26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

51. mál, gerð landshlutaáætlunar Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á þskj. 54 hef ég leyft mér að flytja fsp. til hæstv. forsrh. um það, hvað líði gerð landshlutaáætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Þessi áætlun er unnin samkvæmt ályktun Alþingis 25. apríl 1972, en samkv. upplýsingum þáv. hæstv. forsrh. 12 mars s.l. voru frumskýrslur um undirbúningsathuganir í tengslum við áætlunina lagðar fyrir áætlanadeild og framkvæmdaráð Framkvæmdastofnunarinnar um þær mundir.

Eins og hinu háa Alþ. er kunnugt lágu skýr og afgerandi rök fyrir því á sínum tíma að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að tryggja byggð í Norður-Þingeyjarsýslu. Þar eru landkostir góðir og gjöful fiskimið skammt undan. Raunar má segja að á vissum tímum sé Þistilfjörðurinn forðabúr fyrir smábátaflotann á Norður- og Norðausturlandi. Á síðustu árum hefur þróast upp traust smábátaútgerð í sjávarplássunum nyrðra, einkum á Þórshöfn, en Raufarhöfn byggir mest á skuttogaraútgerð eins og kunnugt er. Ástæða er til að minna á það enn fremur að Raufarhafnarbúar byggðu afkomu sína nær eingöngu á síldarútvegi á sínum tíma og urðu fyrir alvarlegum búsifjum er sú útgerð lagðist niður.

Það er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að þessar staðreyndir séu hafðar í huga nú þegar sérstakar ráðstafanir eru gerðar til þess að efla byggð í Norður-Þingeyjarsýslu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um hin almennu rök fyrir heilbrigðri byggðastefnu. Þegar til lengdar lætur er vafalaust að það borgar sig fyrir þjóðarbúíð að halda landinu öllu í byggð, bæði frá þjóðhagslegu sjónarmiði þröngt skoðað, en ekki síður í menningarlegu tilliti almennt.

Það hafa orðið mér mikil vonbrigði að landshlutaáætlun Norður-Þingeyjarsýslu skuli enn ekki komin til framkvæmda að neinu leyti og að ekki skuli liggja fyrir till. um fjárútveganir í því sambandi. Af þeim sökum hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 54:

„1. Hvað líður gerð landshlutaáætlunar NorðurÞingeyjarsýslu?

2. Til hvaða þátta er henni ætlað að ná?“