07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Svo komum við að 2. gr. Um hana má deila, eins og ég hef áður sagt, það óendanlega. Hvað hefur verið gert á undanförnum árum? Hafa ekki allar ríkisstj. ætlað að minnka sjóðakerfi sjávarútvegsins? Ætlaði ekki vinstri stjórnin að gjörbreyta tryggingakerfinu undir forustu fyrrv. sjútvrh.? Hvorugur talsmanna Alþb. tíundaði afköst fyrirrennara míns á því sviði, enda var það illmögulegt því að það gerðist auðvitað ekki neitt annað en að það fjölgaði krónunum sem fóru í tryggingakerfið öll árin sem hann fór með sjávarútvegsmál og þeir ágætu menn studdu hann. Það er nefnilega ekkert rétt að komast út úr þessu kerfi aftur, það er sannleikur málsins. Hitt er svo matsatriði hvernig farið er að. Sumir vildu, og þá sérstaklega Landsamband ísl. útvegsmanna, fá hækkun á fiskverði sem hefði þýtt miklu hærri skatta á sjómannastéttina en að taka það með hækkuðu útflutningsgjaldi á síðasta stigi framleiðslunnar. Enginn minntist á það, sem ég gat um í sambandi við þessar 900–1000 millj. að það er áformað að koma til móts við frystiiðnaðinn með því að hækka viðmiðunarverð Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins um hvorki meira né minna en 400 millj. Allir tala um að það sé verið að ráðast á sjómenn, og svo koma stjórnarandstæðingar himinlifandi glaðir og segja:

Það var nú gaman þarna á fundunum í sjútvn., allir, sem komu, voru óánægðir með frv. — og það er dæmi þess hvað frv. sé gersamlega ómögulegt. Ef fulltrúi útgerðarinnar hefði sagt: Ég er mjög ánægður með þetta frv., ætli fulltrúar sjómanna hefðu þá ekki verið enn óánægðir? Og ef fulltrúar hraðfrystiiðnaðarins hefðu sagt: Við erum mjög ánægðir með þetta frv. — Ætli þessir hv. stjórnarandstæðingar hefðu ekki sagt þá: Jú, sjáið þið nú sjútvrh, og íhaldið og framsókn, nú er verið að hygla frystihúsaauðvaldinu, því einu á kostnað allra hinna. — Er ekki örugg vissa fyrir því, fyrst allir eru að mótmæla og allir eru óánægðir með þetta frv., að hér er verið að skipta eins réttlátlega niður og hægt er. Það er sannleikur málsins.

Ég vil benda 8. landsk. þm. á það að Alþfl. fór með sjávarútvegsmál í 12 ár í viðreisnarstjórninni. Það kom aldrei fram till. þá um að leggja fram framlag af gengishagnaði til þess að bæta útvegsmönnum sem missa skip sín og fá engar bætur þegar gömul skip eru tekin úr umferð. Hv., 8. landsk. þm. fannst þetta mjög lág upphæð, en mjór er mikils vísir. Ég held að það sé rétt að fara af stað og hefði gjarnan mátt gera fyrr. Alþfl. stóð að sjóðakerfi öll þessi ár. Hann stóð að því að bæta ofan á fiskverðið til útgerðar framhjá skiptum, hann gerði það ekki af fjandskap Alþfl. við sjómennina. Það vita allir og það þýðir ekki að halda að fólk sé svo vitlaust að það sé hægt að segja því að þegar gengisbreytingar séu gerðar, þá eigi ein stétt að fá í kauphækkun allan gengismuninn þannig að bilið á milli þeirrar stéttar og annarra verði með þeim hætti að aðrar stéttir fari af stað. Áhrif gengisbreytingarinnar verða gerðar að engu á nokkrum vikum. Þetta vita allir menn og það þýðir ekki að tala svona. Fólk er ekki svona vitlaust.

Hv. 8, landsk. þm. furðaði sig á að það væri mishátt útflutningsgjald á útfluttar afurðir. Það hefur alltaf verið. Ef hann lítur á lögin um útflutningsgjald mun hann sjá að það hefur verið misjafnt eftir afurðum frá því að útflutningsgjald var sett á. Ódýrustu afurðirnar voru með svokallað magngjald. Dýrari afurðirnar voru aftur með hlutfallslegt gjald að verðmæti. Þetta hefur alltaf verið svona. Og þetta verður svo. Jafnvel þó að 8. landsk. ætti eftir að verða sjútvrh. eða forsrh., þá mundi hann aldrei fara að setja jafnt útflutningsgjald á allar sjávarafurðir. Mér dettur ekki í hug að halda að hann sé svo grænn.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn. að það voru ólíkar forsendur fyrir andstöðunni við frv. Aðrir menn úr stjórnarandstöðunni forðuðust eiginlega að minnast á það. Það er alveg rétt, forsendurnar voru mjög ólíkar fyrir landsbyggðina vegna þess að hagsmunahóparnir vilja fá hver fyrir sig þannig að hann sé ánægður á kostnað annarra. Þess vegna verður ríkisstj. og Alþ. að skipta þessu fjármagni á milli og reyna að jafna þessi bil, Þetta er auðvitað kjarni málsins.

Hv. 3. þm. Reykn. flutti mjög málefnalega ræðu eins og hans var von og vísa. Að vísu hélt hann ákaflega smekklega og fallega útfararræðu yfir vinstri stjórninni og fór það vel úr hendi, eins og við var að búast. Að vísu er hún fullseint flutt, en hún var góð samt. En að öðru leyti ræddi hann málefnalega um sjávarútveginn og lagði fyrir mig nokkrar spurningar sem allar eru eðlilegar og sjálfsagðar og kurteislega fram settar.

Hann spurði hvort það væri ekki mín skoðun, svo framarlega sem ýmsir fiskkaupendur greiði hærra verð, að sjómenn eigi ekki rétt á hluta af þessu yfirverði. Ég skal svara þessari spurningu alveg umbúðalaust. Ég tel að sjómenn eigi fullan rétt á því yfirverði ef það er til skipta, og fer hvergi í launkofa með það.

Hann spurði einnig um gæðaflokka og stærðarflokka ferskfiskeftirlitsins. Þegar ég frétti af því að það væri farið fram hjá ferskfiskeftirlitinu, þá gaf sjútvrn. mjög ákveðin fyrirmæli til Fiskmats ríkisins um að krefjast þessa að fiskur verði gæðaflokkaður og stærðarflokkaður. Það hefur verið unnið að því með þó nokkrum árangri, en þó ekki eins góðum og miklum og ég hefði kosið. Ég tel gæðaflokkun vera svo mikilvæga að það er hneyksli að kaupa netafisk án þess að gæðaflokka, það er hneyksli að kaupa fisk, sem er kannske tveggja, þriggja eða jafnvel fjögurra nátta, í hæsta gæðaflokki. Það er alls ekki hægt að sætta sig við það. Hitt er kannske oft erfiðara, og við skulum vera sanngjarnir í því, með stærðarflokkana.

Þá spurði hv. þm. hvort greiddar væru fjárhæðir undir borðið og hvort það væri ekki mitt álit að þær gætu skapað tortryggni gagnvart sjómönnum. Vitaskuld hlýtur það að skapa tortryggni gagnvart sjómönnum, og það er alveg rétt, sem kom fram hjá honum og raunar einnig hjá hv. 8, þm. Reykv., að Verðlagsráð sjávarútvegsins er í stórhættu ef þannig er að unnið. Hitt er ekki rétt, sem kom fram hjá 2. þm., að Verðlagsráð sjávarútvegsins fái allar upplýsingar um markaðshorfur á hverjum tíma. Þjóðhagsstofnunin veitir þær upplýsingar sem er skylda og ber lögum samkvæmt. En ef það verður þannig að sjávarútvegurinn sjálfur ætlar að vega að því kerfi sem við höfum nú í sambandi við verðlagningu fisks, þá held ég að þeir menn fari út á mjög hættulega braut. Við munum eftir því margir, sem komum nálægt útgerð áður en Verðlagsráðið varð til, hvernig gekk að semja. Fyrst var að semja við sjómenn, síðan við fiskkaupendur og það var stundum ekki búið að semja þegar vertíðinni var lokið. Það var eilíft stríð um fisksölusamning. Ég held að þetta kerfi í Verðlagsráði hafi verið mjög gott kerfi sem allir stóðu að á sínum tíma, og ég hef mikinn áhuga á því að reyna að komast til botns í því, hvernig þessi mál eru, og reyna að uppræta það að verið sé að fara kringum aðila í sjávarútvegi á þennan hátt. Ákvörðun Verðlagsráðs er lágmarksverð. Það má greiða hærra verð, en þá verður það bara að koma til skipta og þá á ekkert að vera að pukra með það. Ríkisstj. hefur ekki tekið neina ákvörðun enn í sambandi við hvernig á að upplýsa þetta mál, það tekur sennilega langan tíma.

Það er ekki oft sem ég les upp úr Þjóðviljanum þó að ég lesi hann daglega, en ég get ekki stillt mig um að lesa upp úr Þjóðviljanum í dag örfá orð. Þar er samtal við þrjá menn á sviði útgerðar og fiskimaðurinn, sem samtalið er við, er þingbróðir okkar, Jón Árm. Héðinsson, og Þjóðviljinn spyr hann um yfirgreiðslur á fiski og fríðindin. Jón kvaðst ekki hafa heyrt um aðrar yfirgreiðslur en að fiskverkendur borgi ís fyrir útgerðina og uppsetningu á netum, en sagðist þó hafa heyrt að einhverjir Reykjavíkurbátar fengju enn meiri yfirgreiðslur en þessar, en engar sönnur kvaðst hann hafa á því. Ekki kvaðst Jón, sem er fiskverkandi, þurfa að sæta slíkum kjörum, en sagði síðan: „Það ætlaði einn togaramaður að selja mér fisk og það var stórkostlegt yfirverð sem hann vildi fá. Ég sagðist ekki vera til umr. um það, hann yrði bara að vera hjá þessum úrvalsfrystihúsum sem borguðu engum neitt og rækju sig á kostnað annarra.“ Þetta segir nú einn útgerðarmaður og þm., Alþfl.-maður.

Það er talað við annan mann sem heitir Jón Axel Pétursson og er form. stjórnar útgerðarinnar sem gerði BÚR það tilboð um kaup á fiski, að hann yrði keyptur á 30 kr. að meðalverði, 3 kr. yrðu greiddar til útgerðarinnar undir borðið af hverju kg og fram hjá skiptum og afskurður og felling á netum yrði greidd frá BÚR. Hann neitaði í gær í viðtali við Þjóðviljann að kannast við þetta tilboð og sagði, að þetta væri tóm lygi eins og Þjóðviljinn hefur eftir honum.

Og svo er talað hér við einn enn og það er Tómas Þorvaldsson, form. SÍF. Hann neitaði því fastlega í viðtali við Þjóðviljann fyrir helgi að greiða nokkuð fyrir fiskinn undir borðið.

8. landsk, þm., ritstjóri Alþýðublaðsins, segir að það sé um stórkostlegar yfirborganir að ræða, en hér er um þrjá alveg úrvalskrata að ræða sem Þjóðviljinn ræðir við, og þeir vita ekki nokkurn skapaðan hlut um yfirborganir. Það verður erfitt að rata í þessum frumskógi, en ég hef mikinn hug á því að leggja þó út í þennan frumskóg til þess að reyna að finna og leita að því sem sannast er og réttast í þessu máli. (Gripið fram í.) Ja, Þjóðviljinn hefur aðeins leitað til Alþfl.-manna sé ég eftir þessu, en sjálfsagt verður talað við fleiri.