09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

130. mál, fóstureyðingar

Axel Jónsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 3. þm. Vestf., Þorv. Garðars Kristjánssonar, vil ég í fyrsta lagi taka þetta fram:

Fóstureyðingar sem stjórnsýslutæki, eins og hugsanlegt er að þær séu einhvers staðar notaðar í dag, eða verðlaunaveitingar Mussolinis á sínum tíma fyrir svo og svo marga fædda syni tel ég ekkert eiga skylt við það frv. sem hér er til umræðu.

Félagslegar ástæður eru að mínum dómi annar meginþáttur réttlætingar þess sem hér er lagt til. Vissulega þarf að bæta úr félagslegum vandamálum nútíma þjóðfélags hér á landi. Það hljótum við allir að geta verið sammála um. En ég vildi spyrja: Hverjir fóru með atkvæði Íslands á tilvitnuðu Evrópuþingi? Ég mótmæli öllum ásökunum í garð íslenskra kvenna um að þær muni misnota þær takmörkuðu heimildir sem felast í frv. og sér í lagi brtt. á þskj. 521. Ég greiði því atkv. gegn brtt. á þskj. 588.

Það er eðlilegt að menn greini á um það hvort leyfa eigi fóstureyðingar eða ekki. Þar á ég við hvort nokkurn tíma eigi að leyfa fóstureyðingar. Ég virði skoðanir manna sem eru alveg eindregnir á því að það eigi aldrei að leyfa slíkt. En ég er í hópi þeirra sem telja að það eigi að leyfa fóstureyðingar sem algjört neyðarúrræði og ég ræði málið út frá því sjónarmiði, Ég lít ávallt og hlýt ávallt að líta á fóstureyðingu sem algjört neyðarúrræði, og í áframhaldi af þessari skoðun minni vil ég ræða þann ágreining sem fyrst og fremst er uppi hér í hv. d. og var raunar í hv. Nd. líka, þ. e. um hinn endanlega ákvörðunarrétt innan þeirra þröngu marka sem í frv. er að finna varðandi fóstureyðingarnar.

Ég viðurkenni í fyrsta lagi umsögn lækna sem eitt sjálfsagt og fyrsta skilyrði. Ég viðurkenni einnig félagsráðgjafa, bæði umsögn og ráðleggingar sérfróðra aðila á sviði félagsmála. Að þessu viðbættu er það mín bjargföst sannfæring að það sé fyrst og fremst konunnar að taka þá ákvörðun sem ég tel að ávallt sé og verði neyðarúrræði og undanskil enga sérfræðinga, með fullri virðingu fyrir þeim. Ég tel í þessu komi framar til álita kvenna um ákvörðun í þessu vandamáli. Ég treysti í þessu tilfelli íslensku konunum best.

Ég vil þá aðeins vitna til þess að í 11. gr. frv., á bls. 3, þar sem kveðið er á um að það skuli vera tilteknir sérfræðingar, læknar og félagsráðgjafar, er þó ekki lagt bann við því að þessir tilteknu embættismenn séu konur.

Ég lýsi því yfir að meginefni frv. er til framfara að mínum dómi og alveg sérstaklega I. kafli þess. Ég styð þær brtt. sem fram eru komnar á þskj. 521. Nái þær ekki fram að ganga mun ég standa að samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.