09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

224. mál, tónlistarskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég þarf ekki að ræða um gildi þessa frv. eða nauðsyn þess að það nái fram að ganga. Ég fagna því að sjálfsögðu að það er fram komið og mun eindregið stuðla að því að það verði samþ. hér í þinginu.

En ég get ekki neitað því að viss ákvæði frv. eru dálítið losaralega samin og ógreinileg. Eins og menn vita er hér í mjög mörgum tilvikum um að ræða tónlistarskóla sem eru reknir af öðrum aðilum en ríki eða sveitarstjórnum, og hér er um það að ræða að launin verði greidd af viðkomandi sveitarfélagi og ríkissjóði. Þetta kemur fram í 2. gr. þar sem segir, að sveitarfélögin annist launagreiðslur. Hins vegar kemur í rann og veru hvergi fram hvaða aðili eigi að ráða starfsliðið og með hvaða hætti það gerist. Eins kemur í raun og veru hvergi skýrt fram hver verði réttindi þeirra sem starfa við skóla af þessu tagi. Af þessum sökum höfum við hv. þm. Axel Jónsson leyft okkur að flytja nokkrar brtt. við frv. sem allar eru breyt. á 2. gr.

Vegna þess hversu seint brtt, er fram komin hefur hún ekki verið prentuð á sérstöku þskj., heldur hefur vélrituðu eintaki mínu verið dreift meðal þdm. og þar hafði ég fyrir sjálfan mig undirstrikað hverjar væru viðbæturnar frá hinni fyrri grein og ætti það að auðvelda mönnum að átta sig á því í hverju breyt. eru fólgnar.

Þær eru í fyrsta lagi að skotið er inn í setningu sem slær því föstu, að sveitarstjórn ræður skólastjóra og kennara að fengnum till. skólanefndar, og teljast þeir starfsmenn sveitarfélagsins. Ég vil þó taka það fram að einmitt með þessu orðalagi er verið að stuðla að því skipulegi að það sé raunverulega skólanefndin sem hafi með ráðningu starfsmannanna að gera og taki ákvarðanir um hverjir starfi við skólana, en sú ákvörðun sé háð samþykki sveitarstjórnarinnar sem á að borga brúsann, þannig að sveitarstjórnin hefur raunverulegt neitunarvald í þessu tilviki. Hins vegar er að sjálfsögðu eðlilegt að frumkvæðið sé í höndum skólanefndar, og orðalag gr. stuðlar að því.

Í öðru lagi hefur verið skotið inn orðinu „mánaðarlega“ sem, ef samþ. verður, kemur því til leiðar að greiðslur frá ríkinu greiðast mánaðarlega til sveitarfélaganna, en verða ekki greiddar eftir dúk og disk, eins og oft vill verða, kannske einu ári síðar, sem getur verið mjög bagalegt fyrri fátæk sveitarfélög, og gert þeim bókstaflega ókleift að reka skóla af þessu tagi.

Í þriðja lagi er málsgr. sem ákveður hlutverk skólanefnda. Á slíkar stofnanir er hvergi minnst í frv., en er að sjálfsögðu nauðsynlegt, þannig að þær geti orðið aðilar að ráðningu starfsmannanna, en þar segir:

„Skólanefnd, skipuð fulltrúum eignaraðila skólans, fer með fjárreiður skólans, en viðkomandi sveitarfélag skal ávallt eiga fulltrúa í nefndinni.“

Þetta er mjög rúmt og teygjanlegt ákvæði eins og menn sjá. Það er ekki tilgreint hversu fjölmennar nefndirnar skuli vera eða hversu marga fulltrúa sveitarfélagið skuli eiga í skólanefndinni og er það eðlilegt þar sem oft kann að standa svo á að mörg sveitarfélög standi að skólarekstri. En það er einmitt breyt., sem felst svo í 3. málsgr., um að eitt eða fleiri sveitarfélög geti staðið að rekstri tónlistarskólanna. Þá brtt. flytur reyndar n. sjálf á sérstöku þskj. þannig að þetta er meira til samræmis að við höfum sett þessa setningu inn í brtt.

En að lokum er svo eftirfarandi setning í lok tillögugreinarinnar:

„Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er heimilt að taka starfsmenn tónlistarskóla, sem starfa samkv. lögum þessum, í tölu sjóðfélaga, sbr. 4. gr. l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og önnur ákvæði þeirra laga.“

Ég held að nauðsynlegt sé að hafa ákvæði af þessu tagi til að taka af öll tvímæli um það að þessir starfsmenn eigi rétt á að ganga inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En það er því miður alls ekki ljóst af frv. eins og það liggur fyrir, og veit ég að kennarar og skólastjórar tónlistarskóla hafa haft af þessu nokkrar áhyggjur. Staða þeirra var það losaralega skilgreind að ekki var hægt að tryggja að þeir ættu aðild að þessum sjóði öðruvísi en það væri skilmerkilega fram tekið. En í 4. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er einmitt heimild til þess að starfsmenn sveitarfélaga geti orðið aðilar að þessum sjóði. Það hefur þó ekki orðið nema í tiltölulega fáum tilvikum, og til þess að auðvelda það að þetta geti orðið er þessi tillögugrein orðuð á þennan veg,

Ég held að ekki þurfi að útskýra þessa brtt. frekar. Ég veit ekki til að nokkur ágreiningur sé um efni till. og vænti þess því eindregið að samstaða geti um hana tekist.