09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3711 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. svaraði því til að gerðist ekkert óvænt, þá yrði ekki um að ræða aðra hækkun en þá hækkun, sem felst í lögunum og nemur 3%. Ég ætla ekki að fara að rökræða um hvort von geti verið á einhverjum óvæntum hlutum, og ég er ekki hissa á því svari hans að ef óvæntir hlutir gerist kunni að vera þörf á hækkun tryggingabótanna. En það þykir mér hins vegar verra, að miðað við það, sem allir sjá, má vænta að á þeim ársfjórðungi, sem nú er að líða, verði mjög verulegar verðlagshækkanir. Þetta veit hæstv. ráðh. í dag og telur sem sagt ekki þá hluti óvænta. Þetta veit hann og sér. Miðað við það að þetta blasir við felst í svari ráðh, að ekki verði um neina aðra hækkun að ræða en þessi 3%. Að öllu óbreyttu þýðir það að kjör lífeyrisþega eiga eftir að rýrna mjög verulega á næstu vikum og mánuðum. Ég sem sagt get ekki dregið neina aðra ályktun af svari ráðh., en ég þakka honum hins vegar fyrir hreinskilnisleg svör.