09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Jón Árnason:

Aðeins örfá orð, herra forseti. Það er út af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. þar sem hann talaði um sína hörðu andstöðu í sambandi við gengisbreytinguna sem varð 29. ágúst. Það er alveg rétt. Í sambandi við gengisbreytinguna var hörð andstaða af hálfu stjórnarandstöðunnar. En það var ekki það mál sem við vorum að tala um. Það voru lögin sem komu í kjölfarið á gengisbreyt., það er um ráðstöfun á gengishagnaðinum, það er allt annað mál og það er það mál sem við erum að tala um í dag. Og það var hvorki hv. 1. landsk. þm. né aðrir í stjórnarandstöðu sem höfðu opin augun fyrir þessu á þeim tíma. Það var hæstv. sjútvrh. sem gekk strax í það eftir að þessi lög voru samþ. að láta þetta ekki koma til framkvæmda á þann hátt sem ákvæði var um í lögunum varðandi þessar 400 millj. Hér er um tvö mál að ræða.

Ég held því fram — þó að hv. 1. landsk. segi að við hlustum ekki alltaf á þá — að ég minnist þess ekki, þó að ég hafi verið hér yfirleitt í d. þegar þessi mál hafa verið rædd, að það hafi verið hörð andstaða hjá stjórnarandstöðunni varðandi þetta atriði, ráðstöfun á gengishagnaðinum. Það kann að vera við nána eftirgrennslan og leit í ræðum þeirra frá þessum tíma að það komi skýrt í ljós að það sé rétt sem þeir halda hér fram, og þá er sjálfsagt að hafa það sem sannara reynist.