07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun ekki verða langorður í þessum umr. þó að sannarlega væri tilefni til þess. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. hafði ég fjarvistarleyfi vegna aðkallandi starfa á öðrum vettvangi þegar n. hafði málið til meðferðar og hef því ekki haft áhrif á þær niðurstöður sem fram koma í þeim nál. sem fyrir liggja.

Það er öllum þm. kunnugt að mjög skiptar skoðanir hafa verið meðal þm. um á hvern hátt bæri að verja þeim gengishagnaði sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Þó hygg ég að þm. séu nokkuð sammála um hina smærri liði, en skiptar skoðanir hafi aðallega verið um ráðstöfun þess fjármagns sem um ræðir í b- og c-lið 1. gr. frv.

B-liðurinn gerir ráð fyrir að af gengishagnaðinum verði 950 millj. kr. varið „til þess að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengigtapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda,“ eins og orðrétt segir í frv. varðandi þennan lið. Er þá gert ráð fyrir, að hér verði um óafturkræf framlög að ræða. Þegar tekið er tillit til að Alþ. hefur fyrr á þessum vetri ráðstafað 600 millj. kr. af fyrri gengishagnaði sem óafturkræfu framlagi í sama skyni verður ekki annað séð en að verið sé að marka þá stefnu að meginhluta ef hugsanlegum gengishagnaði skuli varið sem óafturkræfum framlögum til þeirra sem erlend lán skulda vegna kaupa á fiskiskipum. Ég tel slíka stefnumörkun vægast sagt mjög hæpna, enda er hún í fullu ósamræmi við c-lið 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir að þær 300 millj. kr., sem þar um ræðir, verði lánaðar til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskibátum.

En það er fleira en skiptar skoðanir um ráðstöfun á gengishagnaðinum, sem tafið hefur framlagningu þess frv. sem hér er til umr. Í umr. um það hafa mjög blandast umr. um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og það sjóðakerfi sem hann nú býr við. Ég vona og ég hygg að hv. alþm. séu æ betur að gera sér grein fyrir að á rekstrargrundvelli sjávarútvegsins verður að gera breytingar í grundvallaratriðum með því að afnema það sjóðakerfi sem hana nú í allt of ríkum mæli byggist á. Ef við athugum hvernig þetta dæmi kemur út mun það vera þannig í stórum dráttum: Þjóðhagsstofnun telur andvirði þess afla, sem ráðgert er að landað verði hér á landi á árinu 1975, samtals um 11.8 milljarðar króna og er þá talið með andvirði loðnuafla og innifalið er í þessari upphæð 15% stofnfjárframlag sem fiskkaupendur greiða umfram skiptaverð. Samkvæmt áætlun sömu stofnunar var gert ráð fyrir að framlög í hina ýmsu sjóði sjávarútvegsins af útflutningsgjöldum næmu á árinu 1975 samtals 4 milljörðum 340 millj. kr. Við þessa upphæð bætast 1450 millj. í olíusjóð samkv. 2. gr. frv. sem hér liggur fyrir og verða því heildartekjur sjóðakerfis sjávarútvegsins af útflutningsgjöldum á þessu ári samtals 5 780 millj. kr. eða sem næst 50% af andvirði þess afla sem tekinn verður til vinnslu á þessu ári hér á landi, ef miðað er við brúttóandvirði aflans, en um 57% ef miðað er við skiptaverð. Af framangreindum 5 780 millj. kr. er áætlað að til Olíusjóðs og Tryggingasjóðs renni samtals 4 milljarðar 340 millj. kr. Mismunurinn á þessum tveimur upphæðum er framlag til hinna ýmsu hefðbundnu og föstu sjóða sjávarútvegsins, svo sem Aflatryggingasjóðs, Fiskveiðasjóðs og fleiri smærri sjóða.

Þegar þetta allt er skoðað vona ég að menn geti orðið sammála um að í framtíðinni verði sjávarútvegurinn ekki rekinn á þeim grundvelli sem hann nú býr við. Ég hef lagt á það ríka áherslu í mínum þingflokki að sjóðakerfi sjávarútvegsins verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar og það afnumið, a. m. k. að því er Tryggingasjóðinn og Olíusjóðinn varðar. Ég hlýt því að fagna yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. í þessa átt og enn fremur og ekki síður því samkomulagi sem náðst hefur milli fulltrúa útgerðarmanna og sjómanna um að skipuð verði sérstök n. til endurskoðunar á þessu máli. Það sem mér finnst þó að í sambandi við þessa nefndarskipun, er að henni er gefinn of rúmur tími til að skila áliti, en henni mun vera áætlaður starfstími fram í des. n. k. En nokkuð bætir úr að hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að hann muni leggja áherslu á að n. hafi lokið störfum um það leyti sem Alþ. kemur saman í haust. Ég tel slíkt alveg nauðsynlegt, því að ég tel að þjóðarnauðsyn sé að sjávarútvegurinn hefji rekstur sinn í byrjun næsta árs á nýjum grundvelli, þannig að fiskverð verði við það miðað að útgerðin verði þess umkomin að greiða sjálf rekstrarútgjöld sín, þ. á m. vátryggingaiðgjöld og olíu, á réttu útsöluverði eins og áður var.

Ég hef heyrt fleygt að sjómenn muni e. t. v. eitthvað uggandi um sinn hag í sambandi við væntanlega endurskoðun. Ég held að þetta hljóti að vera á misskilningi byggt. Fulltrúum sjómanna hlýtur að vera alveg ljóst hver hin raunverulega skiptaprósenta úr brúttóandvirði aflans er í dag. Þetta er í sjálfu sér mjög einfalt reikningsdæmi, og það er sannfæring mín að hlutur sjómanna geti orðið betri, en ekki verri, ef sjóðakerfið verði afnumið að því marki sem ég hef minnst á. Ég byggi þetta á því að ég tel að t. d. vátryggingakerfið hafi þróast í það að verða kostnaðarsamara fyrir útgerðina heldur en ef það væri á ný fengið í hendur útgerðarmönnum sjálfum og þeir látnir sjálfráðir um hvar þeir tryggðu skip sín. Ég er einnig sannfærður um að olíueyðsla yrði minni á fiskiskipaflotanum ef eigendur skipanna yrðu sjálfir að greiða fullt verð fyrir olíuna. Ég byggi þetta á þeirri staðreynd, sem öllum er kunn, að óhófleg niðurgreiðsla, í hvaða mynd sem er, veldur alltaf óþarfasóun fjármuna, og ég tel að það liggi í hlutarins eðli að sparnaður í rekstri fiskiskipaflotans gefi meira svigrúm til bættra kjara sjómanna heldur en ef haldið verður áfram á sömu braut og nú er. Ég tel að þetta gefi vonir um samstöðu milli sjómanna og útgerðarmanna, því að það er staðreynd sem liggur alveg augljóslega fyrir að skipulagsbreyting, sem leiðir til bættrar rekstrarafkomu útgerðarinnar er hagsmunamál sjómanna jafnt og útgerðarmanna.

Ég geri mér að sjálfsögðu alveg ljóst, eins og aðrir hv. þm., að ákvæði 2. gr. frv. er framhald á því sem áður hefur verið samþ. hér á hv. Alþ. En ástæðan fyrir því, að ég hef ekki talið mér fært að ganga beint á móti þessu ákvæði 2. gr., er að vitað var að í frv. því, sem nú hefur verið lagt hér fram, átti að vera ákvæði um 11% fiskverðshækkun utan hlutaskipta. Útgerðarmönnum hafði verið tilkynnt um þetta og ég hygg reyndar að fulltrúum sjómanna hafi einnig verið kunnugt um þetta og þetta hafði verið tekið inn í alla útreikninga í sambandi við rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Við þetta varð því að standa í einhverju formi ef útgerðin átti ekki að stöðvast. Ég taldi og tel þetta ákvæði um 11% fiskverðshækkun utan hlutaskipta ófæra leið og af tvennu illu tel ég þó skárri þá leið sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil einnig geta þess að ég hef gefið um það ákveðna yfirlýsingu í mínum þingflokki að ég mun ekki ganga gegn ákvæði 2. gr. í trausti þess að ríkisstj. muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að hlutast til um að þær viðræður, sem fram undan eru, leiði til þess að sjóðakerfið verði tekið til endurskoðunar og að hægt verði að koma því þannig fyrir að það verði afnumið um næstu áramót og að útgerðin geti þá byrjað á nýjum rekstrargrundvelli.

Ég tel að eftir þær umr., sem hér hafa orðið í kvöld, þá sé fullkomin ástæða til að ætla að um þetta muni nást samstaða. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa allir lýst því yfir að þeir séu mjög á þessari skoðun, að sjóðakerfið, eins og það hefur þróast, leiði til ófarnaðar bæði fyrir útgerðina og einnig fyrir sjómenn. Það hefur verið skýrt frá því hér af fulltrúum í sjútvn. að allir þeir aðilar, sem kallaðir voru á fund n. til viðræðna um þetta mál til að leita álits þeirra á frv., hafi verið alveg sammála um það að sjóðakerfið bæri að afnema og að þetta hafi einnig verið skoðun fulltrúa sjómanna: Ég sé því ekki annað en að þessi einróma afstaða allra aðila í sjávarútvegi og einnig sjómanna og alþm., sem hér hafa tjáð sig um þetta atriði, hljóti að leiða til þess að þetta náist fram þegar á þessu ári.

Í sambandi við þá till., sem hér er flutt af minni hl. sjútvn. á þskj. 580, þá má vel vera að það sé ekkert nema gott hana að segja, en hún er engin lausn á þessu máli. Þó að hún yrði samþ. eins og hún liggur þar fyrir verður allt sjóðakerfið, sem áður var, enn í gildi, mun halda áfram, og ég tel að það skipti ekki neinu endanlegu máli hvort það sé nokkrum hundruðum milljónum hærra eða lægra. Það, sem ég tel að skipti máli, er að samstaða náist um það að afnema þetta sjóðakerfi og byrja útgerðina þegar á næsta ári á eðlilegum rekstrargrundvelli. Ég tel að aldrei geti orðið friður í sambandi við samninga milli sjómanna og útgerðar nema þessu marki verði náð, og ég tel að fiskverð verði að ákvarðast þannig að útgerðin sjálf greiði allan sinn rekstrarkostnað án nokkurrar tilfærslu í gegnum sjóðakerfi það sem nú er í gildi, eða annað slíkt. Ég tel að það verði að koma því svo fyrir að hlutaskipti sjómanna verði reiknuð af því sama verði sem útgerðin fær í sinn hlut. Það er búið að vera í mörg ár og jafnvel áratugi þrætumál á milli útgerðar og sjómanna, þær aðgerðir sem Alþ. hefur gert í sambandi við skerðingu á þeim samningum sem gerðir hafa verið, með ýmis konar hliðarráðstöfunum í sambandi við gengisbreytingar. Ég tel að þessu verði að linna. Rekstrargrundvöllur útgerðarinnar verður að komast í það horf að það geti verið um hrein skipti að ræða milli sjómanna og útgerðarmanna annars vegar. Og satt að segja, eins og ég hef áður sagt miðað við þær umr., sem hér hafa orðið, og miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja, munu allir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, vilja koma þessu þannig fyrir. Hlýtur það að gefa manni góðar vonir um að þessu marki verði náð þegar á þessu ári.