07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég á sæti í sjútvn. og hef því fjallað í n. um frv. til l. um ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins skv. l. nr. 2 frá 1975 og ráðstafanir vegna hækkunar brennsluolíuverðs til fiskiskipa sem hér er til umr. Ég er fylgjandi afgreiðslu málsins eins og meiri hl. sjútvn. leggur til í nál. á þskj. 576 og brtt. n. í heild á þskj. 577. Ég skrifaði undir álit meiri hl. sjútvn. með fyrirvara. Þessi fyrirvari minn varðaði 3. lið í ákvæðum til bráðabirgða sem fjallar um það að reikna skuli 20% frádrátt vegna gengismunar af afurðum framleiddum úr loðnu sem landað hafi verið fyrir 16. febr. 1975. Þegar löggjöfin um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands vegna breytingar á gengi íslenskrar kr. var samþ. á Alþ. í febr. s. l. var ákveðið í 2. gr. þeirra laga að þá er skilað væri til banka gjaldeyri fyrir útfluttar sjávarafurðir skyldi hann greiddur útflytjanda á því kaupgengi sem í gildi var þegar skjölin voru afgr. í banka við gjaldeyrisskil, að frádregnum gengismun sem nam fyrir afurðir framleiddar fyrir 1. sept. 1974 34% og fyrir afurðir framleiddar á tímabilinu 1. sept. 1974 til 15. febr. 1975 20%. Í ákvæðum þeim til bráðabirgða, sem ég gat um hér áður, er ákveðið að 20% frádrátturinn vegna gengismunarins taki til afurða framleiddra úr loðnu sem landað hafði verið 16. febr. 1975 eða fyrir þann tíma.

Hér var ákveðið að lögfesta það að líta á loðnu, sem landað hefur verið, sem framleiddar afurðir. Það er að mínum dómi ekki rökrétt að loðna, sem landað hefur verið í þrær, sé skoðuð sem framleiddar afurðir. Þess vegna álít ég að þetta ákvæði, eins og það kom fram í frv., þurfi nánari útskýringar við til að vera í samræmi við löggjöfina um ráðstafanir vegna breytingar á gengi krónunnar frá í vetur. Nú hefur hv., þm. Pétur Sigurðsson, frsm. meiri hl. sjútvn., lagt fram brtt. ásamt hv. þm. Jóni Skaftasyni sem varðar sérstaklega þetta mál og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða bætist: „Sjútvrn. skal setja reglur um framkvæmd þessa liðar þar sem m. a. verði kveðið á um hvernig meta skuli það afurðamagn sem framleitt hefur verið úr hráefnisbirgðum loðnuverksmiðja eins og þær voru um, miðnætti 15. febr. 1975.“

Hér er í raun og veru verið að lögfesta að þetta hráefnismagn, sem þarna var til staðar þegar gengisbreytingin tók gildi, var til staðar í þróm fjölmargra verksmiðja, skuli fá sérstaka meðferð og vera reiknað og gert sérstaklega upp. Þetta magn var verulegt, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. sjútvn., eða um 80 þús. tonn, og dreifðist á hinar ýmsu síldarverksmiðjur, allt frá Siglufirði austur um og suður í Faxaflóa. Það hefur komið í ljós við lauslega athugun að hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði hafi þetta numið 20800 tonnum, hjá Síldarverksmiðju Vopnafjarðar 7 þús. tonnum, hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf. 7 þús. tonnum, hjá Norglobal 3 þús. tonnum, hjá Fiskimjölsverksmiðjunni hf., Fáskrúðsfirði 3 500 tonnum, hjá Söxu hf., Stöðvarfirði, 2400 tonnum, hjá Braga hf., Breiðdalsvík, 1700 tonnum, hjá Síldarbræðslunni, Djúpavogi, 3 500 tonnum, hjá Fiskimjölsverksmiðjunni hf., Hornafirði, 5 000 þús. tonnum, hjá Fiskimjölsverksmiðju Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum 4 þús. tonnum, hjá Fiskimjölsverksmiðjunni hf. í Vestmannaeyjum 14 þús. tonnum, hjá Meitlinum í Þorlákshöfn 3 400 tonnum, hjá Fiskimjöl og lýsi hf. í Grindavík 2200 tonnum og hjá öðrum verksmiðjum samtals 2504 tonnum. Samtals gerir þetta 80 þús. tonn. Þetta er að vísu lausleg athugun og kann að breytast þegar nánar verður um þetta fjallað.

Frsm. meirihlutaálits sjútvn., hv. þm. Pétur Sigurðsson, gerði, eins og ég sagði áðan, grein fyrir brtt. og með hliðsjón af þessari viðbótartill., sem ég raunar veit að er flutt í samráði við hæstv. sjútvrh., og þeim ásetningi hæstv. sjútvrh. að gera þetta dæmi upp á þann veg að síldarkaupendur, sem áttu loðnumagn í þróm sínum þegar gengisbreytingin mar gerð, uni sæmilega við, þá fell ég frá fyrirvara mínum í nál. meiri hl. sjútvn.