09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

224. mál, tónlistarskólar

Ég skal, herra forseti, ekki eyða tíma í að lesa skýringar við frv. að öðru leyti en því, að í stuttu máli verða þær lagabreyt, sem frv. þetta felur í sér, eftirfarandi:

1. Að skólagjöld lækka um ca. helming því að það er álit allra að ef þessi lög ná ekki fram að ganga séu líkur á því að tónlistarfræðsla eða tónlistarskólar starfi ekki á komandi vetri. Samkv. gildandi lögum er ríkið aðeins skyldugt til að greiða 1/3 af rekstrarkostnaði gegn því að viðkomandi sveitarsjóðir greiði 1/3. Því hefur alltaf orðið að ná inn 1/3 gegnum skólagjöld, og það er orðið það há upphæð að ekki tekur tali og eins og ég sagði áður mundi það þýða að miklar líkur væru á því að tónlistarfræðsla í núv. mynd legðist niður.

2. Sveitarfélögin verða virkari þátttakendur í rekstri skólanna ef þetta frv. verður að lögum og kennarar við tónlistarskólana verða ráðnir af sveitarfélögunum og geta þar með öðlast sömu réttindi og aðrir kennarar, þ. e. a. s. aðild að lífeyrissjóðum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. geri nánari grein fyrir brtt. okkar.