26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

299. mál, kennsla í sjúkra- og iðjuþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 21 leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvað veldur þeirri miklu töf sem orðið hefur á opnun námsbrautar í sjúkra- og iðjuþjálfun við Háskóla Íslands?“

Þörf heilbrigðisþjónustunnar fyrir sérfróðan vinnukraft fer stöðugt vaxandi. Meðal þessara stétta eru sjúkraþjálfarar. Árum saman hefur okkur vantað tugi sjúkraþjálfara til starfa á heilbrigðisstofnunum okkar. Orsökin er aukin slysatíðni, hækkaður meðalaldur ásamt meiri fjölbreytni í störfum sjúkraþjálfara, aukinn skilningur á gildi sjúkraþjálfunar o.s.frv. Þá er nú svo, að það er óhugsandi að stunda lækninga- og endurhæfingarstarfsemi með viðunandi árangri án þess að geta notið þessara starfskrafta.

Það munu nú vera um 5 ár síðan yfirlæknir Reykjalundar, Haukur Þórðarson, fór að vinna að því að koma hér á fót kennslu fyrir sjúkra- og iðjuþjálfara sem sérstakri námsbraut við Háskóla Íslands. Hingað til hafa okkar sjúkra- og iðjuþjálfarar orðið að sækja menntun sína til útlanda. En það gerist æ erfiðara að fá skólavist erlendis og er ekki annað sjáanlegt en að framundan sé vandræðaástand í þessum efnum hjá okkur. Læknadeild og Háskóli Íslands munu hafa áhuga á því að opna námsbraut í sjúkra- og iðjuþjálfun og það eru tugir ungmenna sem bíða eftir tækifæri til þess að fá að nema þessi fræði. Enn fremur er fjöldi stofnana sem biður eftir starfskröftum þeirra. En ástandið er svo nú, að mér er sagt, að á stærstu sjúkraþjálfunarstöð landsins, þjálfunarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, eru aðeins 3 stöður fullskipaðar, en þyrftu að vera 12. Þar er húsnæði fyrir hendi, þar eru tæki fyrir hendi, sjúklingarnir bíða, en það vantar aðeins þennan nauðsynlega sérfróða starfskraft. Og ótal stofnanir aðrar í landinu vantar þjálfara. Það þyrfti að ráða svo sem 40 til viðbótar nú þegar.

Þegar nýja heilbrigðislöggjöfin fer að virka, en hún gerir ráð fyrir sjúkraþjálfara á hverri heilsugæslustöð, er sýnilegt að þörfin vex til mikilla muna. Nýjar og auknar aðgerðir á bækluðu fólki kalla einnig á aukið starfslið á þessu sviði. Meðan svona er ástatt eru innlendir og erlendir sérfræðingar að velta því fyrir sér árum saman hvernig eigi að fara að því að opna þessa margumtöluðu námsbraut við Háskóla Íslands. Því spyr ég hæstv. menntmrh.: „Hvað veldur þeirri miklu töf sem orðið hefur á opnun námsbrautar í sjúkra- og iðjuþjálfun við Háskóla Íslands?“ Og í öðru lagi: „Hvenær hefst kennsla í þessum fræðum ?“