er það að þeir vildu láta afreikna allt það magn, sem var í þróm þessara verksmiðja, sem samkv. upplýsingum loðnunefndar mun hafa numið um 80 þús. tonnum, sem er ákaflega stór hluti af heildarmagninu sem unnið var og var nokkuð á fimmta hundrað þús. tonn, á hinu eldra gengi og vildu njóta gengishagnaðarins af þessu, að þetta væri hráefni sem ekki kæmi undir framleiddar afurðir.

Á þetta vildum við ekki fallast eins og það var sett fram og þá ekki heldur þá till., sem kom frá fulltrúum bæði frá Síldarverksmiðjum ríkisins og verksmiðjum austanlands þess efnis að það yrði sett jöfnunargjald, útflutningsgjald á allar útfluttar loðnuafurðir á vertíðinni. Í fyrsta lagi kom í ljós auk óréttlætisins, sem þetta hafði haft í för með sér gagnvart þeim, sem eru á Suðvesturlandi, Vesturlandi og hluta Suðurlands, þá kom auðvitað í ljós að það voru ákveðnir aðilar sem voru búnir að flytja út og gera gjaldeyrisskil fyrir öllum sínum loðnuafurðum þannig að það hefði aldrei náðst í þetta útflutningsgjald af þeim afurðum. Hún datt því mjög fljótlega upp fyrir, þessi hugmynd, þegar málið var skoðað niður í kjölinn.

En það var haldið áfram að vinna í þessu og samkvæmt mjög eindregnum óskum bæði þm. að austan og reyndar okkar í meiri hl. sjútvn. var þetta tekið til sérstakrar endurskoðunar síðustu daga og sú endurskoðun og skoðun hefur haft það í för með sér að við flytjum nú við þessa umr. skriflega brtt. við 3. lið ákvæða til bráðabirgða einmitt til þess að koma nokkuð á móti skoðunum framleiðendanna eystra og í Vestmannaeyjum og reyndar í Grindavík líka og Þorlákshöfn. Þeir eru allir undir þessu, að hafa átt mikið af loðnu í sínum þróm þegar gengisfellingin átti sér stað. Þessi skriflega brtt. hljóðar svo, að við 3. tölul. bætist: „Sjútvrn. skal setja reglur um framkvæmd þessa liðar, þar sem m. a. verði kveðið á um, hvernig meta skuli það afurðamagn sem framleitt hefur verið úr hráefnisbirgðum loðnuverksmiðja, eins og þær voru um miðnætti 15. febr. 1976.“ Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja þessa skriflegu brtt. fram frá mér og hv. þm. Jóni Skaftasyni.

Það verður að viðurkennast að þetta ákvæði er nokkuð óvenjulegt, þar sem má segja að í því felist túlkun á því hvað felist í orðinu framleiðsla í skilningi laga nr. 2 frá 1975, um ráðstafanir vegna gengisbreyt., 14. febr. s. l. Þegar þess er gætt að af 166 þús. tonnum af loðnu, sem að landi var komin að kvöldi hins 15. febr. s. l., eru allt að 80 þús. tonn talin hafa verið í þróm verksmiðjanna, er eðlilegt að sett séu sérstök ákvæði um meðferð þeirrar framleiðslu sem rekja má til þess magns sem allt var að sjálfsögðu verðlagt á hráefnisverði sem miðaðist við eldra gengið.

Eins og ég sagði áðan er auðvitað ljóst fyrir öllum, að framleiðslan verður ekki til á neinni örskotsstund og það þarf margs að gæta í því sambandi. Og það er enginn vafi á því að framleiðslan úr þessum 80 þús. tonnum hefur orðið til við skilyrði, sem voru afar lík þeim sem giltu fyrir þá framleiðslu sem komin var í birgðir eða hafði verið flutt út fyrir 15. febr. 1975, þótt nokkuð af aðföngum til vinnslunnar kunni að hafa verið greitt eftir gengisbreytinguna. Því er það sem við leggjum til að það verði settar þessar sérstöku reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Er gert ráð fyrir að reglurnar verði í aðalatriðum reistar á tvenns konar heimildum. Annars vegar verði byggt á skýrslum Fiskifélags Íslands um móttekið hráefnismagn á miðnætti 15. febr. 1975 og um fullunna framleiðslu og birgðir loðnuafurða hverrar verksmiðju á sama tíma. Með því að áætla það hráefnismagn, sem farið hefur í fullunnar afurðir samkv. framleiðsluskýrslum, og draga það frá tölum um móttekið hráefnismagn, fæst áætlun um hráefni í birgðum. Hins vegar verði byggt á upplýsingum loðnunefndar um laust þróarrými hjá hverri verksmiðju á þessum tíma því að þessi stærð dregin frá áætluðu heildarþróarrými gefur áætlað magn hráefnis í þrónum. Vegna óhjákvæmilegrar óvissu um þessar áætlanir eins og reyndar allar þær, sem eru lagðar til grundvallar í frv. í heild, og til þess að gæta fyllstu sanngirni er reiknað með því að hráefnismagnið verði í þessu skyni metið sem 2/3 hlutar þess magns sem beinar áætlunartölur samkv. því sem áður sagði gefa sem niðurstöður. Þetta er auðvitað meginatriðið í málinu varðandi það, sem þarna er um að ræða, 80 þús. tonnin, að það verði aðeins 2/3 hlutar þess magns samkv. beinum áætlunartölum sem gefi þá niðurstöðu sem leitað verður eftir. Síðan verði áætlað afurðamagn úr þessu hráefni metið á grundvelli þeirrar nýtingartalna, sem taldar voru gildar um vikuna frá 9. febr. — 15. febr. 1975, en í þeim áætlunartölum var rætt um 15% mjöl og 5,3% lýsi. Og það er auðvitað eitt, sem við verðum að hafa líka í huga, þegar við ræðum hagsmuni þeirra þarna eystra. Það er auðvitað stór munur á hvað út úr fyrstu loðnunni fékkst eða þeirri sem var landað síðast í febr. og í mars við Faxaflóann, en þar er auðvitað fituinnihaldið svo gífurlega miklu meira að þeir eiga að hafa svolítið meira bakþol en hinir. Þessu afurðamagni, sem þannig fæst, verður síðan bætt við birgðamagnið hjá hverri verksmiðju og það magn allt gert upp á eldra gengi við gjaldeyrisskil. Er áætlað að upphæð þessi geti numið allt að 36 millj. kr.

Herra forseti. Það komu að sjálfsögðu fram margar spurningar í sambandi við mál þetta á nefndarfundinum. Ég vil taka það mjög skýrt fram og ég vil þakka hv. þm. Gils Guðmundssyni fyrir að hafa orðið við þeirri ósk að taka sæti á fundi n. í fjarveru fulltrúa Alþb. í n., Garðars Sigurðssonar, en hann dvaldist erlendis í opinberum erindagjörðum meðan við vorum að vinna í málinu, en Gils Guðmundsson sat alla okkar fundi og fylgdist þar með og lagði fram ýmsar spurningar, sem ég geri ráð fyrir að verði gerð grein fyrir á eftir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að þreyta hv. þm. með að fara út í frv. öllu meir. Þar sem ljóst er að við 1. umr. málsins var í ræðu, sem hæstv. sjútvrh. þá flutti er frv. var fylgt úr hlaði, mjög ítarlega farið í hverja einustu gr. og sé ég ekki ástæðu til þess að fara yfir þær aftur.

Ég hef reynt að skýra nokkuð frá þeim brtt., sem við leggjum fram, og af hverju þær hafa komið og jafnframt að skýra nokkuð frá því helsta sem fram kom í umr. nm. við þá fulltrúa, sem boðaðir voru á fund hennar.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í byrjun míns máls, að það er vissulega ekki neinn stór fögnuður, hvorki hjá mér né reyndar fleirum, yfir því að óska eftir því við hv. Alþ. samþ. þetta frv. Við hins vegar sjáum að það er hluti þeirra neyðarráðstafana, sem hefur orðið að gera að undanförnu til þess, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að tryggja gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, tryggja atvinnulíf og fyrirbyggja atvinnuleysi. Það er skilyrðislaust sú krafa, grundvallarkrafa, sem verður að gera til ríkisstj. og þess meiri hl. á Alþ. sem hana styður, að við forðum því fári frá þjóðinni, og við gerum það ekki frekar en með því að halda útveginum gangandi. Til þess að svo megi verða hefur þetta frv. verið flutt, sem við mælum með að samþ. verði með þeim breyt. sem við leggjum til á þessu sérstaka þskj. sem. ég hef skýrt frá.