26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

51. mál, gerð landshlutaáætlunar Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og fyrir þær undirtektir sem þetta mál hefur hlotið hjá honum. Ég vil minna á í þessu sambandi sérstaklega að í Norður-Þingeyjarsýslu hefur t.d. landbúnaður átt við erfiðleika að stríða vegna kals og kaldrar veðráttu á síðasta áratug og ég álít að nú séu aðstæður þar þannig að eðlilegt sé að landbúnaðurinn þar verði tekinn sömu tökum eða með svipuðum hætti og gert var í Inn-Djúpi og verði höfð svipuð vinnubrögð. Það er enginn vafi á því að það má verulega efla allan landbúnað og þar með byggð í Norður-Þingeyjarsýslu með því að huga sérstaklega að þeim málum, en láta þessa landshlutaáætlun ekki ná einvörðungu til sjávarplássanna og til almennra félags- og heilbrigðisþátta.

Ég vil enn fremur beina því til hæstv. forsrh. og til hæstv. iðnrh., hvort þeir geti tekið það til athugunar að Norður-Þingeyjarsýsla verði látin hafa sérstöðu í sambandi við húshitun og rafmagnsmál almennt. Ég álít að það sé ástæða til þess að taka upp þá stefnu á þessu svæði og annars staðar, þar sem ástæður eru svipaðar, að heimila þegar í stað húshitun með rafmagni í nýjum húsum þótt hins vegar sé ekki hægt að fara út á þá braut almennt. Í þessari sýslu má rökstyðja þetta sérstaklega m.a. með því að fyrirsjáanlegt er að ekki muni verða um það að ræða að hús þar verði hituð með hveraorku.

Ég vil því ítreka þakkir mínar til hæstv. forsrh. og þær góðu undirtektir, sem þetta mál hefur fengið, og vænti þess að þess verði ekki langt að biða að eitthvað raunhæft og áþreifanlegt komi út úr þessari áætlunargerð.