07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í þessum umræðum sat ég nokkra fundi hv. sjútvn. þessarar d. í fjarveru hv. b. þm. Sunnl., Garðars Sigurðssonar, og tók þátt í afgreiðslu þessa máls. Það var í sjálfu sér nokkuð merkileg lífsreynsla að sitja þessa fundi sjútvn. Nd., ekki vegna þess að nm. kæmu mér eitthvað spánskt eða undarlega fyrir sjónir. Ég tel að þeir hafi, miðað við þann skamma tíma sem var til stefnu, unnið vel og myndarlega að þessu máli og ég er formanni nefndarinnar, hv. 8. þm. Reykv., þakklátur fyrir að hann tók mjög vel öllum ábendingum um að fá aðila á fund nefndarinnar til þess að gefa umsagnir og upplýsingar. En hin merkilega lífsreynsla, sem ég nefndi í upphafi þessa máls, var fyrst og fremst sú að á fund nefndarinnar komu fulltrúar flestra þeirra aðila sem segja má að þetta mál snerti beint, a. m. k. voru kvaddir á fund nefndarinnar, og ég held að það sé óhætt að segja að allir, hver og einn einasti þeirra, luku upp einum munni um það, þótt forsendurnar væru að vísu nokkuð ólíkar, að þetta frv. væri illt og í raun og veru óhafandi í þeirri mynd sem það var og þeirri mynd sem það er.

Það er kannske ekki neitt spánnýtt að þegar gerðar eru og gera þarf ýmsar ráðstafanir við erfiðar aðstæður, þá komi aðilar, sem þær ráðstafanir koma við á einhvern hátt, og haldi því fram að allt sé í voða ef þannig verði haldið á málum sem ætlunin er að gera. Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt að ýmsir aðilar leggi þannig til mála og vilji að sjálfsögðu losna við óþægindi sem þá og þeirra stétt eða starfsgrein varðar. En þetta var svo óvenju samróma kór, jafnt frá fulltrúum fiskimannanna, fulltrúum útgerðarmannanna og þeirra sem taka við fiskinum til verkunar, að það hlaut að vekja sérstaka athygli. Annað var mjög einkennandi í sambandi við það sem þessir fulltrúar hinna ýmsu greina sjávarátvegsins höfðu fram að færa, að þrátt fyrir það að þeir væru spurðir að því, hvort þeir teldu að síðasta gengisfelling hefði verið gerð í þágu sjávarútvegsins eða fært honum einhver betri skilyrði, þá neituðu því allir. Enginn vildi í rauninni við það kannast að hin síðasta gengisfelling hefði verið gerð í þágu sjávarútvegsins eða leysti þar í raun og veru nokkurn vanda.

Það má segja að þarna hafi það gerst eins og í þulunni segir þegar um það var spurt, hvort síðasta gengisfelling hefði leyst einhvern vanda: „Kötturinn sagði ekki ég“ o. s. frv. — Menn kunna þessa þulu.

Hæstv. núv. sjútvrh. hefur óneitanlega staðið í nokkuð ströngu þann tíma sem hann hefur setið á ráðherrastóli. Hann hefur oftar en einu sinni lýst þeim erfiðleikum sem hafa hrannast upp undanfarin missiri og mánuði og ég skal síst gera lítið úr því að þeir erfiðleikar hafa verið og eru verulegir. Það er í sjálfu sér mannlegt, sem hefur hent hæstv. sjútvrh. og ég mun nú ekki fara langt út í, að leitast við að kenna fyrrv. ríkisstj. um allt það a. m. k. sem hægt er með nokkru móti að kenna henni um og raunar töluvert meira, hann hefur haft nokkra tilhneigingu til þess að gera hana ábyrga fyrir allmiklu meira en með nokkru móti væri hægt að gera. Út í þessa sálma skal ég ekki fara mjög langt, en það verður e. t. v. tækifæri til þess að ræða þau mál við hæstv. ráðh. við eitthvert annað tækifæri.

En eitt vil ég nefna alveg sérstaklega í sambandi við þetta mál áður en ég kem að einstökum atriðum. Ég tel vert að vekja á því athygli og raunar miklu rækilegar en við stjórnarandstæðingar höfum gert fram til þessa, hversu lengi í raun og veru aðalflokkur núv. ríkisstj., Sjálfstfl., hefur borið verulegan — ég vil segja ríflegan hluta ábyrgðar á íslensku stjórnarfari og ábyrgð á því ekki aðeins sem gert hefur verið síðan núv. ríkisstj. kom til valda, heldur á ýmsu því sem ógert var látið á fyrri hluta síðasta árs og fram yfir mitt ár meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. Það er ekki bara þá 8 mánuði sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur setið sem Sjálfstfl. ber sína fullu ábyrgð á þróun t. a. m. verðlagsmála og á þeirri þróun sem vissulega varð til hins verra og kom m. a. sjávarútveginum afar illa á s. l. ári. Í fyrra um þetta leyti var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Þá var verið að glíma við ýmis vandamál og þá ekki síst dýrtíðarvandamálið. Þáv. ríkisstj. hafði þá, eins og allir muna, misst meiri hl. sinn í þessari hv. d. og átti við mjög mikla og vaxandi erfiðleika að etja, m. a. og ekki síst af þeim sökum að hún hafði ekki meiri hl. í báðum d. Alþ. og kom ekki fram þeim málum sem hún taldi nauðsyn til bera. Frá fyrrv. ríkisstj. lágu fyrir ýmsar till. sem að því miðuðu að hamla gegn dýrtíð og draga úr verðbólgu, till. sem voru til þess fallnar að draga a. m. k. úr þeim vanda sem við var að glíma og við er að glíma í dag. Það var álitamál hvort þessar till., sem fyrir lágu frá fyrrv. ríkisstj., væru fullnægjandi og hvort þær væru nákvæmlega þær till. sem ætti að samþ. eða ekki. Ég hygg að þær hafi í rauninni verið algjört lágmark þess sem nauðsynlegt var og sennilega tæplega þó. En hvernig brást Sjálfstfl. við þegar þessi vandi var öllum ljós fyrir ári? Hvernig brást hann við till. og meginfrv. hæstv. fyrrverandi ríkisstj. Ég held að ég þurfi ekki að fara um það mörgum orðum. Aldrei held ég, þó að leitað sé með logandi ljósi í allri þingsögunni, hefur flokkur í stjórnarandstöðu sýnt ábyrgðarlausari framkomu en Sjálfstfl. gerð fyrir um það bil ári. Og ég vil lýsa fullri ábyrgð og fullri sök á hendur Sjálfstfl., ekki minni en annarra flokka, allt frá þeim tíma að hann kom í veg fyrir það að nokkur skynsamleg úrræði í efnahagsmálum væru samþ. hér á Alþ. fyrir ári. Allir sáu þá að hverju fór og að það var nauðsynlegt að gera ráðstafanir. Þá sögðu forustumenn Sjálfstfl. — og kratarnir tóku náttúrlega undir, enginn bjóst við öðru: Við verðum á móti öllum till. ríkisstj., sögðu þessir herrar, það er alveg sama hverjar þær eru, þó að við metum þessar till. í sjálfu sér góðar og teljum þær nauðsynlegar, þá verðum við á móti þangað til ríkisstj., hin vonda ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, er farin frá. — Þessir herrar bentu þá ekki á nokkur úrræði. Þeir voru bara á móti öllu sem stjórnin kom með. Þetta vil ég telja eitthvert dæmalausasta og sennilega dæmalausasta ábyrgðarleysi stjórnmálaflokks sem sögur fara af.

Ég tel að allir stjórnmálaflokkar séu að meira og minna leyti ábyrgir fyrir því að ekki voru fyrir ári eða jafnvel nokkru fyrr gerðar eðlilegar og nauðsynlegar ráðstafanir, sem allir sáu að þurfti að gera snemma á ári 1974. Ég undanskil ekki minn flokk. Hann ber að sjálfsögðu sinn hluta þeirrar ábyrgðar. Þó vil ég segja það að Alþb., Framsfl. og hv. þm. Magnús T. Ólafsson gerðu þó það sem hægt var, gerðu það sem auðið reyndist við þær aðstæður sem þá voru. Aðrir gerðu ekkert. Og ábyrgð hinna, sem ekkert vildu gera, sem engum úrræðum lýstu, hún er vissulega þung. Og ábyrgð Sjálfstfl. er þar langsamlega þyngst, stærsta flokksins og þess flokksins sem þá sýndi slíka óbilgirni að það á ekki að gleymast í þingsögunni. Mér finnst ástæða til þess að þessi saga sé öðru hvoru — og þá ekki síst þegar rætt er um vanda sjávarútvegsins — rifjuð upp. Þeir herrar sem fyrir ári sögðu: Við sýnum ekki nein úrræði, við erum að vísu með úrræði, við erum með þau hér í pokum, en fyrir þá er og verður rækilega bundið þangað til við erum komnir í valdastólana. Þá verða þessir úrræðapokar opnaðir og þá mun það sjást að við getum leyst vandann. Fyrr verður það ekki.

Þessi vinnubrögð, sem ég hef nú lýst með fáeinum orðum, en mætti útlista miklu nákvæmar og betur og verður sjálfsagt tækifæri til að gera síðar, báru óneitanlega töluverðan árangur. Sjálfstfl. bætti við sig miklu fylgi í síðustu kosningum, og svo gerðist sú saga sem undarleg verður að teljast að hæstv. fyrrv. forsrh., oddviti vinstri stjórnarinnar, gerði Sjálfstfl. þann greiða að mynda fyrir hann þá ríkisstj. sem nú hefur setið að völdum í 8 mánuði. Og nú voru sjálfstæðishetjurnar komnar á valdastólana. Og þá voru nú pokarnir heldur betur opnaðir. Þá var nú farið að sýna úrræðin sem höfðu verið vandlega falin, en afskaplega drjúglega af látið að geymd væru ekki bara í pokahorninu, heldur bæði í pokum þvers og langs.

Nú hefur það sýnt sig s. l. 8 mánuði hvað það var, sem Sjálfstfl. hafði geymt í pokunum sínum. Ég ætla ekki að tíunda það við þetta tækifæri í löngu máli. Ég hygg að hinn almenni launþegi í landinu kannist við mikið af því góðgæti sem komið hefur upp úr sjálfstæðispokunum undanfarna mánuði og hann eigi e. t. v. eftir að þakka fyrir sig. En meðal þess, sem dregið hefur verið upp úr þessum pokum, eru tvær heldur myndarlegar gengisfellingar með tæplega hálfs árs millibili, og það segja mér fróðir menn að á þessu sviði, að því er varðar tíðni gengisfellinga, hafi núv. hæstv. ríkisstj. undir forustu Sjálfstfl. sett svo kirfilegt met að undrum sætir. Gamla metið, þ. e. a. s. tíminn sem leið milli gengisfellinga, mun hafa verið um það bil eitt ár, en met þessarar ríkisstj, er eitthvað 51/2 mánuður. Þetta fer sennilega að slaga upp í hið fræga afrek Maós formanns, þótt ólíku sé raunar að öðru leyti saman að jafna, þegar hann hérna um árið synti Gulá, ég held á móti straumi, og náði 80 km hraða á klst. Þess er að vísu að geta að samkv. mjög merkri heimild, Morgunblaðinu, var Maó form. nýstaðinn upp úr annaðhvort sjöundu eða áttundu banalegu sinni þegar hann vann þetta afrek. (Gripið fram í: Er hann ekki enn á sundi?) Hæstv. núv. ríkisstj. er ekki komin til lands.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara miklu lengra út í þessa sálma, en ég ætla að segja hæstv. sjútvrh. það, ef hann hefur ekki vitað það áður, að það virðist svo sem allir séu jafnóánægðir með þetta frv. hans um þær ráðstafanir sem lagt er til að gera í sambandi við svokallaða ráðstöfun gengishagnaðar, eins og það er orðið. Þeir aðilar sem ég og við í sjútvn. hlustuðum á, þeir menn, sem komu á fund sjútvn. og skýrðu frá sínum viðhorfum, voru ekki aðeins andsnúnir þessu frv., enginn þeirra taldi að síðasta gengisfelling hefði verið nokkur bót fyrir sjávarútveginn. Á fundi nefndarinnar komu, eins og ég hygg að hv. form. n. og frsm. meiri hl. hafði gert grein fyrir, fulltrúar Landsambands ísl. útvegsmanna, Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, saltfiskframleiðenda, SÍF, síldar- og loðnuverksmiðjanna. Þessir aðilar voru allir óánægðir. Að vísu tóku þeir nokkuð misjafnlega djúpt í árinni, og það var ekki laust við að nm. sumum fyndist að þeir, sem töldu að allt væri örugglega að farast hjá þeim ef eitt eða annað í þessu frv. yrði samþ., væri e. t. v. ekki þeir sem almenningur teldi að verst væru staddir, en það er kannske önnur saga. En þá kem ég að því að auk þessara aðila frá hinum ýmsu greinum útgerðar og fiskvinnslu komu á fund n. fulltrúar frá Sjómannasambandinu og frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, þ. e. a. s. fulltrúar sjómanna. Og þeir létu í ljós, eins og þegar hefur komið fram, mjög mikla andstöðu gegn þessu frv., einkum 2. gr. þess þar sem ætlunin er að taka stórar fúlgur enn af óskiptu og nota til þar til greindra útgerðarþarfa og þá alveg sérstaklega í Olíusjóðinn. Þessir fulltrúar sjómanna, bæði undir og yfirmanna, héldu því hiklaust fram og færðu að því rök að eftir að þetta frv. hefði verið samþ. og orðið að lögum, fengju sjómenn ekki nema um það bil eða tæplega helming af aflanum til skipta, hitt færi til útgerðarinnar og í hið margbrotna sjóðakerfi áður en farið væri að skipta afganginum milli útgerðarmanna og sjómanna. Einhver hefur lýst þessu þannig að fyrst, áður en farið er að skipta hlutnum, er skorið af fiskinum aftur undir gotraufina og síðan er sagt við sjómennina: Nú skulu þið taka ykkar hlut úr því sem er þarna eftir fyrir aftan. — En fulltrúar sjómanna, og það bið ég hv. stjórnarsinna að leggja á minnið, — fulltrúar sjómanna fullyrtu að með því að halda áfram að vega svona í sama knérunn aftur og aftur og taka meira og meira af aflanum áður en til skipta kæmi, væri verið að kippa öllum stoðum undan hlutaskiptafyrirkomulagi því sem hér hefur ríkt um mjög langan tíma og er gamalt í okkar sögu. Þetta hlutaskiptafyrirkomulag væri ekki orðið annað en skrumskæling þess sem áður var og þess sem á hefur verið byggt svo að segja frá upphafi vega eftir að helmingur eða jafnvel fullur helmingur er tekinn af óskiptu og síðan sagt við sjómenn: Nú getið þið hirt ykkar hlut af því sem eftir er. — Við þetta verður ekki unað, sögðu fulltrúar sjómannanna, og ég held að þeir hafi ekkert ofmælt í þessu. Ég held að sjómenn geti ekki við þetta unað.

Fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, framkvæmdastjóri þess, sagði á fundi n.: Okkur frá Farmannasambandinu hefur verið boðið að taka þátt í endurskoðun þessa sjóðakerfis, sem við teljum út af fyrir sig mjög nauðsynlegt að verði endurskoðað og teljum að hafi þegar gengið langt úr hófi fram þó að ekki sé nú við bætt. Á slíkri endurskoðun, sagði þessi fulltrúi, og fulltrúi Sjómannasambandsins tók undir það, er rík nauðsyn. En við höfum hafnað, sagði fulltrúi Farmannasambandsins, boði um að taka þátt í þessari endurskoðun að svo komnu máli og ástæðan er þessi : Það er ekki nokkur leið að sjá að nein alvara sé að baki boða stjórnarvalda um þessa endurskoðun. Á sama tíma og þetta tilboð um endurskoðunina kemur til okkar, er verið að stórauka sjóðakerfið, verið að afla nýrra milljónatuga og milljarða til þess að halda þessu sjóðakerfi gangandi og auka það með þessu frv. sem hér liggur fyrir um ráðstöfun gengishagnaðar. Þetta, sagði fulltrúi Farmannasambandsins, teljum við þannig í pottinn búið að það geti ekki verið af slíkum heilindum mælt, að nú eigi að fara að endurskoða sjóðakerfið, að við erum ekki tilbúnir til þess að eiga hlut að slíku við óbreyttar aðstæður.

Þegar sjútvn. þessarar hv. d. ræddi við fulltrúa sjómanna og fékk mjög skýrt og greinargott álit þeirra á því, sem einkum ákvæði 2. gr. frv. leiddu til, að enn væri verið að hlunnfara sjómenn og ómerkja í raun og veru hlutaskiptafyrirkomulagið, þá var á nefndarfundinum lítt eða ekki komið inn á atriði sem þó er full ástæða til í sambandi við þetta mál og í sambandi við kerfi sjávarútvegsins yfirleitt að staldra dálítið við og óska nokkru nánari upplýsinga um ef fáanlegar eru. Það má segja að verulegar líkur, ef ekki nokkurn veginn fullvissa bendir til þess að í sumum tilvikum, jafnvel fleiri tilvikum en margan hefur órað fyrir, fái sjómenn ekki einu sinni skiptan hlut úr þessum tæplega helmingi eða um það bil helmingi raunveralegs aflaverðmætis fisks sem þeir koma með að landi, heldur sé enn klipið af jafnvel svo að um munar án þess að það komi til skipta fyrir sjómennina.

Það mun flestum kunnugt, sem hafa einhver afskipti haft af sjávarútvegi eða hafa fylgst með þróun mála þar, að síðari hluta vetrar og nú í vor hafa gengið um það þrálátar sögusagnir, miklu þrálátari en nokkru sinni fyrr þó að þær hafi að vísu komið upp áður, að nafngreindir og ónafngreindir fiskkaupendur byðu útgerðarmönnum verulega hærra verð fyrir afla báta og skipa en lög ákveða um lágmarksverð og ýmis fríðindi jafnvel að auki. Það hefur svo sem heyrst áður undir sérstökum kringumstæðum að á einstaka útgerðarstað og í einstaka grein útvegs eða fiskvinnslu hafi borið á einhverju af þessu tagi áður án þess að til þess kæmi að skipta slíku upp á milli sjómanna. En þessi orðrómur er nú miklu þrálátari og ég hygg að hann eigi nú við miklu meiri rök að styðjast heldur en oftast eða jafnvel nokkru sinni áður. Og ég hygg að það séu alveg sérstaklega ákveðnir útgerðarstaðir hér við Faxaflóa þar sem um þetta er að ræða og kann þó e. t. v. að vera víðar. En reynist þetta rétt, sem fullyrt er og líkur a. m. k. hafa verið færðar að, þá virðist hér vera enn ein aðferðin tekin upp til þess að hlunnfara sjómenn og með leyfi að segja að taka af þeim aflahlut sem þeir hljóta að teljast eiga með fullum rétti og umsaminn er við þeirra viðsemjendur. Það, sem ríkisvald og löggjafarvald hafa á undanförnum árum og eru nú með þessu frv., ef að lögum verður sem verður sjálfsagt, að taka af sjómönnum og láta renna í hina mörgu útgerðarsjóði, er þó löghelgað, jafnvel þótt að mínum dómi kunni þar að vera um ranglát lög að ræða í vissum tilvikum og a. m. k. óskynsamleg. En hitt framferðið, sem ég hef nefnt hér að muni eiga sér stað jafnvel í ríkara mæli en nokkru sinni áður, það hlýtur að teljast alger lögleysa og samningsbrot gagnvart sjómönnum.

Það hefur verið fullyrt og er fullyrt að þeir fiskkaupendur, sem gera nú einna best gylliboð, bjóða útgerðarmönnum einna mest gylliboð undir borðið og fram hjá sjómönnum, það séu ýmsir þeir sem hafa verið að framleiða og framleiða nú saltfisk. Það var þó síst á fulltrúum saltfiskframleiðenda að heyra þegar þeir komu, eins og segir í nál. meiri hl., býsna fjölmennir á fund sjútvn. að þeir væru sérlega líklegir til slíkra eða annarra stórræða eins og þess að geta borgað eitthvað umfram hið umsamda lágmarksfiskverð, því að það er sannast sagna að brjóstgóðir menn hlutu að komast við og þeim hlaut að renna til rifja umkomuleysi þeirra sem höfðu lent í þeirri ógæfu að stunda saltfiskverkun á undanförnum mánuðum og missirum því að þeir, sem væru ekki þegar alveg á hvínandi hausnum, þeir væru að detta á hausinn á morgun eða hinn daginn að því er manni skildist. Og það var alveg ljóst að ef gengishagnaðarfrv. ríkisstj., það sem nú er til umr., yrði samþ. þá yrði það alveg tvímælalaust síðasti naglinn í líkkistu þessarar atvinnugreinar.

Nú brá svo við fyrir nokkrum dögum — það er oft erfitt að festa hendur á orðrómi eins og þeim sem ég hef verið að nefna hér — en nú fyrir nokkrum dögum brá svo við að þessar sögusagnir um yfirborganir til útgerðarmanna komu skyndilega upp á yfirborðið. Í Þjóðviljanum 1. maí birtust viðtöl, mjög fróðleg og athyglisverð viðtöl, sem óneitanlega bregða nokkru ljósi á þetta sérstæða mál sem ég hef talið ástæðu til að gera hér að nokkru umræðuefni. Þessar upplýsingar eru þess eðlis að mínum dómi að óhjákvæmilegt er að það verði rækilega kannað hvað hæft er í þessum orðrómi og að sannleikurinn fái að koma í ljós. Ég geri a. m. k. fyllilega ráð fyrir því og veit það raunar að hlutaskiptasjómenn telja það nokkru máli skipta að það geti legið fyrir sem réttastar upplýsingar um þetta atriði hvað hæft kunni að vera í því að fram hjá hlutaskiptunum fari jafnvel allt að þriðjungur þess raunverulega verðmætis sem greitt er fyrir þann afla sem sjómennirnir koma með að landi. Þjóðviljinn 1. maí kemst svo að orði í inngangi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn hefur fengið staðfest að fiskverð það, sem nú er í gildi víða, er algjörlega sniðgengið og greiða fiskverkendur allt að 45.77 kr. fyrir kg af fiskinum, sama hverrar stærðar og hverrar gæða hann er, en með gæða- og stærðarmati er gert ráð fyrir að meðalverðið samkv. ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins sé um 28 kr. á kg. Þetta verð kemur þó ekki til skipta þannig að sjómenn fái notið þess, heldur er um að ræða rúmlega 15 kr. greiðslu undir borðið beint til útgerðarmanna.“ — Svo segir blaðið: „Blaðamaður spurði Martein Jónasson framkvæmdastjóra Bæjarútgerðar Reykjavíkur að því, hvort rétt væri að BÚR hefði misst af viðskiptum við fiskibáta vegna þess að það hafi ekki gengið að því kauptilboði á fiski sem útgerðin setti fram. Tilboðið hljóðaði upp á 30 kr. meðalverð fyrir allan fisk. Við það áttu að bætast 10% eða 3 kr. á kg sem greiða átti beint til útgerðarinnar án þess að það kæmi til hlutaskipta, ákveðin veiðarfæraþjónusta, afskurður og felling, sem metin er sem 3 kr. á hvert fiskkíló, netaslöngur, ein slanga pr. tonn, en þessi liður mun metinn sem 5 kr. af hverju fiskkílói. Ofan á verð á 1. flokks fiski 31.80 kr. átti svo BÚR að greiða 15% í Stofnfjársjóð fiskiskipa eða 4.77 kr. af hverju kg. Verð það, sem þannig yrði greitt fyrir fiskinn, yrði því kr. 45.77 fyrir hvert kg. Þetta er alveg rétt, sagði Marteinn, útgerðin sagðist geta fengið þetta annars staðar og spurði, hvort við vildum ganga inn á þetta sem við gerðum ekki og var málið þar með útrætt. Marteinn sagði að sér skildist að þessi verslunarháttur væri viðhafður um öll Suðurnes og víðar, t. d. á Akranesi. Marteinn tók fram varðandi það tilboð, sem BÚR var gert og skýrt er frá hér að framan að í því hefði ekki verið minnst á netaslöngur, en hins vegar hefði hann heyrt að sumir fiskkaupendur byðu greiðslur á þeim til viðbótar við þær greiðslur aðrar sem hér að framan voru tíundaðar.“ — Enn segir blaðið: „Við spurðum Kristján Ragnarsson, formann og framkvæmdastjóra Landssambands ísl. útvegsmanna, hvort vitneskja hefði borist til hans um slíkar greiðslur fyrir fisk eins og að framan er greint frá. Kristján sagðist hafa heyrt þessa tilboðs getið, nákvæmlega eins og það var tínt til af blaðamanni, og sagðist ekki fara í grafgötur með að slíkt væri gert. Sagði hann að best væri að leita upplýsinga um það hjá þeim sem þar ættu hlut að máli, sem ég geri ráð fyrir að þú vitir hverjir eru, sagði Kristján, og eru í forsvari fyrir önnur samtök sem svo aftur koma fram fyrir hönd kaupenda í Verðlagsráði á móti okkur.“

Annar þeirra manna, sem hér er til vitnað í þessari grein Þjóðviljans, Marteinn Jónasson framkvæmdastjóri og skipstjóri, er mér vel kunnugur og ég tel hann manna ólíklegastan til þess að fara með fleipur eða staðlausa stafi. Ég þekki ekki Martein Jónasson að því og á ekki von á að hann geri slíkt. Hinn maðurinn sem þarna var til vitnað, formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, telur sig að vísu þurfa ýmsum herrum og sundurleitum hagsmunum að þjóna, en ég hef ástæðu til að ætla að í áður tilvitnuðu viðtali hafi hann nú fyrst og fremst verið að þjóna sannleikanum. Um svokallaða leiðréttingu formanns LÍÚ ætla ég hans vegna engin orð að hafa.

Í viðtali við hæstv. sjútvrh., sem birtist í Þjóðviljanum s. l. laugardag, hinn 3. þ. m., um þessi mál segir m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hef heyrt mjög svipaðar frásagnir, sagði sjútvrh., Matthías Bjarnason, er Þjóðviljinn spurði hann eftir því í gær, hvort hann hefði haft vitneskju um það að greitt væri allt að kr. 15.77, eins og Þjóðviljinn skýrði frá 1. maí, eða um 50% hærra verð fyrir fisk upp úr báti en látið hefur í veðri vaka að fiskverkunin þoli og gert er ráð fyrir að greitt sé miðað við verðákvarðanir Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Engar staðfestingar hef ég fengið á þessu, sagði ráðh., nema að það fer ekki á milli mála að fiskur var keyptur án þess að gæðamat færi fram. Þegar spurt var um þessi mál stendur fullyrðing gegn fullyrðingu.“

Eins og hér kemur fram og raunar víðar í þessu viðtali við hæstv. sjútvrh. gerir hann sér grein fyrir því að hér kunni að vera um nokkurt vandamál að ræða.

Í sambandi við það, sem þegar virðist upplýst, og þann sterka orðróm sem um það gengur að mjög mikið kveði að þessum greiðslum sem fari fram á svipaðan hátt og lýst er í blaðinu, vil ég leyfa mér að beina nokkrum fsp. til hæstv. sjútvrh.

Í fyrsta lagi langar mig til að bera það undir hann hvort hann líti ekki tvímælalaust þannig á að svo framarlega sem fiskkaupendur telja sig í ýmsum tilvikum geta greitt hærra verð en hið umsamda eða úrskurðaða lágmarksverð, þá beri sjómönnum, sem ráðnir eru upp á hlut eða aflaverðlaun, að njóta þess að sínum hluta. Þetta var fyrsta spurningin sem mig langar til að beina til hæstv. sjútvrh., það er aðeins álít hans á þessu atriði. — Já, ég skal endurtaka þessa fsp. Ég spurði hvort hæstv. sjútvrh. liti ekki þannig á að svo framarlega sem einhverjir fiskkaupendur, fleiri eða færri, telji að í ýmsum tilvikum geti þeir greitt hærra verð en umsamið er eða úrskurðað lágmarksverð, þá beri sjómönnum, sem ráðnir eru upp á hlut eða upp á aflaverðlaun, að njóta þess að sínum hluta, hvort það sé ekki skoðun ráðh.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telji ekki varhugavert — og raunar vil ég kveða sterkar að orði — hvort hann telur ekki með öllu ótækt að nýlegar og jafnvel alveg nýsettar reglur um stærðarflokkun og gæðamat á ferskum fiski séu þverbrotnar og að því er sagt er allvíða að engu hafðar. Ber hæstv. ráðh. ekki kvíðboga fyrir því?

Þriðja spurningin sem mér þætti æskilegt að ráðh. taki afstöðu til: Ber hæstv. ráðh. ekki kvíðboga fyrir því að þessi sterki orðrómur, sem nú er uppi um það að útgerðarmönnum ýmsum séu greiddar verulegar fjárhæðir undir borðið, fjárhæðir sem ekki koma til skipta, geti torveldað alla samningagerð við sjómenn á næstu mánuðum ef þetta mál fæst ekki upplýst eftir því sem nokkur tök eru á?

Í fjórða lagi: Séu fyrrgreindar staðhæfingar um allt að 45 kr. verð fyrir kg. upp úr bát réttar eða eitthvað nærri lagi, er þá ekki annaðhvort verið að eða búið að kollvarpa öllum þeim verðlagsákvörðunum sem síðast voru teknar í sambandi við fisk? Þurfa þær þá ekki endurskoðunar ef svo reynist að veruleg brögð séu að þessu eins og fullyrt er? Og ef margir aðilar, eins og fullyrt hefur verið, a. m. k. hér við Faxaflóa, geta keypt fisk á því verði sem fullyrt er, þarf þá ekki jafnvel einnig að endurskoða stöðu fiskvinnslu og útgerðar í ljósi þess að hægt virðist vera að greiða miklu hærra verð en þeir útreikningar byggjast vafalaust .

Að síðustu beini ég því til hæstv. ráðh., hvort bæði hann eða hæstv. ríkisstj. telji ekki nauðsyn á því og hvort hann sér ekki einhver tök á því að upplýsa þetta mál nokkru betur en þegar hefur verið gert og þá leiðrétta það sem nýjar upplýsingar kynnu að gefa til kynna að þörf væri á að leiðrétta í sambandi við ýmsar ákvarðanir varðandi sjávarútveginn. Ef hæstv. ráðh. telur þetta nauðsynlegt og ef hann hyggst beita sér fyrir því að þetta mál upplýsist nokkru betur en gert hefur verið, hvenær hyggst hann þá hefjast handa um það? Er hann þegar farinn að undirbúa slíkt eða hæstv. ríkisstj. með einhverjum hætti? Mér er það alveg ljóst að það kann að vera verulegum vandkvæðum bundið að fá þetta mál upplýst til fullrar hlítar, það er þess eðlis, en ég fullyrði hins vegar að það er mjög mikilvægt ef hægt er að komast til botns í málinu og hægt væri þá að kveða niður orðróm sem ekki hefði við rök að styðjast, ef svo vildi verkast, ellegar þá að sannreyna það sem fullyrt hefur verið í þessum efnum, ef svo væri.

Um þetta ætla ég þá ekki að fjölyrða meira að sinni.

Hv. 5. þm. Sunnl., Garðar Sigurðsson, og hv. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, hafa þegar fjallað það rækilega um einstakar greinar þessa frv. af hálfu minni hl., okkar í stjórnarandstöðunni, að ég hef þar í rauninni engu við að bæta.

Ég vil að lokum biðja nokkurrar velvirðingar á því að ég hef í þessu spjalli mínu farið dálítið út fyrir sjálft frv. og það efni sem hér er beinlínis á dagskrá, en það er ekki óalgengt þegar sjávarútvegsmál eru á ferð að þær umræður fari nokkuð vítt og breitt og óneitanlega eru a. m. k. sum þau atriði, sem ég hef gert að umtali í síðari hluta ræðu minnar, þess eðlis að þau snerta bæði beint og þó einkum óbeint það mál sem hér er nú til umræðu,

Það er áreiðanlega enginn leikur að vera sjútvrh. á Íslandi. Það hefur sjaldan verið það og er það ekki nú, og síst af öllu er það leikur þegar erfiðlega árar eins og allir viðurkenna að gerir nú um stundir. Ég þykist því vita að starf hæstv. núv. sjútvrh. hefur ekki verið og er enginn dans á rósum. Þar er við ýmsa erfiðleika að stríða eins og löngum hefur verið og e. t. v. meiri en stundum áður. Eitt af því, sem ég býst við að hann hafi á valdaferli sínum sem sjútvrh. komist að raun um, er að stundum er við býsna kappsfulla og jafnvel nokkuð óbilgjarna aðila að eiga þar sem eru ýmsir þeir aðilar að sjávarútvegi sem e. t. v. skirrast ekki a. m. k. stundum við að sniðganga og jafnvel ryðja úr vegi reglum og ákvörðunum stjórnvalda ef þær eru þess eðlis að slíkir kappar telji þær sér til trafala. Meðal þessara reglna hygg ég að séu ákvæðin um ferskfiskmat og stærðarflokkun á fiski, og ef sá orðrómur, sem ég gerði grein fyrir, reynist réttur, þá í rauninni einnig um hlutaskiptareglur og greiðslur til sjómanna. Ég þykist þekkja hæstv. sjútvrh. að því að hann hefur bæði kappsemi og metnað til þess að láta ekki fótumtroða þær reglur, sem hann setur, né þau lög, sem Alþ. hefur sett að því er sjávarátveginn varðar. Þess vegna tel ég fullvíst að hæstv. sjútvrh. geri það sem hann telur rétt og fært til þess að koma bættri skipan á þau atriði sem ég hef nú í síðari hluta ræðu minnar gert sérstaklega að umtalsefni: Að raunverulegt fiskverð komi til skipta þannig að sjómenn verði ekki stórlega hlunnfarnir, að settar reglur um fiskmat og stærðarflokkun á fiski verði í heiðri hafðar eða þær verði í rauninni framkvæmdar, en þeim þá breytt ella ef réttar kynnu að reynast þær fullyrðingar að við óbreyttar aðstæður séu þær lítt eða ekki framkvæmanlegar, sem ég tek þó ekki allt of trúanlegt að sé.

Ég skal svo ekki, án þess að tilefni gefist, fjölyrða meira um þetta mál, en þætti að sjálfsögðu vænt um það ef hæstv. ráðh. gæti gefið mér nokkrar upplýsingar um það sem ég hef til hans beint og sérstaklega spurt hann um.