09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma þá afstöðu sem kom fram hjá hv. þm. 2. þm. Norðurl. e., Jóni G. Sólnes. Ég skil ekki hvað yfir hann hefur komið. Það er lagt á gosdrykki, það er lagt á tóbak og það er lagt á ýmsar aðrar neysluvörur til þess að hjálpa til við góð málefni. Og ég vil endurtaka það sem ég sagði hér fyrr í dag um þetta frv.: Ég álít þetta gott og þarft mál sem á að hljóta hér góðar undirtektir og mun styðja flm., en endurtek þó að ég álít að stærri hlutinn af þeim peningum sem inn koma vegna þessarar tekjulindar, eigi að fara í að byggja dvalarheimili, vinnu- og endurhæfingarstöðvar eða afvötnunar- og ráðleggingarstöðvar og minni hlutinn af þeim peningum, sem inn koma, ætti þá að fara í að veita lán og styrki til þeirra félagssamtaka og annarra sem vinna gegn áfengisbölinu. Ég held að fólk, sem neytir áfengis í það ríkum mæli að það þarf að fara til meðhöndlunar lækna eða annarra, fái þá meðhöndlun sem það þarf í ráðgjöf í slíkum þjónustustofnunum. Og ég endurtek það, sem ég sagði hér fyrr í dag, að ég vona að flm. sjái hugsun mína í þessu máli og kannske að það verði til þess að hann sjálfur breyti þeim hlutföllum sem er minnst á í 2. gr. En þótt hann geri það ekki mun ég styðja þetta góða mál þrátt fyrir það.

Mig langar til að svara hv. 6. þm. Norðurl. e. vegna þess að ég er einn af þeim sem hafa haft hátt í miðborg Reykjavíkur frá fæðingu og átti hér mína æsku og tel mig ekki hafa verið óreglumann. Það er rétt að það er oft frá föstudagskvöldi til sunnudagsmorguns mikið að gera í miðborg Reykjavíkur. Þó er það hrein hátíð hjá því sem áður var þegar ekki voru aðrir staðir en miðborg Reykjavíkur til þess að safnast saman á, skautasvell var á Austurvelli o. s. frv. En ég vil að hv. þm. geri sér grein fyrir tápi og fjöri íslenskrar æsku sem er fallegt og þróttmikið fólk. Það er fyrirferðarmikið og hávært og það á að vera það. En það má ekki dæma alla, sem skemmta sér og eru kátir og glaðir og jafnvel að næturlagi, sem drykkjufólk og ekki heldur láta það berast að fólk geti ekki verið hávært og glaðvært og fyrirferðarmikið án þess að vera undir áhrifum áfengis. Ég hef sjálfur reynsluna af því.

Þessi hávaði vegna áfengisneyslu í æskunni er ekkert staðhundinn við Reykjavík. Það er langt frá því. Það má segja að þar sem æskumenn koma saman til skemmtana er því miður allt of mikið af áfengi meðhöndlað og notað þannig að ég vil afbiðja höfuðborginni einni slíkt. Hitt er annað mál að ég skal viðurkenna að vandamálið er til meðal æskufólks af þessum orsökum, af ofneyslu á áfengum drykkjum.

Ég ætlaði nú rétt að hreinsa höfuðborgina af því að vera ein um að hafa hávaðasama og drykkfellda æsku. Ég held að það sé miklu minni hlutinn af æsku borgarinnar og æsku landsins sem er drykkjusjúkur og háður neyslu áfengra drykkja og því síður öðrum hættulegum efnum, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. gat um og þá sérstaklega hass. En ef hægt er með fógetavaldi handa hundum eða öðrum skepnum, eins og fram kom í hans ágætu ræðu, að koma í veg fyrir frekari innflutning eða útbreiðslu á drykkju og fíknilyfjum, þá held ég að ég vildi frekar auka þann fógetafjölda sem er á fjórum fótum en á tveimur ef það ber betri árangur.

En sem sagt, ég bið hv. b. þm. Norðurl. e. að hafa það í huga að það er sem betur fer tiltölulega fámennur hópur af íslensku æskufólki sem á við drykkjuvandamál að stríða og hávaðinn, sem frá unga fólkinu stafar, er vegna þess að við eigum tápmikla og hrausta æsku sem á að hafa hátt. En það er stór hluti, miklu stærri hluti, af íslenskum æskumönnum sem hafa hátt sem ekki er undir áhrifum neinna lyfja eða áfengra drykkja.