26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

307. mál, eftirlit með raforkuvirkjun

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. hans svör. Mér þykir sannarlega fróðlegt að fá að sjá þá skýrslu sem kemur frá þessari n. þar sem ég hef svo lengi haft áhuga á þessu máli. Spurningin verður auðvitað fyrst og fremst um það hvert verði valdsvið eftirlitsins, hvort það verði nægilega skýrt, hvort það sé nægilega tryggt að eftirlitið geti framfylgt þeim lögum og reglugerðarákvæðum sem hér er um að ræða og snerta kannske, eins og ég benti á áðan, fjölmenna vinnustaði, þar sem einhverju kann að vera ábótavant, og reyndar alveg eins í heimahúsum einnig. Ég efast sem sagt enn um að þetta sé gert kleift og það, sem hæstv. ráðh. vitnaði í úr skýrslunni, sýnir þetta kannske að nokkru. Þar er kvartað yfir mannaflaskorti til þess að eftirlitinu sé nægilega vel sinnt. En ég held að það komi þó þarna enn þá fleira til, sem hefur meiri áhrif, og þá sérstaklega það að þessum starfsmönnum sé gert nægilega kleift að sinna sínu starfi á eðlilegan hátt með eðlilegu valdi.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh. að n. væri sammála um sjálfstæði Rafmagnseftirlits ríkisins. Ég spurði fyrst og fremst um þetta vegna tengsla Rafmagnseftirlits ríkisins annars vegar innan Orkustofnunar og aftur Rafmagnsveitna ríkisins sem þarna eru sá aðili sem Rafmagnseftirlitið þarf að fylgjast sérstaklega með. Það er auðvitað ekki nóg að þetta Rafmagnseftirlit verði sjálfstætt, það felur í raun og veru ekkert nýtt í sér, liggur mér við að segja. Það verður þá að verða virkt og fá nægilegt vald, um leið og það verður hlutverk stjórnskipaðrar nefndar væntanlega eða þingkjörinnar n. að sjá til þess að það gegni hlutverki sínu á fullkomlega eðlilegan hátt.

Þetta var það, sem ég átti við í sambandi við sjálfstæði Rafmagnseftirlitsins, að það væri ekki tengt eða á nokkurn hátt háð Rafmagnsveitum ríkisins. Það taldi ég mjög óeðlilegt, miðað við það að þar fer fram mjög nauðsynlegt eftirlit einmitt með þeirri starfsemi allri.