07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú búið að segja æðimikið um það mál sem hér er til umr., en engan skal þó undra þótt menn fari eitthvað út fyrir hið afmarkaða málefni sem hér er verið að ræða. Ég skal þó reyna að vera mjög stuttorður. Ég hef raunar ekki miklu við það að bæta sem ég hef áður sagt, og vel má vera og kannske líklegast að færu menn að ræða þetta í löngu máli, þá yrði allmikið um endurtekningar á því sem þegar er komið fram. Allar þær aðgerðir, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið að í sambandi við lausn þess vanda í efnahagsmálum sem stjórnarliðar telja að fyrir hendi sé, hafa miðað að því fyrst og fremst að rýra kjör launafólks í landinu svo að vart munu finnanleg dæmi um kjaraskerðingu, þó að lengi sé leitað, á borð við það sem átt hefur sér stað í tíð núv. hæstv. ríkisstj. þó að hún hafi ekki setið ýkjalengi að völdum.

Það hefur komið fram, kom bæði fram við 1. umr. þessa máls og ég held líka við þessa 2. umr., að það frv., sem hér er nú verið að ræða, virðist, að því er bestu heimildir herma, vera allfrábrugðið því sem hæstv. sjútvrh. og þá ríkisstj. í heild hugðist leggja fyrir Alþ. varðandi gengishagnaðarmálin. Hefur að vonum tekið langan tíma að breyta þessu frv. í það horf sem það nú er. Það mun vera a. m. k. einn og hálfur mánuður sem þetta hefur verið til meðferðar og nú er það að komast á lokastig og svo hart keyrt að allar líkur benda til, ef fram heldur sem horfir, að stefnt verði hér að helgispjöllum á hv. Alþ. og veit ég ekki hvað hæstv. dóms- og kirkjumrh. segir við slíku.

Í þeim umr., sem orðið hafa um þetta mál svo og aðrar þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið af hálfu stjórnvalda varðandi lausn efnahagsmála, hefur því mikið verið hampað af stjórnarliðum að þessar ráðstafanir hafi fyrst og fremst miðað að því að tryggja atvinnu, koma í veg fyrir atvinnuleysi. Nú standa mál eigi að síður svo að þúsundir manna og kvenna eru atvinnulausar vegna verkfalla sem standa yfir á einum stórvirkustu atvinnutækjum þjóðarinnar og ekkert er a. m. k. sjáanlegt enn sem bendir til þess að lausn á þeirri deilu sé neitt í nánd. Og a. m. k. að þessu leytinu til er ekki að sjá að hæstv. ríkisstj. hafi tekist að halda þannig á málum að því er þetta varðar að komist hafi verið hjá atvinnuleysi hjá stórum hópi verkafólks sem nú er búið að standa í rösklega mánuð.

Ég er ekkert hissa á því þó að hv. 8. þm. Reykv., form. og frsm. meiri hl. sjútvn. þessarar d., hafi byrjað á því í sinni framsöguræðu hér í dag að lýsa því yfir að allir nm. í sjútvn. vildu gjarnan vera lausir við að rétta upp hönd með þessu frv. Ég hygg að þessi hv. þm. hafi mælt þarna af heilindum því að þetta frv., þó að það hafi vissulega verið töluvert betrumbætt frá því sem upphaflega var ætlað, er eigi að síður stórfelld kjaraskerðing hjá sjómannastéttinni. Og það var vikið að því við 1. umr. þessa máls af ýmsum ræðumönnum að þeim þótti litlu skilað til baka til sjómannasamtakanna miðað við það sem af þeim hefur verið tekið með þeirri gengisfellingu sem framkvæmd var og þetta frv. fylgir í kjölfarið á.

Hæstv. sjútvrh. sagði við 1. umr. þessa máls að það væri ábyggilegt að það hefði verið alveg sama hvað hann hefði lagt til að runnið hefði af gengishagnaði til sjómannasamtakanna, að a. m. k. ég hefði þá bara heimtað meira. Og hann tilnefndi þar 150 millj. kr. Ég bjóst hálfpartinn við því með hliðsjón af fyrri reynslu minni af hæstv. sjútvrh. að hann gengi a. m. k. eitthvað til móts við þetta sjónarmið með því að hækka eitthvað þann hluta, sem sjómannasamtökunum er ætlaður, af því sem af þeim hefur verið tekið.

Því miður verð ég fyrir vonbrigðum að því er þetta áhrærir. Ekkert virðist uppi um það, hvorki hjá hæstv. sjútvrh. né öðrum stjórnarliðum, að ganga til móts við þetta sjónarmið sjómannasamtakanna. ég hefði a. m. k. betur getað fellt mig við afgreiðslu þessa máls ef hæstv. ráðh. hefði gengið það til móts við þetta sjónarmið að hann hefði tekið upp 150 millj. kr. hugmyndina sína sjálfur við 1. umr. og látið það af hendi rakna til sjómannasamtakanna í staðinn fyrir þær 87 millj. sem mér sýnist vera gert ráð fyrir í frv.

Það hefur komið fram í þessum umr. að allir þeir hópar, sem þetta mál snertir og ræddu við sjútvn. d., telja að hér sé verið að stíga skref í þá átt sem sé neikvæð til lausnar þeim vanda sem við er að glíma. Allir þessir hópar eða fulltrúar þeirra virðast vera um það sammála að hér sé ekki rétt á málum haldið, og það hlýtur að vekja furðu manna þegar slíkar yfirlýsingar koma frá öllum þeim hagsmunahópum sem. þetta mál kemur við.

Við 1. umr. þessa máls hér í d. var nokkuð vikið að því að í þessu frv. eins og hinu fyrra, sem fjallað var um nokkru fyrir áramót, er heimild til handa hæstv. sjútvrh. eða sjútvrn. til þess að verja 400 millj. til greiðslna að eigin geðþátta til styrktar hinum ýmsu fiskvinnslugreinum. Við umr. þessa hina fyrstu þá kom hæstv. sjútvrh. inn á þetta í sinni seinni ræðu og fullyrti að engu af þessu fé yrði varið án þess að það færi í gegnum bankakerfið í landinu og þannig væri tryggt að hvorki hann né hans eftirmaður, ef til kæmi, hefði þetta fé til eigin ráðstöfunar. Mér þykir það því furðulegt, ef hæstv. sjútvrh. getur ekki fellt sig við þá breyt. sem lögð er til á þskj. 580 og er frá minni hl. sjútvn., þeim hv. þm. Garðari Sigurðssyni og Sighvati Björgvinssyni, sem kveður nokkuð skýrar á um það á hvern hátt skuli með þessa fjármuni farið og eftir hvaða reglum þeim skuli útdeilt. Ef það er svo sem ég reyndar held að þurfi ekki að draga í efa að hæstv. sjútvrh. sé þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að hafa þann gang að fara í gegnum bankakerfið en ekki til ráðstöfunar ráðh. sjálfs, þá sýnist mér að það liggi í hlutarins eðli og augljóst hljóti að vera að sú brtt., sem er á þskj. 580 og lýtur að þessu, falli nokkuð í sama jarðveg og hæstv. sjútvrh. gerði sjálfur grein fyrir við 1. umr. að honum fyndist málið eigi að ganga.

Hæstv. sjútvrh. sagði líka við 1. umr. þessa máls að hann héldi að engum hv. þm. dytti í hug, að breyta hlutaskiptum sjómanna með lögum. Ég er þeirrar skoðunar að þessu hafi hæstv. sjútvrh. sjálfur beitt sér fyrir með hinni fyrri gengisfellingu sem framkvæmd var á s. l. hausti á þann veg að aukin var greiðsla í stofnfjársjóð fiskiskipa sem tekin var af óskiptum afla og þýddi í reynd minnkandi hlut sjómanna. Þar er ótvírætt um breytingu á skiptum að ræða, hvaða orðaleik sem menn vilja um það hafa að öðru leyti, og það er vissulega ekki í fyrsta skiptið sem að slíkum ráðstöfunum er staðið af hálfu löggjafans. Það hefur komið fyrir áður. En hér er þó eigi að síður áþreifanlegt dæmi sem gerðist fyrir stuttu og var gert að frumkvæði hæstv. sjútvrh. og ríkisstj.

Það hefur komið fram eins og áður hefur verið að vikið, að hinir ýmsu hópar innan þjóðfélagsins, sem mál þetta tekur til, vara mjög eindregið við því að fara inn á þær brautir í auknum mæli að flytja til stórkostlega fjármuni í þessu tilfelli innan sjávarútvegsins. A. m. k. ætti þetta ekki að koma hv. stjórnarliðum neitt á óvart vegna þess að í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. er einmitt gefið um það fyrirheit að draga saman seglin í sjóðakerfi sjávarútvegsins, helst að afnema. það. En hér er stígið skref þveröfugt við þessi gefnu fyrirheit og ég efast um að hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni verði að þeirri ósk sinni að það verði að draga úr þessu á þessu ári ef fram heldur sem horfir undir forustu núv. hæstv. ríkisstj. Ég held að mál hafi þróast og séu að þróast á þann veg að hér verði stórlega aukið það sjóðakerfi sem átti að draga saman. Það er alveg ljóst að sjómannasamtökin bera mjög skarðan hlut frá borði í þeirri skiptingu sem hér er gert ráð fyrir. Þar eru önnur sjónarmið fremur höfð í huga og rennt stoðum undir aðra hópa þjóðfélagsins en sjómenn og sjómannasamtökin.

Það hefur verið mikið um það rætt á undanförnum vikum og mánuðum að fiskvinnslustöðvar í landinu stæðu það höllum fæti að þörf væri stórkostlegra ráðstafana til þess að bæta fjárhagsaðstöðu þessara fyrirtækja. Vel má vera og sjálfsagt hægt að finna stað slíkum fullyrðingum í einhverjum tilvikum. Eigi að síður sýnist það nú vera að koma á daginn að fyrirtæki í fiskiðnaði, fiskvinnslustöðvar, hafi og séu þessa dagana að greiða stórum hærra fiskverð en það sem Verðlagsráð hefur ákveðið. Það hlýtur því að koma upp í huga manna spurning um það hvort mikið mark sé á því takandi hjá þessum fyrirtækjum eða forsvarsmönnum þeirra að svo mikið hallærisástand ríki í búskap þeirra að þurfi að flytja til svo að hundruðum millj. skiptir fjármagn frá sjómönnum yfir til þessara atvinnufyrirtækja. Ég a. m. k. dreg mjög í efa að það sé öllu lengur hægt að fá almenning í landinu og kannske þá allra síst sjómenn til þess að trúa því að það sé endalaust þörf á því að gera ráðstafanir í efnahagsmálum með þeim hætti að taka hundruð millj. kr. af sjómönnum og flytja þær yfir til atvinnufyrirtækjanna, ef það er svo reynslan að þessi hin sömu atvinnufyrirtæki geta borgað miklum mun meira en það lágmarksverð, sem ákveðið er af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Mér kemur einnig nokkuð spánskt fyrir sjónir ef það er rétt sem hv. 8. þm. Reykv. lét orð um falla í sinni framsöguræðu hér í dag, að Verðlagsráð sjávarútvegsins fái enga vitneskju um það hvaða markaðsverð sé á útflutningsafurðum þegar verið sé að ákvarða fiskverð til útgerðarmanna og sjómanna. Það má vel vera að það þyki skrýtið, en einhvern veginn get ég ómögulega sætt mig við það að fulltrúar í Verðlagsráði eigi ekki fullan aðgang og heimtingu á því að hafa um það vitneskju hvert markaðsverð er á hverjum tíma þegar sest er á rökstóla og fiskverð ákvarðað. Ég lýsi furðu minni á því ef þetta er rétt sem ég hef enga ástæðu til þess að draga í efa að er rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. Hann er, að ég hygg, þessum málum kunnur í gegnum sjómannasamtökin og ég hef ekki ástæðu til þess að draga í efa ummæli hans þar um, en ég lýsi furðu minni á því ef þetta getur viðgengist.

Ég held að það sé alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. 3. þm. Reykn., að sjómannasamtökin og fulltrúar þeirra una varla lengur ráðstöfunum af þessu tagi þar sem er svo freklega gengið á rétt sjómanna. Og ég er ekkert hissa á því þó að það viðhorf sé nú ríkjandi innan sjómannastéttarinnar að það verði vart lengur við unað og menn verði að spyrna við fæti svo að ekki verði lengra gengið á þessari braut að hafa af sjómönnum og flytja yfir til útgerðar og fiskvinnslu. Ég held því miður að engin breyting í þessa átt fáist að þessu sinni. Það virðist vera ákveðið af hálfu stjórnarliða að þetta mál skuli fara í gegn hér eins og það nú liggur fyrir. En þá bera þeir og þeir einir ábyrgð á því hvaða afleiðingar af því hljótast. Ég er ekki í neinum vafa um það að það er búið að ganga svo langt í því að taka af sjómönnum og færa yfir til atvinnufyrirtækja að sjómenn una því vart öllu lengur að áfram sé haldið á þeirri braut.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þetta að þessu sinni nema þá því aðeins að tilefni gefist til. En ég vil þó taka það fram að við munum standa að till. þeim sem minni hl. sjútvn. hefur flutt á þskj. 580. Þær eru allar í þá átt að koma frekar til móts við þau sjónarmið sem ég gerði að umræðuefni við 1. umr. þessa máls þó að mér sýnist að engar líkur séu á því nú að þær till. nái fram að ganga, því miður. En ég held — það skulu vera mín lokaorð — ég held að það sé nauðsynlegt ef það er meining stjórnvalda að fá ekki bara sjómenn, heldur almenning í landinu til þess að trúa því að það sé nauðsyn á aðgerðum af þessu tagi til þess að rétta hag atvinnufyrirtækjanna, þá sé nauðsynlegt jafnframt þessu að leiða fólk í allan sannleikann um það hvernig hag þessara fyrirtækja er í reynd komið. Það hefur ekki enn fengist. Það hefur verið flutt hér á Alþ. till. til þál. um að Alþ. sjálft fari í það mál á hlutlausan hátt og rannsaki hvort það sé svo illa komið fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja að þær aðgerðir, sem að undanförnu hafa átt sér stað, séu réttlætanlegar vegna fjárhagsafkomu. Ég held að þær upplýsingar, sem komið hafa nú síðustu dagana, hljóti að renna stoðum undir það sjónarmið almennings í landinu, að það séu—því miður á kannske að segja — ekki með öllu réttlætanlegar þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið, vegna þess að þær hafa verið byggðar á þeirri forsendu af hálfu stjóravalda að allt væri í kaldakoli hjá þessum atvinnurekstri. Það er því nauðsynlegt að fyrr en seinna verði þetta mál gert upp á þann hátt og þann eina hátt, að Alþ. sjálft gripi hér inn í og kanni að eigin frumkvæði stöðu þessara atvinnufyrirtækja.