07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð sem ég vildi beina til hæstv. ráðh. og ég sakna hans hér í salnum. Er ekki hægt að fá hann til að koma og hlýða á orð manna um þetta frv. sjávarútvegsins ? — Þá birtist hans hágöfgi. Það var aðeins vegna orða hæstv, sjútvrh. sem beint var til mín og okkar í minni hl. sjútvn. Það er rétt sem hann segir um fyrstu brtt. okkar að hún kann að vera þannig orðuð að misskilja megi. Hann segir í sinni ræðu áðan, hæstv. ráðh., að Fiskveiðasjóður megi ekki lána nema á 1. veðrétti. Við segjum í okkar brtt.: „Fiskveiðasjóði er heimilt að ráðstafa, að fengnum till. viðskiptabanka sjávarútvegsins, 330 millj. kr. þessarar fjárveitingar, fjárhæð til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára“ o. s. frv. Það, sem við áttum við með þessu var að Fiskveiðasjóður fengi þessa peninga, síðan léti hann viðskiptabankana hafa af þessum peningum eftir þeirra till. til þess að viðskiptabankarnir lánuðu síðan út. Viðskiptabankarnir lánuðu sem sagt peningana, sem þeir fengu í Fiskveiðasjóði, og sæju um að innheimta þá. (Gripið fram í: Það var þetta sem við áttum við.) Þetta áttirðu við, Sverrir, það er gott að menn vakna öðru hvoru til þess að heyra það sem sagt er hér. Þetta áttum við við og þetta er skýring mín á þessu atriði.

Síðan leyfði hæstv. ráðh. sér að tala í háðstón um þá till. okkar að við vildum leggja 70 millj. til að bæta hreinlætisaðstöðu og annan aðbúnað verkafólks í fiskiðnaði. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það fólk hér í Reykjavík og úti á landsbyggðinni, sem vinnur við fiskiðnað, hlýtur að eiga stóran þátt í þeim gengishagnaði sem skapast af vinnu þess. Við höfum því miður verið alltof hógværir við þessa menn til þess að krefja þá um hlut þessa fólks, en vildum þó sýna lít og leyfa að lána 70 millj. til þessara þarfa. Það er svo sannarlega ekki vanþörf á því að bæta aðbúnað verkafólks á mörgum vinnustöðum í landinu. Jafnvel þótt annað lánaprógramm sé til í þessu sambandi og í þessum tilgangi þá get ég ekki séð neitt athugavert við þessar 70 millj., sem eru eyrnamarkaðar til þessara þarfa, að bæta aðstöðu fólksins sem býr við afar misjöfn skilyrði í misjöfnum frystihúsum úti um landsbyggðina, komi þar í viðbót. Það vakti sannarlega furðu mína að heyra hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála gera gys að þessari tilraun okkar.

Hæstv. ráðh. sagði líka að eftirstöðvarnar yrðu engar, Við kunnum nú að leggja saman og draga frá þótt slæmir séum í minni hl. sjútvn. og þegar dálkurinn er reiknaður niður þá komumst við að raun um að 17 millj. yrðu afgangs. Ef hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, fær einhverja aðra útkomu, þá langar míg til þess að sjá þá útreikninga. Að vísu höfðum við þá þegar komið með brtt, við lið i, að hækka til orlofshúsa sjómannasamtakanna úr 12 í 20, og þar skilst mér að mismunurinn sé 8, — er ekki rétt reiknað, hæstv. ráðh.? Og þess vegna mun talan 17 millj. einnig lækka um 8 samkv. því. Þá sýnist mér að eftirstöðvarnar séu 9 millj. En röksemdir hæstv. ráðh, voru þær að með þeirri brtt., sem kom fram um loðnubirgðir á Austfjörðum, væri þessi mismunur uppétinn. Ekki skal ég deila við hæstv. ráðh. um það og mér þykir mjög trúlegt að það sé alveg rétt. En hæstv. ráðh. skal athuga það, að þegar við sömdum þessa till, og skiluðum henni til prentunar, þá var sú till. enn í vasanum á hv. þm. Pétri Sigurðssyni, frsm. meiri hl. n., og var borin hér fram skriflega og þurfti tvöföld afbrigði. (Gripið fram í: Það mátti nú ekki minna vera,) Nei. Þess vegna þykir mér það skjóta nokkuð skökku við og verið að reyna að leita að einhverjum snögum til þess að gera okkur tortryggilega vegna hluta sem við vissum ekkert um og höfðum aldrei séð og voru ekki bornir fram fyrr en eftir að okkar till. vora lagðar hér fram á borðin prentaðar. Slíkur málflutningur sæmir ekki hæstv. ráðh. í ríkisstj. Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, talar um það nú, eins og hann hefur reyndar gert stundum áður, að það væri þörf á því að minnka sjóðakerfi sjávarútvegsins. Þetta virðist hafa verið hálfgerður vökudraumur ýmissa ráðh. á undan honum. Og nú þurfti að senda mínum ágæta þingflokksbróður, hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, sem nú sem stendur er úti í Sviss að leysa alþjóðamál, tóninn og fannst mér það ekki eiga við þar sem maðurinn er ekki viðstaddur og enginn garpur á borð við hann hér í þingsölum til að svara hæstv. ráðh. En ef hæstv. ráðh, Matthías Bjarnason, hefur verið og er jafnvel enn innst inni á móti aukningu sjóðakerfisins, hví skyldi hann vera svo gráðugur í það nú að auka kerfið og ekki um neina smámuni, þar er um upphæðir að ræða sem eru talsvert á annað þúsund millj. Ég er alveg viss um að hæstv. ráðh. þætti ekki dónalegt að geta útbýtt þeirri upphæð. Þarna er sem sagt um það að ræða að auka útflutningsgjald af sjávarafurðum, um 4% af frystum fiski, um 6% af saltfiski og um 2% af loðnu, sem þó kemur ekki til framkvæmda samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða fyrr en á loðnu sem veidd er eftir sept. í haust. Þarna er verið að fara leið til þess að fá peninga í Olíusjóð. Þessi leið var líka farin í haust og það var reynt í Olíusjóði með söluskattsprósentu, í fyrra. Við vitum allir að það er nauðsynlegt að afla fjár til Olíusjóðs. En hversu langt á að ganga, hversu mikinn hluta fisksins má taka áður en hann kemur til skipta? Eigum við að sætta okkur við það að eiga þá ekki nema kannske stirtluna eftir handa þeim sem ná í aflann? Við erum nú þegar með samþykkt þessa frv. komnir talsvert yfir helming af hverjum fiski sem skorinn er af áður en sjómenn geta fengið sinn réttláta hlut af því.

Við í minni hl. sjútvn. höfum leyft okkur að koma hér með till. til þess að leysa þetta vandamál útgerðarinnar um hækkun á olíu með öðrum hætti en hæstv. ráðh. hefur stungið upp á. Við leyfum okkur að koma með till. um hækkun á fiskverði. Það gerði LÍÚ einnig, en þó með þeim hætti öðrum að þau 11%, sem þeir vildu fá í fiskverðshækkun, áttu ekki að koma til skipta. Það getum við ekki fellt okkur við. Við viljum aðeins að fiskverð verði hækkað og það skiptaverð komi til skipta handa sjómönnum. (Gripið fram í.) Vaknaður aftur, Sverrir! Það á við minni hl. n. Og við Alþb.-menn náttúrlega líka allir. (Gripið fram í.) Já, okkur telst svo til þegar við höfum reiknað þessa tölu þá muni koma 13% fiskverðshækkun sem kæmi þá til framkvæmda frá 15. febr. s. l. Hún ætti að nægja til þess að útgerðin fengi um 800 millj. af því í sinn hlut. Við leggjum einnig til að ríkissjóður greiði mismuninn, ef einhver verður. Það var ekki rétt þegar um það var talað af hv. þm. Pétri Sigurðssyni, að við bentum bara á að fá allt úr ríkissjóði. Það er ekki rétt. Það voru aðeins þessar 200 hugsanlegu milljónir, ef olíuverð helst óbreytt allt árið, og enginn veit hvaða þróun verður í þeim efnum til ársloka. (Gripið fram í.) Þú skalt reikna það sjálfur. (Forseti: Ég vil biðja þingmenn að hafa ekki samtal í salnum, ekki við ræðumenn.)

Nú kom það fram í máli hæstv. ráðh. áðan að með því að hækka viðmiðunarverð í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins væri verið að færa frystihúsunum, útflytjendum, 400 millj., ef mér hefur ekki misheyrst. Og 400 millj. gera 400 millj. Ef við tökum einnig þá upphæð sem kemur óbeint inn til útflytjenda með því að útflutningsgjöldin eru felld niður, sem munu vera á annað þús. millj. á ársgrundvelli, þá sýnist mér þegar allt kemur saman að fiskiðnaðurinn geti greitt þetta hærra fiskverð. Hann greiðir það aðeins með öðrum hætti. Í staðinn fyrir að greiða útflutningsgjöldin greiða þeir þetta með því að borga hærra fiskverð.

Ég vil einnig benda á annað að ef fiskkaupandinn getur greitt umfram fiskverðið, eins og talað hefur verið um að undanförnu og sýnt var fram á opinberlega í fréttum bæði í sjónvarpi og útvarpi í kvöld, að ætti sér stað, getur hann alveg eins greitt hærra fiskverð, jafnvel þó að það komi til skipta handa sjómönnum. Því ekki það?

Hæstv. ráðh. sagði nú sem betur fór ekki eintóma vitleysu hér áðan. Hann lýsti því yfir að hann telur að sjómenn eigi að fá hlut af umframgreiðslu, þ. e. a. s. af því verði sem fiskkaupendur telja sig geta borgað umfram lágmark Verðlagsráðsins Og þá vildi ég leyfa mér að spyrja í sambandi við þessa yfirlýsingu: Hvað ætlar hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason að gera í því að þessar upphæðir komi til skipta, en renni ekki óskiptar í vasa útgerðarmanna?

Það er gott og blessað ef menn eru mjög ánægðir með sín verk og þykir allt gott við þau. Hæstv. ráðh. var afar hrifinn af því að allir skyldu vera óánægðir, allir sem einn, sem spurðir voru ráða í sambandi við frv. í n. Hann var mjög hrifinn af því að allir skyldu vera óánægðir. Það þýddi það að þeir væru óánægðir vegna þess að það væri gengið hæfilega mikið á hlut allra. Það hefði verið skipt eins réttlátlega niður og hægt er. En þá mætti jafnframt spyrja hæstv. ráðh.: Hvað fengu sjómenn hjá hæstv. ráðh. í þessu frv.? Nákvæmlega ekki neitt. Þeir fengu ekkert annað en það að sú aðferð var notuð sem varð til þess að sjómennirnir fengu ekki verðið til skipta. Það er staðreyndin.

Ég er líka sammála hæstv. ráðh. og sammála því atriði í frv. sem fjallar um að 60 millj. skuli veittar til þess að bæta eigendum fiskiskipanna tjón sem þeir verða fyrir þegar skip þeirra eru dæmd ónýt, ef tjónið er ekki bætt með öðrum hætti. Þessi upphæð er vissulega góð byrjun, hefði kannske mátt vera hærri. Við nm. í minni hl. hv. sjútvn. vorum að veita því fyrir okkur hvort ekki væri hægt að víxla þarna 50 millj. af öðrum stað yfir á þennan lið. Við vitum að eins og verðlagið er á fiskibátum nú í dag duga 50 millj. skammt ef þær eiga að koma að einhverju verulegu haldi. Líklega hefði það verið rétt hjá okkur að koma með brtt, um að þessi tala yrði 100, en 300 millj. þær sem eiga að fara til endurhóta á eldri fiskibátum hefðu þá orðið 250 í staðinn. Við sem ábyrgir stjórnmálamenn leyfum okkur ekki að leggja til að hækka þarna eina eða neina tölu, nema annað eins komi í staðinn.

Ég held því einnig fram að við séum ekki með óraunsæjar till. þegar við leggjum til að útflutningsgjaldaaðferðin verði lögð til hliðar og fiskverðshækkunin komi í staðinn. Ég tel að við höfum sýnt fyllilega fram á það að okkar leið sé raunhæf og til þess séu til fjármunir. Það eru aðeins þessar 200 millj., sem gætu þarna orðið á milli, þ. e. a. s. ef þetta háa olíuverð helst til ársloka sem allar líkur benda til að ekki verði.

Ég veit ekki betur en olían hafi þegar lækkað víða hér í Evrópu, og hafa ekki rússarnir lækkað olíuna líka?

Aðeins eitt orð að lokum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því hvort hann telji það ekki yfirborganir á fiski þegar greitt er fyrir fiskinn óragaðan, ógæðametinn eins og nýr væri? Er það ekki að greiða hærra fiskverð að greiða jafnt fyrir óstærðarflokkaðan fisk eins og hann væri stór? Með sérstöku tilliti til þess að íslendingar hafa verið svo dugmiklir fiskimenn á undanförnum árum að þeir eru búnir að drepa allan stóra fiskinn. Þetta er líka hækkun á fiskverði.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri enginn maður í landinu svo vitlaus að hann teldi réttlátt að ein stétt fengi allan gengismuninn. Hvaðan í ósköpunum hefur hæstv. ráðh. tilefni til þess að taka slíkt upp í sig? Ekki vildum við heimta það. Við förum aðeins fram á 13% hækkun á fiskverði og það er ekkert nálægt því, ekkert líkt því að vera allur gengismunurinn, það er aðeins brot af honum. Gengismunurinn eftir tvær síðustu gengisfellingar er líklega á fjórða milljarð kr. Hæstv. ráðh. sagði að ef sjómenn fengju þessa hækkun, þá færu allar stéttir þjóðfélagsins af stað um leið. Ég neita því að það sé rétt, vegna þess að sjómenn hafa svo lágt kaup. Trygging á fiskibát núna, eftir þá hækkun sem veitt var nú fyrir skömmu, er um 67 þús. kr. Sjómenn eru eina atvinnustéttin í landinu sem greiðir sjálf sitt fæði þegar hún vinnur utan heimilis, ekki að öllu leyti að vísu, þeir fá að vísu nokkra upphæð á dag en þeir greiða talsverðan hluta fæðis síns og eru eina vinnustéttin í landinu sem það gerir. En það má líka níðast á henni, að því er manni skilst af máli hæstv. ráðh., alveg eins og hverjum sýnist.