09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason); Herra forseti. Þetta frv. um ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins samkv. l. nr. 2 frá 1975 og um ráðstafanir vegna hækkunar brennsluolíuverðs fiskiskipa hefur legið um nokkurt skeið fyrir Nd. og var afgr. þaðan á miðvikudagskvöld. Nd. gerði á því þrjár breyt.:

Á 1. gr. frv. a-lið orðalagsbreyt. „Til lífeyrissjóða sjómanna, til þess að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur til sjómanna og aðrar tryggingabætur,“ en áður var í frv. „Til þess að auka lífeyrisgreiðslu til aldraðra sjómanna.“ Sjútvn. Nd. taldi réttara að gera þessa breyt. á. Ég tel ekki vera um efnisbreyt. að ræða því að þetta framlag var samkv. aths. með frv. og sömuleiðis samkv. þeirri túlkun, sem ég lagði í málið í framsöguræðu minni í Nd., auðvitað til frjálsrar ráðstöfunar stjórnum lífeyrissjóðanna til þess að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur og þá auðvitað um leið aðrar tryggingabætur.

Aðrar breyt., sem gerðar voru, voru breyt. á ákvæðum til bráðabirgða, 4. lið, um heimild að endurgreiða útflutningsgjald samkv. lögum nr. 19/1973 og a-lið 2. gr. þessara l. af saltsíld og saltsíldarflökum, sem framleitt er á þessu ári. Þetta ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 1972 og 1973 um það takmarkaða magn sem framleitt hefur verið af saltsíld og saltsíldarflökum, en hins vegar er rétt að hafa það í heimildarformi, en ekki skýlaus lagafyrirmæli því að það verður auðvitað að fara eftir markaðsverði hverju sinni og framleiðslukostnaði á þessari vöru hvort eigi að grípa til slíkrar heimildar eða ekki. Ég fyrir mitt leyti mun ekki grípa til þessarar heimildar hvað varðar almennt útflutningsgjald af saltsíld nema ég telji brýna þörf, en hins vegar mun ég líta á það og meta eftir söluhorfum, sem verða á þessum afurðum, ef þessar veiðar verða á einhvern hátt leyfðar, sem verður að gera ráð fyrir þó að það sé í mjög takmörkuðum mæli.

Þriðja breyt., sem Nd. gerði á frv., er 5. liður ákvæða til bráðabirgða um heimild að endurgreiða útflutningsgjald samkv. b-lið 2. gr. að hluta eða að öllu leyti af þurrkuðum saltfiski, þ. á m. af þurrkuðum saltufsa.

Það er eðlilegt að mínum dómi að taka þessa heimild inn því að það er mikill munur á hvort verið er að ræða um útflutningsgjald af saltfiski, blautfiski, eða hvort um er að ræða heimild til að endurgreiða útflutningsgjald af þurrkuðum saltfiski og þar með af þurrkuðum saltufsa, og skal ég fúslega viðurkenna að þar er mikill munur á sem þarf að skoða nánar og er því rétt að hafa slíka heimild.

Þá var breytt 2. lið á ákvæðum til bráðabirgða á þann veg að stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er heimilt að greiða framleiðendum loðnumjöls upp í verðbætur vegna birgða loðnumjöls frá loðnuvertíð 1975 sem ekki hafa verið fluttar út. Sjóðsstjórnin setur reglur um greiðslur þessar að fengnu samþykki ráðh., eins og um aðrar þær reglur sem stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins setur.

Það má segja að það sé mikið vandamál hvernig fara eigi með þá loðnu sem komin var á ákveðið framleiðslustig, í þrær verksmiðjanna, þegar gengisbreyt. átti sér stað. Það er auðvitað fráleitt að tala um að greiða þá loðnu á hinu nýja verði eða eftir hinu nýja gengi að öllu leyti á sama tíma og hráefnisverðið breytist ekki. Hitt er rétt að taka fram og viðurkenna, að sá kostnaðarauki, sem verksmiðjurnar verða fyrir við vinnslu á þessum afurðum, er mjög mikill, og talið er að magnið, sem legið hafi í þróm verksmiðjanna allt frá Austfjörðum eða Norðausturlandi og til Þorlákshafnar, hafi verið um 8 þús. lestir. Mismunur með því að draga frá útflutningsgjöldin og endurmat hráefnisverðs er 36 millj. kr., og verði þetta ákvæði samþ. tel ég eðlilegt að þessar bætur nemi allt að 36 millj. kr., og þá leyfi ég mér að halda því fram að verksmiðjurnar á Austurlandi og Norðausturlandi geti mjög vel við unað.

1. gr. þessa frv. fjallar um skiptingu á þeim gengishagnaði sem um er að ræða eftir gengisbreyt. í febr. s. l. Það eru í fyrsta lagi 75 millj. í Lífeyrissjóð sjómanna, sem var gefið fyrirheit um í sambandi við verðákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins á s. l. vetri frá hendi ríkisstj.

Í öðru lagi er reiknað með til þess að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa, sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda, með skilyrðum sem rn. setur, 950 millj. kr. Af þeirri upphæð er gert ráð fyrir að greiðslur fari fram á þremur árum frá 14. febr. 1975 að telja og sjútvrn. er heimilt að ráðstafa allt að 400 millj. kr. af heildarfjárhæð samkv. þessum lið til lánveitinga í sjávarútvegi til tveggja til þriggja ára til að bæta lausafjárstöðu eigenda fiskiskipa og vinnslustöðva. Þessi heimild var einnig í lögum, sem afgreidd voru fyrir jólin, og voru staðfesting á brbl. sem gefin voru út á síðasta hausti um nákvæmlega sömu upphæð. Það stóð nokkuð lengi á því hvernig þessu fjármagni yrði varið til að bæta lausafjárstöðu í sjávarútvegi og að lokum náðist samkomulag um það á milli bankanna og sjútvrn. að viðskiptabankarnir tækju algjörlega að sér að lána þetta fjármagn þennan skamma tíma, því að hér er um fjármagn að ræða sem Alþ. er búið að ráðstafa til stofnfjársjóðsins til þess að bæta þeim sem verða fyrir gengistapi af erlendum lánum og gengistryggðum lánum Fiskveiðasjóðs. Þess vegna kom ekki til greina að það hefði þessa úthlutun með höndum nokkur annar aðili en viðskiptabankar sjávarútvegsins, Landsbankinn og Útvegsbankinn, og þeir tækju jafnframt ábyrgð á endurgreiðslu á þessu fjármagni. Það er því um tómt mál að tala að ég hafi nokkurn tíma ætlað mér sem ráðh. að fara að stunda lánastarfsemi uppi í sjútvrn., eins og fram kom hjá einum eða tveimur ræðumönnum í Nd. Sama yrði með þetta fjármagn sem hér er lagt til, ég mundi aldrei vilja taka slíka ábyrgð á mig. Ég vildi ganga frá slíkum samningum við lánastofnanir. Það er ekki hægt að binda það í lögum hvort það yrði bundið við Fiskveiðasjóð, Seðlabankann eða viðskiptabanka, það var samningsatriði á milli þessara banka með þessar 700 millj. á s. l. vetri. Verður hér að vera einnig um samningsatriði að ræða sem ekki er hægt að binda á annan hátt í lögum. Hitt er svo annað mál hvort þessi heimild verði notuð. Hún verður auðvitað ekki notuð nema viðkomandi viðskiptabankar vilji ganga í þessa ábyrgð. Annars verður þetta fjármagn ekki lánað því að hér er aðeins verið að taka fjármagn sem á að fara til annarra hluta í örskamman tíma.

Þriðja atriðið í 1. gr. er óafturkræft framlag til Fiskveiðasjóðs til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskiskipum, 300 millj. kr. Er talið að um sé að ræða að Fiskveiðasjóð vanti á þessu ári um 400 millj. kr. á þessu sviði, sem er lágmarksupphæð. Fjárþörf Fiskveiðasjóðs hefur stóraukist nú á síðustu árum, aðeins endurgreiðsla af erlendum lánum vegna hinna nýju skipa er um 2025 millj. kr. á þessu ári og til þess að fjármagna innlendu skipasmiðina þarf 1120 millj. kr. Fiskveiðasjóð vantar töluvert fjármagn, en að þessu er unnið bæði í gegnum Framkvæmdasjóð og í samstarfi við Seðlabankann, en mín skoðun er sú að það verði varla hægt að komast hjá því að útvega Fiskveiðasjóði minna fjármagn en um einn milljarð til þess að standa undir eðlilegri uppbyggingu fiskvinnslustöðvanna í landinu. Reynslan verður svo að skera úr um hvort það tekst að öllu leyti eða þá að hve miklu leyti.

Þá er hér um að ræða nýjan lið, það er til að bæta eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir ef skip þeirra eru dæmd ónýt og útgerðarmenn fá tjónið ekki bætt með öðrum hætti, t. d. frá tryggingarfélögum eða tryggingarfé. Þetta er hugsað á þann veg að ef t. d. Siglingamálastofnunin dæmir skip ónýtt, sem á engan rétt á að fá tjónabætur, þá getur auðvitað einstaklingurinn eða félagið, sem skipið á, farið illa út úr því. Er ætlunin að semja reglugerð og þá er einnig hugmyndin að afla í framtíðinni fjár í þessu skyni. Það má segja að að sumu leyti hafi verið í gildi nokkurs konar ellitrygging að vissu marki, sem er bráðafúadeild Samábyrgðar Íslands, en hún bætir aðeins bráðafúa af völdum ákveðinnar sveppasýkingar, en ekki af völdum elli skipanna, svo að þessi þörf hefur því verið minni fyrir það að þessi deild hefur verið starfandi. En hér er um nýmæli að ræða, a. m. k. í framkvæmd, þó að um þetta mál hafi oft verið rætt.

Þá er lagt til að leggja fram til Olíusjóðs til þess að jafna greiðsluhalla hans, 80 millj. kr., en þegar brbl. voru sett á s. l. hausti var talið að Olíusjóð vantaði liðlega 200 millj. til þess að standa við sínar skuldbindingar. Staðan hefur þó verið heldur skárri, en hér er að mínum dómi um algjöra lágmarksupphæð að ræða, að verja 80 millj. til þess að jafna greiðsluhallann frá s. l. ári og fram að gengisbreyt. 16. febr.

Til Tryggingasjóðs fiskiskipa ern ætlaðar 100 millj. kr. til þess að bæta greiðslustöðu hana. Það er ekki nema hluti af þeim vanda sem þar er við að etja. En það hefur verið dregið nokkuð úr greiðslum til útgerðar frá Tryggingasjóði á s. l. ári. Það hefur verið haldið við sömu reglur hvað úthaldstíma snertir og sömuleiðis það hlutfall sem Tryggingasjóðurinn hefur greitt í iðgjaldi fiskiskipanna, en það sem dregið hefur verið úr er að iðgjaldagreiðslan á skip má ekki fara yfir 16% af verðmæti þess afla sem skipið hefur á hverju tryggingaári. En með þessu framlagi til Tryggingasjóðs tel ég miklar líkur vera til þess að greiðslustaða sjóðsins verði um 6 mánuðum á eftir, en hún hefur oft farið upp í 9–10 og jafnvel upp í 11 mánuði þegar verst var.

Þá er ætlað að verja til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins vegna afurða síldar- og fiskimjölsverksmiðja og til greiðslu verðbóta vegna loðnumjöls og fiskimjöls 60 millj. kr. á yfirstandandi vetrarvertíð. Af þessum 60 millj. kr. hefur 25 millj. þegar verið ráðstafað með sérstöku samkomulagi við síðustu verðákvörðun á loðnu síðasta verðbilið, þegar verðið fór niður í kr. 1.50. En þá hefðu veiðarnar stöðvast með öllu ef verðið hefði farið neðar og þá var gengið á Verðjöfnunarsjóð með þessum hætti. Það loforð gaf ég með samþykki ríkisstj. til þess að lengja loðnuvertíðina fyrir þau skip sem lengst héldu áfram þessum veiðum, og held ég að þjóðhagslega séð hafi verið skynsamlegt að taka þá ákvörðun.

Þá er ætlað að verja tveimur smáupphæðum, a. m. k. miðað við þessa heildarupphæð, til rannsókna og styrkveitinga vegna fiskiskipa sem breyta vélbúnaði sínum til þess að geta nýtt svartolíu í stað gasolíu sem orkugjafa, 10 millj., og til orlofshúsa sjómannasamtakanna 12 millj. kr.

Samkv. þessari sundurliðun er hér um að ræða 1637 millj. kr., en Seðlabankinn hefur áætlað að gengishagnaðurinn muni nema 1644 millj. kr., þegar greiddar hafa verið hækkanir á flutningskostnaði, vátryggingar og annað þess háttar á afurðir sem fluttar eru út eftir hinu eldra gengi. Hins vegar er hér til viðbótar, sem kemur að vissu marki á gengisjöfnunarsjóðinn, sú aukning sem verður vegna loðnuveiðanna og ég gat um, með þeirri breyt. sem Nd. gerði á frv. og verður brúttó um 38 millj. kr., þannig að gengishagnaðurinn er uppurinn og meira en það. En af gengishagnaðinum frá s. l. hausti eru eftir nokkrar millj., en þá höfum við talið eðlilegt að hluti af því, sem fer til síldarbræðslanna vegna afurðanna sem eru í þrónum, verði greiddur út með viðbótargengi, þannig að það eigi nokkurn veginn að vera hér um greiðslujöfnuð að ræða hvað snertir ráðstöfun gengishagnaðarins.

Síðasti liðurinn er að sjútvrn. setji nánari reglur um framkvæmd þessarar gr. og greiðslutíma framlaga og svo eftirstöðvar til ráðstöfunar ef einhverjar kunna að vera, sem litlar eða engar líkur eru nú á, samkv. nánari ákvörðun sjútvrn. Breytist þessar tölur á þann veg að eitthvað verði eftir, þá hef ég ekki sem sjútvrh. hugsað mér að verja því fjármagni einn, heldur legg ég þær till. fyrir ríkisstj. og úthluta því, ef eitthvað verður eftir, í fullu samráði við ríkisstj., eins og gert var við afgreiðslu gengishagnaðarins frá s. l. vetri.

2. gr. frv. fjallar um sérstakt útflutningsgjald til Olíusjóðs fiskiskipa sem er hugsað til að greiða niður olíuverð til fiskiskipa, þannig að skipin sjálf eða útgerð þeirra greiði kr. 6.80 á hvern lítra af gasolíu og hlutfallslega af annarri brennsluolíu. Olíuverðið er nú kr. 20.20. Olíusjóðurinn, sem starfræktur er samkv. ákvörðun brbl. og staðfestingu Alþ. á þeim í febr., greiðir kr. 8.50, en ætlað er að þær tvær hækkanir, sem orðið hafa síðan á olíu, verði nú greiddar til viðbótar úr Olíusjóði og fjár aflað til þessara greiðslna með 4% af fob.- verði útfluttra sjávarafurða annarra en þeirra, sem getið er um í b- og c-lið þessarar gr., en í b-lið er reiknað með 6% af fob-verði útflutnings á saltfiski og í e-lið 2% af fob-verði útflutnings á öllum mjölvörum og lýsisafurðum, en það kæmi ekki til framkvæmda fyrr en eftir 1. okt. 1976 vegna mjög erfiðrar stöðu.

Það hefur löngum verið deilt um það hvað sjóðakerfi sjávarútvegsins heldur áfram að aukast og sífellt eru hærri upphæðir teknar inn í þetta sjóðakerfi. En vandinn er sá að þegar talað er um að komast út úr sjóðakerfinu, þá eru menn ekki á eitt sáttir. Að mínum dómi má nefna þrjár leiðir til þess að komast hjá sjóðakerfinu, komast hjá slíkum niðurgreiðslum eins og þessum: Í fyrsta lagi að breyta með lögum hlutaskiptum á milli sjómanna og átgerðarmanna, en ég hygg að enginn alþm. hefði verið fáanlegur til að standa að slíkri löggjöf og ég fyrir mitt leyti mundi aldrei leggja það til. Í öðru lagi kom til greina að leggja sérstakt viðbótargjald á fisk umfram þá verðlagningu, sem Verðlagsráð hafði ákvarðað, til þess að ná í Olíusjóðinn til útgerðarinnar þá fram hjá skiptum, og í þriðja lagi að leggja á útfluttar sjávarafurðir á síðasta stigi. Með því að velja þá leið að leggja á átfluttar sjávarafurðir er auðvitað verið að taka þessa fjármuni og þennan skatt af öllum þeim sem að sjávarátvegi vinna og koma nálægt honum, allt frá því að fiskur kemur á skip og þangað til hann er fluttur úr landi. Þess vegna er hlutdeild sjómannsins mun minni í þessari aðferð heldur en ef ákveðið álag hefði verið sett á fiskinn upp úr sjó. Það skiptir mjög miklu máli. Verðlagsráðið var búið að ákvarða verðlagningu fram í maímánuð frá áramótum svo að það breytir engu í þessum efnum, það sem hér er lagt til að gera. Höfuðatriði málsins er það að olíuvandinn eða hækkun á olíunni við þessar tvær síðustu verðhækkanir kostar tæpar 1000 millj. kr. Fjáröflunin, miðuð við ársfjáröflun samkv. 2. gr., mundi fara á þriðja hundrað millj. fram yfir þessa vöntun. En þá er aftur við að bæta að þegar ern liðnir rúmlega fjórir mánuðir af þessu ári og töluvert af framleiðslu á þessu ári komið úr landi og gjaldeyrisskil hafa verið gerð fyrir hana. Því er svo komið að ég tel að við munum ekki ná að fullu og öllu þeirri fjáröflun sem þarf á þessu ári, þar sem ætlunin er samkv. þessu frv. að endurgreiðslurnar verki aftur fyrir sig, en hins vegar verður aftur miðað við útflutning frá því að lögin taka gildi. Þess vegna legg ég á það mjög ríka áherslu að hv. n., sem fær málið til meðferðar, starfi fljótt og vel og stefnt verði að því að lögfesta þetta frv. sem allra fyrst því að það eru afar háar upphæðir sem nú eru fluttar út svo að segja daglega sem ella tapast. Frv. er búið að vera lengi í meðförum.

Það hefur verið erfitt að ná samkomulagi um frv. Ég hef orðið þess var að þessi leið, sem lögð er til í 2. gr., er skaplegust hvað snertir sjómannasamtökin þó að þau eðlilega séu á móti því að taka nokkurn þátt í því, því að fyrir allmörgum árum var horfið frá að draga olíu frá óskiptu. En hér er auðvitað um sérstakt vandamál að ræða sem verður ekki horft fram hjá. Í öðrum greinum sjávarútvegs er sennilega enginn ánægður með frv. vegna þess að hver grein og hver þrýstihópur vill fá sem mest sjálfur og ef hann fær það ekki eins og hann vill, þá er hann óánægður og þá eru allir óánægðir og þá verður að hafa það. Ég held að þetta sé nokkur trygging fyrir því að það sé reynt að sýna eins mikla sanngirni í sambandi við skiptingu gengishagnaðarins og frekast er unnt. Útflutningsgjöldin hafa alltaf verið mismunandi og miðað við þá útkomu, sem verið hefur af saltfiski, og miðað við þá útkomu, sem nú er á velflestum frystihúsum í landinu, þá tel ég þetta hlutfall á þessu viðbótarútflutningsgjaldi ekki vera ósanngjarnt, Frysti fiskurinn stendur ekki undir þessu viðbótargjaldi einn, og það er ætlað að auka greiðslu vegna verðlækkana á frystiafurðum í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins veralega frá þeirri ákvörðun sem tekin var í vetur, en þá var ákvarðað að greiða úr þeirri deild Verðjöfnunarsjóðsins 1130 millj. kr., svo að nú er reiknað með því að stjórn Verðjöfnunarsjóðsins taki fljótlega ákvörðun um að hækka þessa viðmiðun um 400 millj. eða upp í 1 530 millj. kr. Þar með eru lagðar fremur litlar viðbótarkvaðir á frystiiðnaðinn, eða mig minnir liðlega 200 millj. kr.

Ég tel ekki ástæðu til þess að flytja ítarlegri ræðu hér um þetta frv. Það hefur verið mikið rætt og hafa vafalaust ekki farið fram hjá þm. þessarar hv. d. þær umr., sem um það hafa orðið, og sömuleiðis þær fréttir, sem hafa birst í fjölmiðlum hér um. Þess vegna skal ég láta hér staðar numið.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.