09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel það alveg sjálfsagða skyldu þjóðfélagsins að verja fjármunum til þeirra hluta sem ákveðið er að styrkja í frv. sem hér er til umr. En ég get ekki að því gert að mér finnst þessi leið til fjáröflunar frekar óviðfelldin að meira sé ekki sagt. Þegar var verið að ræða fjárl. fyrir yfirstandandi ár kom í ljós að markaðir tekjustofnar, eins og það var orðað, voru komnir á 7. milljarð. Það voru margir mætir menn sem bentu á að þessi stefna væri frekar óviðfelldin og hvimleið og það væri frekar ástæða til þess að stöðva þá þróun sem hefði orðið um að ráðstafa með lagaákvæðum fyrir fram til langs tíma ákveðnum tekjum samkv. gildandi lögum.

Hér er verið að gera ráð fyrir því að bæta einum bögglinum enn ofan á þessa munaðarvöru og það ekki neitt til bráðabirgða, það á að gera þetta næstu 10 ár. Ég held að hvað sem sé um það sagt, þá sé nú búið að bæta þeim bögglum ofan á þessa munaðarvörn að það sé vægast sagt varla fært að gera það öllu betur. Og hvort sem manni líkar betur eða verr, þá verðum við að hafa kjark til að horfast í augu við þær staðreyndir að það eru í þessu þjóðfélagi einstaklingar sem taka þessa vöru og veita sér hana frekar og neita sér um annað sem er þarfara. Og hversu gott málefni sem hér er verið að ræða um til styrktar, þá verð ég að lýsa því yfir að ég kana ekki við að hafa það á tilfinningunni, vitandi að það er fullt af sjúku fólki sem hefur orðið sjálfu sér, ættingjum sínum og öðrum til skaða vegna misnotkunar á áfengi, að á sama tíma sé þetta fólk, sem er kannske að eyðileggja fjárhag sinn, lífshamingju sína og ástvina sinna, að greiða í sjóð til þess að bjarga sér upp úr þessu. Þetta er sjálfhelda, sjálfsblekking, sem ég kann ekki við og mér finnst ekki sæmandi fyrir hv. Alþ. að nota og auglýsa hvernig það vilji leysa þetta vandamál sem við erum allir sammála um að er háskalegt vandamál hjá þjóðinni. Ef hv. Alþ. hefur ekki kjark og manndóm í sér til þess að taka á þessum vanda þjóðfélagsins, sem vissulega er mikill, með meiri reisn en gert er í þessu frv., þá get ég ekki verið stuðningsmaður að slíkri stefnu. Ég held að það hljóti að vera markmiðið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég skal leggja mitt litla lóð á vogina til styrktar því að þessi sjóður, sem við allir erum sammála um að þurfi að efla, verði efldur. En ég vildi mega fara þess á leit við hv. flm. þessa frv. að hægt væri að leita samkomulags við hann um að leysa þetta mikla vandamál á annan geðfelldari hátt en gert er með ákvæðum, þessa frv.