09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3654 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þótt ég vilji ekki tefja um of fyrir því að þetta mál komist til sjútvn. vil ég draga fram örfá sjónarmið sem mér þykir rétt að koma á framfæri nú.

Segja má að það séu orðin óskrifuð lög við gengisfellingar, sem eru tíðar í okkar þjóðfélagi, að færa þann gengishagnað, sem talinn er af birgðum hjá fiskiðnaðinum, yfir til sjávarútvegsins. Þetta er að mörgu leyti eðlilegt og byggist að sjálfsögðu á því að fiskiðnaðurinn njóti fyrr og raunar strax þeirra hagsbóta sem gengisfellingin hefur í för með sér, en sjávarútvegurinn siðar, og sjávarútvegurinn beri fyrst og fremst þá erfiðleika sem fylgja að sjálfsögðu gengisfellingu. Hins vegar sýnist mér ljóst og menn verða að gera sér grein fyrir því að hér er vitanlega um eignaupptöku að ræða. En það er einnig tíðkað að fara lengra en þetta. Ekki hefur verið látið nægja að færa þetta frá fiskiðnaðinum sem slíkum yfir til sjávarútvegsins, heldur hefur verið farið inn á stöðugt flóknari leiðir til þess að dreifa þessu á milli ýmissa þátta sjávarútvegsins og þá ekki síst eftir því hvernig gengisbyrðin hefur á þeim lent.

Nú er það vitanlega ljóst að í þessari verðmætasköpun eiga þátt ýmsir aðilar fiskiðnaðarins að sjálfsögðu að mjög miklu leyti og sjávarútvegurinn eða útgerðarmennirnir að stóru leyti einnig og ekki siður raunar sjómenn. Við tilfærslu á þessu fjármagni yfir til sjávarútvegsins má raunar segja að verið sé að bæta það fiskverð sem gilti þegar þessa verðmætis var aflað. Er því ljóst að þar eiga sjómenn einnig verulegan þátt í. Að mörgu leyti hefði ég talið eðlilegast að skipta þessum verðmætum eftir hlutdeild þessara aðila í verðmætasköpuninni, milli sjómanna og útgerðarmanna, og sömuleiðis á milli þátta útgerðarinnar, þ. e. a. s. á milli báta og togara að þessu leyti. Hins vegar verður því ekki neitað að gengisbyrðin er ólíkt meiri hjá vissum aðilum sjávarútvegsins og ég viðurkenni að til þess ber að taka tillit.

En ég nefni þetta hér m. a. vegna þess að við gengissig, sem hefur tíðkast nokkuð á síðustu árum, fer enginn slíkur flutningur fram og vitanlega verður það þó gengishagnaður hjá fiskiðnaðinum. Hann fer eingöngu fram, þessi flutningur, við gengisfellingar, þ. e. a. s. stærri stökk í gengisbreyt. Og mér sýnist að tími sé kominn til þess að fara að hugleiða þetta mjög vandlega, hvort þessi tilflutningur sé raunar eðlilegur í þessum mæli sem verið hefur, hvort ekki beri að reyna að komast hjá honum á einhvern máta. Ljóst er að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, verða vitanlega aldrei ánægðir og ekki við því að búast, en ég held einnig að hún sé orðin ákaflega hættuleg í okkar sjávarútvegi í heild, sú gífurlega tilfærsla sem af opinberri hálfu er þar framkvæmd og þessi gengishagnaðarflutningur er eitt dæmi um, aðeins eitt dæmi um.

Í 1. gr. þessa frv. er þessum gengishagnaði ráðstafað. Segja má að frá þeim flutningi, sem varð við gengisfellinguna 2. sept., sé nokkur breyting. M. a. er hér tekið nokkru meira tillit til aðildar sjómanna að þessari verðmætasköpun og því fagna ég. Einnig er tekið nokkru meira tillit til aðildar bátanna sem hafa minna gengistap, sérstaklega með 300 millj. kr. í c-lið sem renna til Fiskveiðasjóðs Íslands til þess að greiða fyrir lánveitingum sjóðsins til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskibátum. Ef það er talið bátunum til ágóða, þá sýnist mér í fljótu bragði að gengishagnaðinum, þegar frá eru taldir smærri liðir aðrir, sé nokkurn veginn skipt til helminga á milli bátanna og togaranna. E. t. v. er það sæmileg skipting, en ég hygg að enginn geti raunar úrskurðað neitt um það, En samtals er þessi tilflutningur við tvær gengisfellingar nú orðinn yfir 3 000 millj. kr. og er það ekki lítil fjárhæð.

Ég held fyrir mitt leyti að till. hér um skiptingu á þessu séu eins góðar og kannske hverjar aðrar. Vel getur verið að ég geri einhverjar athugasemdir við orðalag síðar, en ég hef ekki hugsað mér að koma með breytingar sem séu skárri en þær sem hérna eru. En fyrst og fremst í sambandi við 1. gr. vildi ég vekja athygli á þessari tilfærslu. Hún er orðin gífurlega mikil og tíð í okkar þjóðarbúskap.

Um 2. gr. þessa frv. vildi ég segja þetta: Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt og komið fram, að þetta er orðið ákaflega varhugavert kerfi í sjávarútveginum sem stöðugt eykst og vex eins og gorkúla, að þar er enn um tilfærslu að ræða á milli hinna ýmsu greina sjávarútvegsins, og raunar má segja að þar er fyrst og fremst tekið úr öðrum vasanum og fært yfir í hinn. Ég get ekki annað en staldrað við þá hugsun að hér hljóti að vera hægt að stokka spilin upp á nýtt, gjörbreyta þessu kerfi öllu og minnka stórlega þessa tilfærslu sem hér á sér stað.

Með útflutningsgjaldinu er að sjálfsögðu tekið fyrst og fremst fjármagn frá fiskiðnaði og sjávarútvegi í heild og notað síðan til niðurgreiðslu á ákveðnum rekstrarliðum sjávarútvegsins, t. d. olíunni og ýmsu fleiru. Er þetta heilbrigt kerfi? Mitt svar er nei. Ég held að við séum komnir út á ákaflega varasama og hættulega braut, og raunar eina ástæðan til þess að ég treysti mér til þess að fylgja þessu aukna útflutningsgjaldi er sú að samkomulag hefur orðið með sjómönnum og útvegsmönnum um að endurskoða þetta kerfi. Ég bind við það miklar vonir. En engu að síður legg ég á það ríka áherslu að af opinberri hálfu verði þessi mál jafnframt skoðuð og ríkisstj. verði tilbúin með grundvallarbreytingar og róttækar breytingar á þessu kerfi öllu á næsta þingi.

Um olíustyrkinn sem slíkan mætti ýmislegt segja. Þar er að sjálfsögðu farið út á ákaflega varhugaverða braut. Að því má leiða rök að hagur útgerðarinnar af að spara olíu í sinum rekstri minnki með þessari niðurgreiðslu. Það er alveg ljóst og slíkt út af fyrir sig er ákaflega varhugavert. Ég tel þó skárra að fara út í þessi hækkuðu útflutningsgjöld heldur en að taka meira af óskiptum afla. Það er höfuðágreiningsefnið með sjómönnum og útgerðarmönnum. Vitanlega kemur þetta einnig á óskiptan afla, en dreifist þó á fleiri þætti þessarar verðmætasköpunar. En ég tel að hitt hefði verið verra.

En þar sem hæstv. sjútvrh. er nú kominn inn vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég fylgi þessari leið, þessari auknu tilfærslu, þessari auknu viðleitni til að færa fjármagn úr öðrum vasanum yfir í hinn, skera af halanum og stinga upp í munninn á útgerðinni, sem mætti kalla svo í raun og veru, eingöngu á þeirri forsendu að því er lofað að þetta kerfi allt verði tekið til endurskoðunar. Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi leggja áherslu á með þeim fáu orðum senn ég segi við þessa umr.

Undan því hefur verið kvartað að sjútvn. deilda þingsins hafi ekki hist sameiginlega. Ég tek undir það að það er illt. Ég skil það vel að þessu máli þarf að hraða. Það má aldrei liggja of lengi í meðferð Alþ. Ég hafði orð á þessu þegar málið var lagt fyrir Nd. og skil ekki hvers vegna ekki voru sameiginlegir fundir. Ég mun sem form. sjútvn. að sjálfsögðu reyna að hraða þessu máli. Hins vegar sýnist mér ljóst og eðlileg ósk nm, að fá að skoða það vandlega og fá til sín hina ýmsu menn sem sérfróður eru á þessu sviði og geta frætt okkur um ýmsa þætti þess, og ég mun sannarlega gefa okkur tíma til þess að gera það, en vænti þess þó að málinu megi hraða.