09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3665 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég er í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta og var einn af þeim sem óskuðu eftir að það væri réttur áskilinn til þess að flytja eða fylgja brtt. Ég ætla mér ekki neina brtt. að flytja og það eru engar brtt. fram komnar. Ég mun því hafa sama hátt á og hv. 8. þm. Sunnl., að sitja hjá við þessa atkvgr. En ég vil taka það fram að ég efast ekkert um mikilvægi þessa máls og að það sé allt gert til þess að bæta úr fyrir þeim sem falla undir það frv. sem hér um ræðir. Hins vegar leyfi ég mér að benda á það að lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra eru frá 1964 og samkv. þeim starfar Gæsluvistarsjóður sem hefur 71/2 millj. kr. tekjur á ári af þeim ágóða sem Áfengisverslun ríkisins hefur ár hvert. Ég held að það sé margt afar líkt með þeirri löggjöf um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og því frv. sem hér um ræðir. Ég held því að það sé miklu farsælla og betra að reyna að athuga þessi tvö mál í einu og finna flöt á því að tilgangi laganna verði náð á þann hátt, en ekki með nýju lagasniði.

Í öðru lagi vil ég á það minna, að samhliða því sem við erum að skera niður fjárlög og berjumst í bökkum með mörg nauðsynjamál, þá held ég að við getum tæpast, þótt hér sé um brýnt mál að ræða, farið inn á þá braut að taka hluta, frekar en við þegar erum búnir að gera, af þeim tekjum sem ríkinu eru ætlaðar. Ég held því að það sé hyggilegt að þetta mál verði athugað nánar og við finnum betri flöt á því þegar tímar líða, t. d. á næsta þingi, og getum þá orðið ásáttir um afgreiðslu þess og sameinað það þeirri löggjöf sem fyrir er og fjallar að verulegu leyti um þetta mál.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en ég vil að það valdi ekki neinum misskilningi að ég tel mikilvægi málsins mjög mikið og þarft að sinna þessu máli og rétt af hv. flm. að hafa hreyft því hér. En ég tel að það hefði átt að vera á annan hátt en gert hefur verið, og ég er til viðræðu um það síðar að finna flöt á þessum málum þannig að bæði Gæsluvistarsjóður og tilgangur laganna frá 1964 nái betur tilgangi sínum en þegar hefur orðið í reynd.