09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3665 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Út af þessu máli vildi ég segja aðeins örfá orð.

Ég hygg að við hljótum að vera allir sammála um að það nauðsynlegasta, sem við getum gert varðandi okkar áfengismál, eru hinar fyrirbyggjandi aðgerðir. Hitt er þó staðreynd að of margir búa í dag við óviðunandi aðstöðu af völdum drykkjuskapar eða hreinnar drykkjusýki. Og til þeirrar staðreyndar verðum við að taka tillit.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að hér starfar fyrir annar sjóður, Gæsluvistarsjóður, og hafa komið fram ýmsar mótbárur gagnvart því að mynda hér nýjan sjóð og ég skil þær mótbárur mætavel. Af framlögum til Gæsluvistarsjóðs hefur hins vegar orðið sorgleg reynsla. Til hans hafa runnið allt of litlar fjárveitingar og þær hafa hrokkið skammt til þeirra stórverkefna sem á þessu sviði hefur þurft að sinna. Það er þessi niðurstaða framar öðru sem veldur því að ég hef kosið að styðja þetta mál eindregið, þrátt fyrir það að ég telji rétt að íhuga vandlega hvort ekki kunni að vera rétt að sameina þessa sjóði.

Hér er lögð til sérstök fjáröflun. Það er sagt með réttu að hér sé tekið stórt stökk. E. t. v. er það rétt. En það er þó full þörf á því að gera mikið átak í þessum efnum og fjáröflunin sjálf er mjög eðlileg og sjálfsögð. Þetta er ákveðinn skattur sem menn greiða sem kaupa áfengi. Ég tel hana þess vegna eðlilega. Það má deila um upphæðina, hver hún hefði átt að vera, og eins um það hvort ríkissjóður muni þarna verða af þessari 100 kr. tekjulind, sem annars hefði kannske verið reynt að notfæra sér, og það sé verið að hnupla þarna peningum frá hæstv. fjmrh. til annarra nota — en varla til annarra þarflegri nota ætla ég að leyfa mér að segja.

Það er hreyft rösklega við þessu máli og þannig að ég styð það. Ég tek undir með flm. og ég tek einnig undir með hv. 12. þm. Reykv. sem kom fram hér áðan að það má ýmsar leiðir fara að þessu marki. En hér er mikil nauðsyn á ferðinni, og reynslan af framlögum til Gæsluvistarsjóðs er sá að mér finnst ekki hægt að sleppa þessu tækifæri til þess að reyna að ná þarna fram verulegu átaki og styð því þetta frv. eindregið.