09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem fékk þetta mál til meðferðar og ég er mjög sammála flm. um nauðsyn þess að efla þá starfsemi sem geri það að verkum að draga úr drykkjusýki í landinu. Þetta frv. er fyrst og fremst flutt af þeim orsökum að Gæsluvistarsjóður hefur ekki reynst þess megnugur að gegna hlutverki sínu. Ég tel eðlilegt að Gæsluvistarsjóður verði efldur og honum gert kleift að gegna hlutverki sínu og tel varhugavert að dreifa kröftunum mjög mikið í þessu sambandi, stofna nýja og nýja sjóði. Hitt er svo annað mál, að ég tel að það sé mjög gott og þarflegt að þetta mál hefur komið hér fram. Það hefur komið í ljós að það er eindreginn vilji alþm. að efld verði sú starfsemi sem miðar að því að koma í veg fyrir drykkjusýki. Ætti það að vera nægilegt til þess að tekið verði tillit til þess við afgreiðslu næstu fjárlaga. Það hefur komið mjög eindregið fram hér að menn eru sammála um það. En þar sem ég tel að það sé ekki rétt að dreifa kröftunum um of mun ég sitja hjá við atkvgr., en vil ekki hindra framgang málsins.