09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

130. mál, fóstureyðingar

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. ræddi um þetta mál af hófsemi og hann minnti á að læknar þeir, sem þessi mál snerta sérstaklega, vissu betur um þetta mál en aðrir og ættu þar af leiðandi að vera betur um það færir að taka þar ákvarðanir og segja til um það. En það, sem hefur vakið sérstaka athygli mína varðandi þetta mál, er hve læknar eru ósammála varðandi málið, og þó að ég ætli ekki að fara út í neinar umræður og karp milli einstakra lækna, t. d. um mistök eða mistök ekki í þessum málum, það læt ég að vísu liggja milli hluta, þó get ég ómögulega stillt mig um það — vegna þess að mér þótti það vera mjög merkileg ræða sem flutt var af lækni í Nd. — að vitna örlítið í þá ræðu hér, með leyfi hæstv. forseta, því að þótt ég geri hans skoðanir engan veginn að mínum, þá sannar það bara best hvað þessi stétt er í raun og veru ósammála og túlkar þetta frv. og t. d. mismuninn á upphaflegri gerð þess varðandi 9. gr. og núv. gerð þess á mismunandi hátt. Í umr. í Nd. 16. apríl flutti hv. þm. Sverrir Bergmann mjög athyglisverða ræðu og þar sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá kemur næst að því hvort verið sé að deila um sjálfsákvörðunarrétt konunnar. Þessu er mjög haldið á lofti, en mín skoðun er sú að svo sé raunverulega ekki. Mér finnst miklu fremur að hér sé settur á svið svolítill orðaleikur, en raunveruleikinn sé allur annar. Það er konan sem hefur tekið, tekur og mun taka ein endanlega ákvörðun um fóstureyðingu. Hún hefur tekið, tekur og mun taka ein eftirköstum og afleiðingum slíkrar aðgerðar, líkamlega og andlega, til góðs eða ills. Ég tel að hástemmdur, tilfinningalegur orðaleikur ætti ekki heima í þessu sambandi. Það er enginn sem tekur þessa ákvörðun fyrir konuna og það er enginn sem ber raunverulega ábyrgðina og tekur afleiðingunum nema hún. Hins vegar hefur það verið svo og er enn þá gert ráð fyrir því að fóstureyðing sé ekki framkvæmd nema frambærilegar ástæður séu fyrir hendi, og það er alveg sama hvort frv. yrði samþ. í sinni upprunalegu mynd eða í sinni núv. mynd, að frambærilegar ástæður þyrftu að vera fyrir hendi. Það er ekki um neinar frjálsar fóstureyðingar að ræða, hvoru frv. við veittum heldur brautargengi.“

Þetta vildi ég aðeins taka hér fram til að sýna það og sanna að vissulega eru læknar almennt ekki hér á einu máli og þetta skýtur allskökku við ýmislegt annað sem frá þessari annars ágætu stétt hefur komið um þetta mál.

Það er rétt að fá mál eða engin hafa vakið jafnalmenna umræðu úti í þjóðfélaginn og það frv. sem hér er á lokastigi á Alþ. Hér hefur það verið rætt ítarlega og er því að bera í bakkafullan lækinn að hafa hér uppi langt mál nú, einkum eftir að sýnt er, hvernig um frv. fer. Það er rétt sem fram kemur í áliti meiri hl. heilbr.- og trn. að um það var full samstaða að frv. þyrfti að ná fram, þó að ég hins vegar skili séráliti og sé ekki í öllu sáttur við núv. gerð frv. Það er þó aðeins varðandi þann umdeilda þátt, fóstureyðingarnar, sem ég hef uppi ágreining við meðnm. mína. Ég skil mætavel afstöðu þeirra til þessa þáttar þó að ég geti ekki sætt mig þar við og sé annarrar skoðunar en þeir.

Það skal skýrt fram tekið að sú skoðun, sem ég hef áður látið í ljós og geri enn nú, er ekki ný af nálinni hjá mér eða til komin vegna áhrifa af þeirri umræðu sem fram hefur farið um málið. Einfaldlega hef ég haft þessa skoðun frá því að ég fyrst hugleiddi þetta mál þó að ótalin dæmi um mistök og ranglæti hafi styrkt mig í þeirri skoðun og öll hafi umræðan hnigið í þá átt að sannfæra mig enn betur. Um það, hvort skoðun mín sé sú eina rétta, mun ég ekki ræða hér. E. t. v. skjátlast þáðum í einhverju. En reynslan ein og þróun mála mun skera hér úr um og þeim dómi hljótum við að hlíta.

Þau mál, sem hér um ræðir almennt, leiða þó hugann að því, hvernig umræða um þau hefur farið fram, hverja stoð skoðanir hvors aðila um sig eiga og þá um leið hversu undarlega sú umræða hefur verið fjarri því sem hér er í raun deilt um. Þar hefur mörg fjarstæðan fengið vængi. Ég hef áður gert nokkra grein fyrir því, hversu fjarstæðukennd og óraunhæf sú umræða hefur oft á tíðum orðið í ljósi þess, við hvers konar þjóðfélagsgerð við búum þó í dag. Oft hefur þessi umræða því miður færst aftur um aldir og uppvakningar ofstækis, trúarlegs og veraldlegs, hafa risið upp eins og óvitandi aðilar um alla þróun mála síðustu áratuga í átt til aukins jafnaðar og sjálfsagðra mannréttinda. Ég nefndi viljandi orðið mannréttindi því að þannig kemur þetta mál fyrir mínar sjónir sem mikilsverður þáttur í réttindum konunnar, þeim réttindum sem hún smátt og smátt hefur öðlast, réttindum sem jafnframt her að skoða í fullu samhengi við auknar skyldur, aukna ábyrgð, aukinn þroska á ýmsan veg. Hér er um nokkurn grundvallarágreining að ræða, þar sem er ákvörðunarrétturinn til fóstureyðingar. Á hann áfram að vera í höndum þar til kvaddra sérfræðinga og embættismanna eða á konan sjálf að fá þennan rétt til sín, rétt sem jafnframt leggur henni aukna ábyrgð á herðar, ábyrgð sem ég tel hana fullfæra um að axla og óumdeilanlega ekki síður en þá aðila sem þennan rétt eiga að fá áfram umfram konuna án þess þó að sannað sé að þeir séu hinn óskeikuli dómsaðili sem oft er látið í veðri vaka. Þvert á móti má leiða að því mörg gagnrök studd fjölda dæma úr sögu síðustu ára þó að ég skuli ekki fara hér nú að tilgreina þau eða tíunda, svo rækilega hefur það verið gert að þar er fátt nýtt unnt að segja. Þennan óskeikulleik er því ekki unnt að leggja til grundvallar þó að gert sé ærið oft af allt of mörgum um leið og sú spurning vaknar, hvers vegna vantrúin á dómgreind, ábyrgðartilfinningu og siðgæðisþroska konunnar kemur svo oft og víða berlega í ljós. Þetta á að vísu fyrst og fremst við um hina almennu umræðu fólks, sem þd. er matað t. d. af sumum þeim sérfræðingum sem gerst þykjast um þessi mál geta fjallað og af mestri þekkingu.

Ég á afar erfitt með að sætta míg við þetta mat á eðlisháttum konunnar, mat sem jafnvel kristallast í slíku ofstæki að svo er stundum að skilja sem konur bíði þess almennt, fullar óþreyju og löngunar að nýta til fullnustu þennan ákvörðunarrétt nánast sem getnaðarvörn. Auðvitað eru slíkar grófar ásakanir ekki svaraverðar og hafa, að ég held, sem betur fer ekki borist hér inn í umræður, en þó er eins og fnyk þeirra leggi öðru hvoru fyrir vit manni jafnvel hér.

Ég hef þá staðföstu trú að einmitt frá sjónarhóli þess aðila, sem ákvörðun tekur og afleiðingunum um leið, sé fóstureyðing fullkomið neyðarúrræði sem ekki sé gripið til af léttúð og andvaraleysi, án allrar siðferðilegrar ábyrgðar eða mannlegra kennda. Ég hlýt þá að játa, ef í þessu felst einhver sannleikur að marki, að ég þekki konur svona hörmulega illa og er þá svona steinblindur á þeirra tilfinningalíf og almennt siðgæði. En þó segir eitthvað mér það að hér fari aðrir meir villir vegar. Þeir aðilar, sem áfram eiga að hafa úrskurðarvald, eru ekki þeir hálfguðir að mínu viti að þeim beri þetta vald þó að til komi viss sérþekking á ytri hliðum þessa máls fyrst og fremst, ekki umfram þann aðila sem málið snertir frá öllum hliðum og þá ekki síst þeirri hlið sem snýr að kjarna tilfinningalífsins og hér hlýtur ævinlega hjá heilbrigðri mannveru að vera ríkur þáttur þegar andspænis ákvörðunarvaldi er staðið.

Ég hef heyrt hér talað af miklum fjálgleik um lotningu fyrir lífinu og ekki skal ég vanmeta það, sé ekki holhljómur þar í, en svo hefur mér stundum þótt því að ekki hefur allt líf verið lagt þar að jöfnu og samkvæmnin ekki verið sem skyldi — eða hví þá að dæma suma úr leik, t. d. ef um nauðgun hefur verið að ræða eða ef sjúkdómur eins og rauðir hundar gæti valdið andlegri eða líkamlegri fötlun þess lífs sem ófætt er, ef lotningin fyrir öllu lífi er svo skilyrðislaus og t. d. geistlegrar stéttar menn hafa látið í veðri vaka að þeir séu þrungnir öllum öðrum fremur? Eitthvað er a. m. k. hér sem veldur því að mér finnst ekki um hreinan eða sannan tón að ræða. E. t. v. er það fortíð þeirrar stofnunar, sem þeir þjóna, sem veldur þessu og því hef ég þá persónulega máske fyrir rangri sök. Og þó læðist efinn áfram að mér, sami efi og að mér kemur þegar öllu á að vera borgið ef sérfræðingsstimpill fylgir líka siðgæðinu og ábyrgðartilfinningunni.

Ég skal reyna að lengja ekki mál mitt með slíkum almennum hugleiðingum þó að þær sæki að mér við alla meðferð þessa máls. Þessi þáttur málsins, þ. e. fóstureyðingarnar, rétturinn og valdið þær varðandi, olli því að ég hlaut að skila séráliti og vísa beint til till. á þskj. 521 frá Soffíu Guðmundsdóttur um þær brtt. sem ég hefði kosið að gera að mínum án þess að rökstyðja það öllu frekar en ég hef þegar gert. Ég hlýt svo að mótmæla því að með þeim brtt. séu fóstureyðingar gefnar frjálsar og þær geti hindrunarlaust farið fram. Þær þrjár ástæður tilgreini ég þar í móti sem er að finna í þeim skilyrðum sem sett eru og ég tel svo sannarlega að veiti aðhald, þ, e. að fóstureyðing er heimil að ósk konu sem búsett er hér á landi og hefur íslenskan ríkisborgararétt ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12 viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla á móti aðgerð. Skilyrði er að konan hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerð og hafi hlotið fræðslu um hvaða félagsleg aðstoð stendur til boða í þjóðfélaginu fyrir þungaðar konur og við barnsburð.

Því er gjarnan haldið fram að síðasti liðurinn sé haldlaus með öllu. Eigi konan sjálf valdið í sinum höndum líti hún nánast á ráðgjöf og fræðslu sem formsatriði sem fjarri fari að hún taki mark á. Hér dugi skynsamlegar viðræður engan veg, þar sem konan viti að valdið er hennar. Þessu hlýt ég sérstaklega að mótmæla og fæ engan veg skilið þá rangsnúnu skoðun og það furðulega mat sem þar liggur til grundvallar gagnvart íslenskum konum. Hvað sem menn vilja almennt segja um upphaflega gerð frv., þar sem þetta var sett fram, þá skyldi því ekki gleymt hverjir komu nálægt því frv. og því álíti sem það var á byggt. Ég hlýt að benda á það fólk sem gerði þetta frv. að sínu og bið menn að hugleiða hvort þetta hafi verið sett þarna inn án þess að þetta fólk hefði haft á því einhverja trú sem aðhaldsatriði. Ég væni það ágæta fólk ekki um að þetta atriði hafi verið sett upp sem rós í hnappagat til friðunar slæmri samvisku, eins og ég sá einhvers staðar.

Ég legg mikið upp úr þessum atriðum öllum og bendi enn á að deilan stendur ekki um bann við fóstureyðingum eða leyfi til þeirra, heldur eingöngu um það hver skuli hafa endanlegt úrslitaorð um ákvörðunarréttinn. Þessi réttur finnst mér hljóti að vera í órofa tengslum við persónubundin réttindi hverrar konu og af því öðru fremur stafar skoðun mín í þessu máli.

Um það hefur mikið verið rætt í þessu sambandi, hverjar félagslegar kvaðir séu samfara þessum rétti, hvort börn fæðist inn í þennan heim velkomin eða óvelkomin. Um hvort tveggja má deila á ýmsan hátt og teygja á margan veg. Samfélagið þarf vitanlega að búa svo um hnútana að fóstureyðing sé óþörf af félagslegum ástæðum nema þá í hreinum undantekningartilfellum og öll börn hljóti að eiga til þess rétt umfram annað að fæðast velkomin inn í þennan heim og þá fyrst og fremst af móðurinnar hálfu. En hvorugt þessara atriða getur komið óskorað eða algilt inn í spurninguna um ákvörðunarvald sérfræðings eða konunnar sjálfrar. Hvort tveggja kemur þó inn í myndina og hvort tveggja fæ ég til að samrýmast því mætavel að konan eigi hér lokaorðið, ákvörðun sem hún ein ber á ábyrgð, sem tekin er af henni einni, þrátt fyrir ráðgjöf eftir ráðgjöf og viðræður og tekur jafnframt á sig þá skyldu sem samfara er þeirri ábyrgð, afleiðingunum af ákvörðun sinni ein og óstudd, án allra ábyrgðarstimpla annarra. Þannig kemur þetta mál mér fyrir sjónir og skal ekki frekar reifað né rætt.

Við 1. umr. lét ég í ljós skoðun mína á frv. almennt og þá alveg sérstaklega I. kafla þess, þeim veigamesta og þýðingarmesta um leið, Ég skal aðeins láta nægja nú að lesa úr nál., með leyfi hæstv. forseta, það sem þennan kafla snertir sérstaklega:

„Þýðingarmesti kafli frv. fjallar um fræðsluþáttinn og ráðgjöf alla varðandi kynlíf og barneignir. Atriði þessa kafla eru öll til bóta og í sumu um mikla framför að ræða frá gildandi lagaákvæðum. Mestu skiptir þó, hvernig framfylgt verður þeim ákvæðum sem nú verða lögfest. Þar þarf stórátök, ekki síst hvað snertir fræðsluþáttinn í skólum landsins.

Það er von mín að hin mikla umræða, sem orðið hefur almennt um þessi mál nú, muni verða til þess m. a. að betur verði fyrir þessum málum séð en gert hefur verið, þau losni úr viðjum þess gamalgróna almenningsálits, dyggilega studds af valdamiklum stofnunum þjóðfélagsins, svo sem kirkjunni, þ. e. að hér sé um að ræða feimnismál sem best fari á að sem minnst séu rædd af opinskárri hreinskilni. Í kjölfar þeirrar breytingar væri fyrst að vænta raunhæfrar framkvæmdar fræðslukaflans, svo sem brýn þörf er á.“

Herra forseti. Orð mín skulu ekki öllu fleiri. Ég tel þetta mál eitt markverðasta mál þessa þings. Ég tel að umræður þær, sem fram hafa farið um málið, hafi um of teygst út fyrir raunverulegan kjarna þess, en vil þó undirstrika að sú umræða, sem hefur orðið jafnalmenn og raun ber um vitni, hljóti að hafa haft jákvæð áhrif yfirleitt, losað um viðjar gamalla fordóma að nokkru leyti, komið málinu meira á veg hleypidómalausrar hreinskilni en þó mátti við búast, svo lengi sem hér hefur verið um feimnismál að ræða og er enn að vissu leyti. Vakandi, öfgalaus umræða áfram um mál þetta, átak í fræðsluþættinum, ráðgjafarhliðinni í kjölfar hennar mun vera farsæll bandamaður aukinnar viðsýni og um leið aukins siðferðisþroska. Síðar munum við fá dóm yfir þessari löggjöf og úr því skorið að meira eða minna leyti, hversu rétt er hér stefnt og hvar betur hefði mátt fara. Um það er rétt að láta reynsluna dæma svo sem jafnan þegar tilfinningar og hleypidómar koma inn í myndina meira og minna. Ég styð þetta frv. að öðru leyti eins og ég hef áður gert grein fyrir og mæli alveg sérstaklega á móti hvers kyns afturhvarfi enn til viðbótar frá upphaflegri gerð þess.