26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

307. mál, eftirlit með raforkuvirkjun

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 62 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh., svo hljóðandi:

„1. Hvað líður störfum n. frá 1. nóv. 1972 vegna eftirlits með raforkuvirkjum?

2. Hefur n. gert einhverjar till. til rn. um bætt skipulag þessara mála, t.d. að Rafmagnseftirlit ríkisins verði sjálfstæð stofnun?“

Nú eru sem sagt ríflega tvö ár liðin síðan þáv. hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, skipaði áður umrædda n. og þykir mér við hæfi að grennslast nokkuð fyrir um störf nefndarinnar.

Tvær meginástæður liggja fyrir vissri forvitni minni um mál þetta. Önnur er sú að á heimastað mínum, Reyðarfirði, fékk ég fyrir nokkrum árum mjög áþreifanlega og um leið ítarlega sönnun þess hver nauðsyn það er að umrætt eftirlit með raforkuvirkjum sé ekki aðeins lifandi og öflugt, heldur miklu fremur virkt í reynd, þannig að eftir því sé farið á ítrasta hátt. Á þessum 600 íbúa stað þurfti að leggja í lagfæringar og viðgerðir sem námu hundruðum þúsunda aðeins til þess að brýnustu hættu væri bægt frá íbúunum. En sem betur fór var því eftirlíti framfylgt rækilega. Þetta alvarlega ástand sem þarna reyndist vera við nána könnun, en áður hafði virst öllum dulið, vakti athygli mína og umhugsun. Náinn kunningi minn eystra gegnir eftirlitsstörfum með raforkuvirkjum og ég fór að leita mér upplýsinga hjá honum um almennt ástand þessara mála. Þetta varð svo til þess að þegar ég var kominn hingað suður hélt ég áfram þessari forvitni minni og skrifaði m.a. Rafmagnseftirliti ríkisins bréf og spurði margs þetta varðandi.

Eftir ýmsum leiðum komst ég á þá skoðun að í mörgu væri hér ábótavant, þannig þó sérstaklega að erfitt reyndist um vik oft og tíðum að framfylgja skýrum lögum og reglugerðarákvæðum hér að lútandi. Alveg sérstaklega virtist þetta eiga við um vinnustaði ýmiss konar og stór fyrirtæki sem oftlega þverskölluðust við því sem fyrirskipað var. Svokallað „gamal-eftirlit“, eftirlit eldri húsa og fyrirtækja og framkvæmdir til úrbóta þar, reyndist ekki sem skyldi að því er ég fékk best séð. Einnig varð mér ljóst af nánari kynningu við málið allt að óeðlilegt hlýtur að vera að Rafmagnseftirlitið lúti yfirstjórn stofnunar sem það á að hafa eftirlit með að nokkru. Mér sýndist og sýnist enn allmjög á það skorta að vald eftirlitsins og sjálfstæði sé nægilegt.

Mér var kunnugt um ýmsar viðræður milli einstakra aðila og fulltrúa stofnana um þetta mál í heild svo og um fund ráðh. með ýmsum aðilum, sem þetta snerti, sem leiddi til þessarar nefndarskipunar. Því er um þetta nefndarstarf spurt. Öryggi í þessum efnum er nauðsyn. Eftirlít þarf að vera sem best og virkast. Margvísleg hætta getur af gáleysi og trassaskap stafað, m.a. er lífi manna og eignum vá búin. Það þarf að vera fullkomlega kleift að loka vinnustað ef þörf krefur, banna rafmagnstæki sem ekki eru nægilega örugg, sjá til þess að tryggilega sé frá öllum nýlögnum gengið. Ég hef kynnst persónulega mörgum þeirra, sem hér að vinna, og veit um árvekni þeirra og samviskusemi svo og áhyggjur þeirra af því að geta ekki tryggt starfsárangur sem vera skyldi.

Ég skal ekki eyða lengri orðum að fyrirspurnarefninu, en af nógu er að taka sem sannar að starfssvið umræddrar n. var og er æríð og full ástæða til að fá upplýst hvernig mál standa þar nú, hvort raunhæfari úrbóta er að vænta.